Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Side 119
ari páll kristinsson
Saga máls og samfélags
Þankar í tilefni af útgáfu norskrar málsögu
1. Inngangur
Útgáfa nýju norsku málsögunnar1 minnir íslenskan lesanda á að enn vant-
ar ítarlegt, samstætt og nútímalegt íslenskt málsögurit. Í greininni er sagt
frá ýmsum hliðum hins nýútkomna rits. Þar á meðal er sitthvað sem hafa
má í huga ef, eða öllu heldur þegar, ráðist verður í sambærilega söguritun
um íslensku.2
Fræðilega norska málsöguritun hefur fram til þessa einkum verið að
finna hjá Indrebø (1. útg. 1951) fram til miðrar 19. aldar, hjá Seip (1. útg.
1931) fram undir 1400 og hjá Haugen (1966a) um fyrstu tvo aldarþriðj -
unga 20. aldar eða tæplega það. Útgáfa Norsk språkhistorie I–IV (2016–
2018) sætir því tíðindum þar sem Norðmenn hafa ekki fyrr átt vísindalegt
heildarrit um alla sína málsögu — og í hinu nýja verki er tungunni og sam-
bandi máls og samfélags lýst frá mörgum sjónarhornum. Ritið hafði verið
í undirbúningi frá árinu 2008 sem samstarfsverkefni fræðimanna í nor-
rænum fræðum og tungumálum í norskum háskólum.3
Íslenskt mál 40 (2018), 119–143. © 2019 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.
1 Helge Sandøy og Agnete Nesse (aðalritstj.). 2016–2018. Norsk språkhistorie I–IV (I.
Mønster 2016, II. Praksis 2018, III. Ideologi 2018, IV. Tidslinjer 2018; 681 + 698 + 548 + 798
bls.). Novus, Osló.
2 Ég þakka ritstjórum og ónafngreindum ritrýnum Íslensks máls fyrir góðar ábendingar
og athugasemdir.
3 Ritnefndina skipuðu Tove Bull, Brit Mæhlum, Agnete Nesse, Helge Sandøy,
Michael Schulte, Inge Særheim og Lars S. Vikør; sá síðastnefndi kom inn í stað Kjartans
G. Ottóssonar sem lést 2010. Auk aðalritstjóra verksins alls (Nesse og Sandøy) hefur hvert
bindi jafnframt sérstakan ritstjóra sem eru Helge Sandøy (I. bindi); Brit Mæhlum (II.
bindi); Tove Bull (III. bindi); Agnete Nesse (IV. bindi). Höfundar efnis í I. bindi eru
þrettán talsins, í II. bindi tuttugu manns, í III. bindi sjö og í IV. bindi átta höfundar. Í
sumum tilfellum ritar sami höfundur kafla í fleiri en eitt af bindunum fjórum. Til að veita
innsýn í samsetningu hópsins má nefna sem dæmi eftirtalda höfunda: Unn Røyneland,
Lars S. Vikør, Jan Ragnar Hagland, Hans-Olav Enger, Gjert Kristoffersen, Odd Einar
Hau gen, Endre Mørck og Michael Schulte. Ritstjórarnir sjálfir rita einnig ákveðna kafla,
um sérsvið sín.