Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Qupperneq 30
Neinn og engi(nn) gátu því gegnt sömu þremur hlutverkunum í forn-
íslensku, 6, 7 og 8. Notkunarsvið þeirra beggja hefur dregist saman síðan
þá, þó meira hjá engi(nn) þar sem notkunin er nú bundin við hlutverk 7
(beina neitun).
Það er athyglisvert að öll fjögur fornöfnin sem rædd hafa verið hingað
til geta komið fyrir í hlutverki 8. Þetta hlutverk er ásettara í forníslensku
en í þeim málum sem Haspelmath skoðaði. Þar kemur fyrir (í þýsku og
frönsku) að þrjár fornafnaraðir gegni hlutverki 8 en þær eru hvergi fleiri
en það. Á miðbiki tengslakortsins (hlutverk 4, 5, 6 og 8) er almennt meiri
skörun fornafnaraða en á jaðarsvæðunum lengst til vinstri og hægri. Að
sjá skörun í hlutverki 8 þarf því ekki að koma á óvart þótt vissulega sé hún
hér óvenjulega mikil.
3.2.4 Hlutverk 9: valfrelsi
Noreen (1923:323) segir nokkur fornöfn tjá merkinguna ‘was/wer auch
immer’, þ.e. ‘hvað/hver sem er’, í fornu máli: hvatki, hvatvetna, hvat,
hvergi, hvárgi (um tvo) og velhverr. Á sem er-fornöfn minnist hann ekki
enda er ekki hefð fyrir því að greina t.d. hver sem er sem sérstakt fornafn.
Hvatki og hvergi (sem greina mætti sem hvorugkyn og karlkyn sama for-
nafns, hvergi) virðast þó ekki koma fyrir sem fornafn í valfrelsishlutverki
í forníslensku með óyggjandi hætti nema tilvísunarorð (sem, er) og sögnin
vera fylgi með:
(27) ef eldur kemur í hús manns eða í andvirki hvertki sem er … (Grágás,
ONP GrgKonI 2325, hdr. um 1250)
Hvertki sem er (í karlkyni hvergi sem er) stendur þarna með nafnorðinu
andvirki, ‘hvaða andvirki sem er’.27 Fornafnið hvergi merkir annars oft
‘sérhver, hver og einn’:
(28) hversu hvergi vor hefir honum þá miskunn launaða. (Hómilíubókin,
ONP HómÍsl15 (1993) 21v11, hdr. um 1200)
Katrín Axelsdóttir30
27 Í fornu máli er algengt að hvergi komi fyrir í samhengi eins og í dæmi (i):
(i) Nú hvergi maður er gefur til heimanfylgjunnar, þá skal sá taka gjöf þá eftir hana
barnlausa … (Grágás, ONP GrgKonI 22127, hdr. um 1250)
Hér er sögnin gefa og merking fyrri setningarinnar er ‘sama hver gefur til heimanfylgjunn-
ar’. Slíkar setningar kallast ‘hv’-viðurkenningar-skilyrðissetningar (e. parametric conces-
sive conditional clauses). Ýmis fornöfn í valfrelsishlutverki eiga rætur að rekja til slíkra setn-
inga með sögnum sem merkja ‘vera’ (Haspelmath 1997:135 o.áfr.). Fornöfn á borð við hvergi
sem er eru örugglega sprottin af slíkum setningum.