Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Page 126
lýsa málpólitíkinni og áhrifum hennar hlutlaust og með sjónarhorni áhorf -
andans enda þótt a.m.k. sumir þeirra hafi á löngum ferli meðal annars
verið virkir þátttakendur í málstefnu og málstýringu í Noregi, m.a. sem
starfsmenn eða nefndarmenn í Norsku málráði. Þetta á m.a. við um þau
Bull, Sandøy og Vikør.
Kafli Vikørs, „Standardspråk og normering“ (III,4), er fyrirtaksdæmi
um það hvernig kenningar og skilgreiningar eru hafðar sem fræðilegur
grunnur undir hina norsku málsögu sem sögð er, eins og vikið var að í 2.3
hér á undan. Vikør tekst að greina og skýra margvísleg hitamál sem
brunn ið hafa á norskum málstýrendum og málsamfélagi án þess að trana
fram eigin viðhorfum. Meginstyrkur kaflans liggur ekki síst í greiningu
Vikørs á helstu hugtökum sem hann skýrir með dæmum. Hann skilgrein-
ir t.a.m. vendilega hugtakið viðmið, norm (III,4:331–335), og undirhug-
takið språknorm sérstaklega, sem og margvíslegar undirtegundir þess (form -
elle, uformelle; empiriske, internaliserte, operative; fastsette, føreskrivne/ re -
skrip tive), ásamt því að gera grein fyrir muninum á hugtökunum standard
og norm. Skilgreining Vikørs á språknorm hljóðar svo: „mønster eller mål-
estokk for kva som er akseptabel resp. uakseptabel språkbruk“ (III,
4:333). Þættir úr norskri málrækt og stöðlun eru síðan raktir og skýrðir
með tilvísun til hugtaka og skilgreininga.
Vikør nýtir ekki hvað síst greiningu Haugens (1966a,b og síðar) á fjór-
um þrepum í þróun staðlaðra þjóðtungna (1. val á málbrigði/viðmiði, 2.
skráning/málstöðlun, 3. framkvæmd, 4. málauðgun/ræktun) og fylgir
henni kerfisbundið og nákvæmlega kafla fyrir kafla.6 Greining Haugens
á þessum skrefum hefur verið notuð við lýsingu á málrækt og þróun
ýmissa tungna (sjá t.d. Deumert og Vandenbussche 2003, Vikør 2007,
Coupland og Kristiansen 2011). Um íslensku sérstaklega má einkum benda
á Krist ján Árnason (2002, 2003) sem styðst við þrepagreiningu Haugens
(1966a,b) við lýsingu á tilurð íslensks málstaðals. Kristján benti í því sam-
bandi m.a. á að val á viðmiði virðist ekki hafa verið vandasamt ferli þegar
farið var að rita á Íslandi á 12. öld. Hann telur að byggt hafi verið á einu
málafbrigði með rætur í munnlegri geymd. Í raun og veru má segja að á
miðöldum hafi ritun bæði Norðmanna og Íslendinga stuðst við hið sama
viðmið — og á þeim grunni er íslenskt ritmál reyndar reist enn þann dag
í dag — en síðari alda þróun varð með gerólíku sniði í löndunum tveimur.
Ari Páll Kristinsson126
6 Þeir eru: III,4.5.1: „Normgrunnlaget for moderne bokmål og nynorsk“; III,4.5.2:
„Kodifisering“; III,4.5.3: „Implementering“; III,4.5.4: „Utvikling av språket til nye funk-
sjonar: Terminologi og ordtilfang“.