Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Page 41
þorsteinn g. indriðason
Um eðli og einkenni áhersluforliða í íslensku
1. Inngangur
Þessi grein segir frá rannsókn á eðli og einkennum áhersluforliða (e. bound
intensifiers) í íslensku.1 Flestir þessara liða tengjast lýsingarorðum og því
verður lögð mest áhersla á að fjalla um þannig formgerðir. Áhersluforliðir
eins og t.d. arfa-, fanta-, pöddu-, eitur- og svín- eru um margt áhugaverðir
vegna sterkra tengsla við samsvarandi nafnorð. Þótt þessi tengsl séu sterk
að forminu til hafa áhersluforliðirnir misst merkingu nafnorðsins og eru
fyrst og fremst notaðir til þess að leggja sérstaka áherslu á merkingu lýs -
ingar orðsins sem þeir standa með. Áhersluforliðirnir hafa því ákveðið
(mál fræðilegt) hlutverk en halda jafnframt formlegum tengslum við sam-
svarandi nafnorð. Eitt af því sem athugað verður er því hvar staðsetja eigi
þessa liði í orðmynduninni (afleiðslu og samsetningu) og þá jafnframt
hvort tengja megi liðina við kerfisvæðingu (e. grammaticalization); liðirnir
eru sumpart líkir sjálfstæðum orðum og sumpart forskeytum (sjá t.d.
Þorstein G. Indriðason 2016b:11–15 um skilin á milli afleiðslu og sam-
setningar).2 Rannsóknin miðast við áhersluforliði í nútímamáli en sumir
þessara liða finnast þegar í eldra máli, sbr. athugun Þóru Bjarkar Hjartar -
dóttur (1984) á sams konar liðum í fornmáli. Í athugun Þóru er þessum
Íslenskt mál 40 (2018), 41–72. © 2019 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.
1 Greinin er unnin upp úr erindi sem ég flutti í rannsóknarhópi í norrænni málfræði
við Björgvinjarháskóla í apríl 2015, á 26. skandínavísku málvísindaráðstefnunni í Álaborg
í ágúst 2015, í málvísindakaffi Íslenska málfræðifélagsins og Málvísindastofnunar Háskóla
Íslands í september sama ár, á 22nd Germanic Linguistics Annual Conference (GLAC 22) við
Háskóla Íslands í maí 2016 og á fundi íslenskukennara í Gautaborg í maí 2017.
Áheyrendum við þessi tækifæri eru þakkaðar góðar ábendingar. Ég þakka sömuleiðis
tveimur nafnlausum ritrýnum og ritstjórum Íslensks máls ágætar tillögur til úrbóta en allt
það sem missagt kann að vera skrifast á minn reikning.
2 Hægt er að nota ýmis atviksorð til þess að leggja sérstaka áherslu á lýsingarorðin.
Nefna má að í seinni tíð hefur notkun atviksorðanna geðveikt, sjúklega og fokking orðið æ
algengari, sbr. eftirfarandi dæmi:
(i) a. Jón er alveg geðveikt fyndinn.
b. Þetta var sjúklega vandræðalegt augnablik.
c. Þessi framkoma við hann var fokking ömurleg.