Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Side 149
4. Fleiri dæmi úr íslensku
4.1 Frægustu dæmin
Dæmi um stafsetninguna <rn> þar sem vænta mætti /dn/ eru oft gefin í
umfjöllun um íslenska hljóðsögu (sjá t.d. Alexander Jóhannesson 1923–
1924:137, Björn K. Þórólfsson 1925:XXXII, Hægstad 1942:112, Chapman
1962:86, Kristján Árnason 2005:354). Þau eru þá yfirleitt túlkuð sem
öfug stöfun og líklega frægustu dæmin af því tagi í íslenskri málsögu. Um
þau segir Hreinn Benediktsson til dæmis svo (1963:158):
Elztu dæmin, sem sýna, að rn og nn eru fallin saman í ísl. og borin fram dn
(á eftir löngu sérhlj.), eru í bréfi frá 1332 (ritað suæirn, Orný f. Sveinn, Odd -
ný).6
Hér er ekki að sjá að Hreinn geri ráð fyrir þeim möguleika að rithátturinn
<suæirn> og <Orný> bendi til þess að í þessum orðum hafi framburður
með /r/ komið fyrir. Túlkun Hreins má því lýsa á þessa leið:
(3) a. Skrifari bréfsins frá 1332 heyrir nöfn eins og Björn, Árni, Sveinn og
Oddný öll borin fram með dn-framburði (hvort sem það hefur nú
verið [dn] eða [tn] á þessum tíma).
b. Skrifarinn veit að nöfn eins og Björn og Árni eru skrifuð með <rn>
þrátt fyrir það að í þeim sé ekkert /r/ í algengum framburði (e.t.v.
þá ekki heldur í framburði hans sjálfs).
c. Vegna þessa skrifar hann bæði Sveinn og Oddný með <r>, þ.e. sem
<suæirn> og <Orný>, þótt í þeim sé ekkert /r/ og hafi aldrei verið.
Segja má að í þessari túlkun sé lögð meiri áhersla á skrifarann sem skrifara
og lesara en sem málnotanda sem þarf að túlka það sem hann heyrir í
kringum sig og hefur tileinkað sér málið á þann hátt.
Stefán Karlsson virðist svipaðrar skoðunar og Hreinn um þetta þegar
hann segir m.a. svo (2000:31):
Hljóðasambandið rl tók að falla saman við ll á 14. öld, og sama máli gegndi
um rn og nn þegar langt sérhljóð (eða tvíhljóð) fór á undan langa n-inu.
Samfallshljóðasamböndin hafa væntanlega verið dl og dn […] Nú er rl og rn
oft borið fram rdl og rdn, einkum í fátíðari orðum, en óvíst er hvort þar er
um að ræða leifar af eldri framburði ellegar áhrif frá stafsetningu.
Um öfuga stöfun og tilbrigði í framburði 149
6 Ritrýni rámar í að hafa séð þá túlkun að rithátturinn <Orný> geti verið misritun
fyrir nafnið Árný en hefur þó ekki fundið þá túlkun á prenti. Höfundur ekki heldur.