Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Síða 50
sjálfstæðum orðum, oftast nafnorðum en líka lýsingarorðum og jafnvel
sögnum. Þeir líkjast hins vegar forskeytum að því leyti að þeir eru notaðir
á kerfisbundinn hátt til þess að leggja grunnorðinu til sérstaka merkingu.
Annað atriði sem gerir þá líka forskeytum er að þótt þeir beri oftast aðal -
áherslu er við ákveðnar aðstæður mögulegt að flytja áhersluna yfir á grunn -
orðið líkt og getur gerst í forskeyttum orðum, sbr. forskeytið ó- í eftirfar-
andi dæmum: ’óalandi – ó’alandi. Þannig er hægt að bera orð eins og
öskuillur fram á tvennan hátt; annars vegar með aðaláherslu á forliðinn,
sbr. Guðrún varð ’öskuill við þessar fréttir, eða þá að hægt er að leggja
áherslu á grunnorðið, sbr. Guðrún varð (bara) ösku’ill við þessar fréttir. Í
samsetningum er það hins vegar fyrri liðurinn sem ber aðaláhersluna og
nær útilokað að flytja áhersluna yfir á seinni liðinn, sbr. dæmi eins og
Hekla byrjaði að gjósa um miðnættið í gær og varð strax töluvert ’öskufall. Hér
verður áherslan að vera á ösku-, ekki gengur að flytja hana á seinni liðinn
-fall.
Höskuldur Þráinsson (1995:133) skilgreinir samsett orð þannig: „Orð
eru nefnd SAMSETT ef þau eru gerð úr tveimur eða fleiri orðum (hafa
fleiri en eina rót)“ og Guðrún Kvaran (2005:10) er á svipuðum slóðum,
nefnilega að samsett orð séu „mynduð úr að minnsta kosti tveimur rót -
um“. Samsetning er frjóasta orðmyndunin í íslensku og nokkrar tegundir
eru til af henni. Fyrst skal telja stofnsamsetningu þar sem tveir stofnar
eru settir saman, sbr. hest-hús. Í öðru lagi eru til eignarfallssamsetningar
þar sem fyrri liðurinn er í eignarfalli, óháð því hvaða fall seinni liðurinn
hefur. Eignarfallsliðurinn getur þá verið í eintölu, sbr. lands-lög, eða í
fleirtölu, sbr. orða-bók (sjá t.d. Þorstein G. Indriðason 1999 og 2014). Í
þriðja lagi eru tengihljóðssamsetningar. Þar koma fyrir einingarnar a, u, i
milli stofnanna en þessar einingar eiga formlega ekkert skylt við beyg-
ingarendingar, a.m.k. samtímalega séð. Þetta eru samsetningar eins og
ráð-u-nautur, tóm-a-hljóð, eld-i-viður, rusl-a-fata og skell-i-hlátur. Þótt tengi -
hljóðin -u- og -a- séu samhljóma eignarfallsendingum í eintölu og fleir-
tölu margra nafnorða þá er oftast vandalaust að skilja þar á milli, sbr. mun -
inn á endingu eignarfalls fleirtölu í land-a(ef.ft.)-fundur og tengi hljóð inu
í dót-a(teng.)-kassi. Þótt fyrri liðirnir séu báðir hvorugkynsorð þá er dót
eintöluorð og kemur ekki fyrir í fleirtölu og þar af leiðandi getur dót-a
ekki verið eignarfallsmynd fleirtölu (sjá t.d. nýlega umfjöllun um þessi
tengihljóð og sagnlega fyrri liði hjá Þorsteini G. Indriðasyni 2017b). Að
sama skapi er tengihljóðið -s- samhljóma eignarfallsendingunni -s en það
á samtímalega ekkert skylt við hana. Dæmi um samsetningar með tengi-
hljóðinu eru leikfimi-s-hús og hræsni-s-fullur þar sem eignarfallsmyndir
Þorsteinn G. Indriðason50