Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Page 146
skrifuð dagr, og r stóð fyrir það sem þeir báru fram sem /ur/, vönduðu sig
um of og skrifuðu önnr og móðr fyrir önnur og móður. Þessi ritháttur er ótví -
ræður vitnisburður um að breyting hafi átt sér stað í máli skrifarans, þótt
hann sé að reyna að fylgja eldri fyrirmyndum.
Þessi lýsing Kristjáns er í samræmi við þá almennu skoðun að svokölluð
öfug stöfun sé „röng“ stafsetning. Ritháttur eins og önnr og móðr sé
þannig ekki til vitnis um að skrifarinn hafi borið þessi orð fram án /u/
heldur gerst sekur um ofvöndun í stafsetningu eins og Kristján lýsir.
En er víst að dæmin sem Kristján tekur beri að túlka sem öfuga stöfun
eða mistök (ofvöndun) í stafsetningu? Eins og Ari Páll Kristinsson hefur
rakið í smáatriðum (1987, 1992) benda líkur til þess að hljóðbreytingin u-
innskot (stoðhljóðsinnskot), sem kemur við sögu í þessum dæmum, hafi
tekið langan tíma, þ.e. að langur tími hafi liðið, jafnvel tvær og hálf öld,
frá því að fyrst fór að bera á því að sagt væri (og þess vegna skrifað) dagur,
verður fyrir eldra dagr, verðr þar til slíkur framburður var orðinn almenn-
ur og samsvarandi stafsetning líka. Það merkir að um langt skeið hafa
sumir sagt dagr, verðr3 en aðrir dagur, verður (hér dugir venjuleg stafsetn-
ing til að skýra hvaða framburð er átt við).4 Við slíkar aðstæður má vel
hugsa sér að einhverjir málnotendur hafi ekki bara farið að skrifa önnr og
móðr fyrir önnur og móður heldur líka farið að bera orðin þannig fram.
Það mætti þá túlka sem áhrifsbreytingu í framburði sem hægt væri að lýsa
með „hlutfallsjöfnu“ eða þríliðu eins og oft er gert þegar áhrifsbreytingum
er lýst (hér er samræmd nútímastafsetning látin duga til að sýna tilbrigði
í framburði og horft framhjá ýmsum smáatriðum í fornri stafsetningu):
(1) algengur framburður
meðan u-innskot annar framburður
upphafleg mynd var í sókn á sama tíma
dagr dagur dagr
verðr verður verðr
móður móður X; X = móðr
önnur önnur X; X = önnr
Höskuldur Þráinsson146
3 Hér má minna á að stafsetningin dagr, verðr gefur væntanlega ekki alveg rétta mynd
fyrir nútímafólk af fornum framburði þessara orða vegna þess að -r hefur trúlega verið
atkvæðisbært í þessu samhengi áður en u-innskotið kom til sögunnar, eins og Ari Páll
rekur í áðurnefndum skrifum. Það skiptir þó ekki máli hér.
4 Það er einnig líklegt að sami maðurinn hafi stundum sagt dagr og stundum dagur,
stundum verðr og stundum verður á þessum tíma. Síðari tíma rannsóknir á máli, m.a. fram-
burði, hafa nefnilega sýnt að svonefndur innri breytileiki (e. intra-speaker variation) í máli
er mun algengari en oft er talið (sjá t.d. umræðu hjá Kristjáni Árnasyni 2005:365 o.áfr.).