Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Page 120
Í umfjölluninni hér á eftir er komið að viðfangsefninu úr tveimur
áttum. Litið er yfir heildardrættina í nýja ritinu og síðan gripið niður hér
og þar og fjallað nánar um fáeina staka þræði (2. kafli). Vissir efnisþættir
málsögunnar gáfu mér auk þess tilefni til sérstakra undirkafla. Í 3. kafla
fjalla ég nokkuð um málviðhorf og málstýringu. Svolítið er rætt um heiti
tungumála og ákveðinna skeiða í sögu málanna í 4. kafla. Mér þykir
áhugavert hvað slíkir „merkimiðar“ geta sagt okkur um sýn (hins ráðandi
hluta) samfélagsins á tungumálin og málstigin sem menningarlegar stærðir.
Undir lokin víkur sögunni að skýringarefni sem boðið er upp á í Norsk
språkhistorie I–IV, frágangi og slíku (5. kafli). Ég slæ botn í greinina með
fáeinum lokaorðum.
Í greininni er sem sagt horft annars vegar á viðfangsefni ritsins alls,
markmið þess, megineinkenni, val á efni og hvernig ritstjórar nálgast við -
fangsefnið — og hins vegar skoða ég örfáa efnisþætti örlítið betur (sjá hér
fyrir ofan) og þá einkum frá íslensku sjónarhorni.
Það er ekki ætlun mín í þessari grein að fara neitt ofan í saumana á
umfjöllun höfundanna um einstök atriði þeirra formbreytinga sem orðið
hafa í norsku málkerfi. En hvort heldur litið er til hljóðkerfis-, beyginga-
eða setningafræði er vitaskuld af miklu að taka í norska málsöguritinu
sem þarf að rýna í og hafa til hliðsjónar og samanburðar þegar að því
kemur að semja fjölþætta og ítarlega íslenska málsögu.
2. Markmið og megineinkenni norsku málsögunnar
2.1 Almennt
Í formála verksins (I:9)4 kemur fram að stefnt hafi verið að því að Norsk
språkhistorie I–IV
— yrði vísindaleg málsaga og nútímalegt uppsláttarrit,
— myndi lýsa og útskýra þróun talaðrar og ritaðrar norsku frá elstu tíð í
rúnaheimildum og fram til nútímans,
— gæfi nýja innsýn í samband máls og samfélags í Noregi og miðlaði
nýjum skilningi á því hvernig því sambandi væri háttað,
— stuðlaði að umhugsun og umræðu um tungumál, breytileika í máli og
málbreytingar,
Ari Páll Kristinsson120
4 Hér er vísað til einstakra binda ritsins með rómverskum tölum frá I upp í IV.
Tvípunktur táknar blaðsíðutal. Stundum er ástæða til að tilgreina númer einstakra kafla,
eða undirkafla, og eru kaflanúmer þá aðgreind frá bindisnúmerinu með kommu (III,4 =
þriðja bindi, fjórði kafli).