Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Blaðsíða 38
kvæðar væntingar með fornafninu nokkur meðan það fornafn var not að
fullum fetum í hinum „jákvæðu“ hlutverkum 1–3. Það virðist ekki mjög
sennilegt. Spurnarsetningar með nokkur og ótvíræðum neikvæðum vænt-
ingum — ef einhverjar slíkar fyndust — gætu þá verið vísbendingar um að
nokkur hafi ekki tíðkast lengur í hlutverkum 1–3.
5. Niðurlag
Hér hefur verið skoðað að hvaða leyti notkun nokkurra óákveðinna for-
nafna í íslensku, einkum nokkur, einhver, neinn og engi(nn), var önnur í
fornu máli en nú. Þetta var gert með nálgun sem Martin Haspelmath
(1997) mótaði í stórri samanburðarrannsókn en hún byggðist á að athuga
hvernig fyrir fram skilgreindur hópur óákveðinna fornafna (eða fornafna -
raða) í mörgum málum væri notaður í níu kjarnahlutverkum: tiltekið og
þekkt, tiltekið og óþekkt, ótiltekið og óraunverulegt, spurning, skilyrði,
óbein neitun, bein neitun, samanburður og valfrelsi. Nálgunin er hentug
leið til að bera saman mál og þá einnig mismunandi málstig. Saman burður
nútímamáls og fornmáls leiddi í ljós talsverðar breytingar. Fyrst er að
nefna að notkunarsvið nokkur, neinn og engi(nn) hefur dregist saman. Þannig
var t.d. áður hægt að nota nokkur í hlutverkinu ótiltekið og ótilgreint
(Hefir hver til síns ágætis nokkuð) og neinn og engi(nn) í samanburði (Hann
var sterkari en neinn maður; Hafði Snorri þá miklu meira fé en engi annarra)
en þessi notkun tíðkast ekki lengur. Svið einhver er nú svolítið annað en
áður og tíðni þess fornafns hefur snaraukist í ýmsum hlutverkum. Það á
t.d. við skilyrðissetningar; einhver virðist hafa verið sjaldgæft í því hlut-
verki að fornu. Þá hefur komið upp verkaskipting nokkur og einhver í
spurnarsetningum og jafnvel líka skilyrðissetningum (einhver er notað ef
væntingar eru jákvæðar eða hlutlausar en nokkur ef þær eru neikvæðar).
Þessarar verkaskiptingar gætti ekki í fornu máli. Ekkert í samanburðin-
um stangaðist á við þær alhæfingar sem Haspelmath setur fram um breyt-
ingar á hlutverkadreifingu óákveðinna fornafna: hlutverk íslensku for-
nafnanna virðast ekki hafa breyst á óviðbúinn hátt miðað við þau gögn
sem hér lágu til grundvallar.
Á ýmsu öðru hefur hefur verið tæpt sem á skilið ítarlegri umfjöllun.
Minnst var á að dæmi eru um fornafnanotkun í nútímamáli sem víkur frá
þeirri greiningu nútímamáls sem byggt var á við samanburðinn hér (t.d.
maður nokkur, í hlutverkum 1 og 2). Þessi notkun virðist í fljótu bragði
stangast á við alhæfingar sem Haspelmath setur fram en sú umræða bíður
betri tíma. Annað sem vikið var að stuttlega er fornafnanotkun í forn-
Katrín Axelsdóttir38