Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Síða 164
Sambandið /lt/ hefur þá sérstöðu að raddaður framburður takmarkast við
tiltekin orð og orðgerðir. Um þetta gilda flóknar reglur sem Stefán Einarsson
(1928–29:264–269) en þó einkum Baldur Jónsson (1982) hafa gert grein
fyrir. Enginn ber því /lt/ ævinlega fram með rödduðum framburði. Þó að
enginn vafi leiki á réttmæti þeirrar fullyrðingar er vert að geta þess að aldrei
virðist hafa verið gerð skipuleg rannsókn á reglum um [lth]-framburð, með
því að finna málhafa sem nota hann og greina framburð þeirra nákvæmlega.
Öllu heldur er um nokkurs konar samtíning vísbendinga og heimilda að
ræða. Sérstaða [lth]-framburðar felst einnig í því að margir nota hann aldrei
þótt þeir hafi hreinan eða blandaðan raddaðan framburð.2
Meginreglur [lth]-framburðar sem lýst hefur verið eru þessar: Hjá
þeim sem nota [lth]-framburð birtist hann í mörgum orðum þar sem orð -
hlutaskil eru milli /l/ og /t/, eins og í gult, selt (sbr. gulur, selja) en þó ekki
í áherslulausum atkvæðum (gamalt) og sumum myndum sagna (skalt, vilt,
haltu o.fl.). Sömuleiðis er /l/ raddað ef hljóðið milli /l/ og /t/ fellur niður
í orð um eins og álft og volgt. Hins vegar er /l/ óraddað þegar ritað er llt
(þ.e. þegar ll ([tl]) er í stofni, hollur – hollt) og þegar /l/ er stofnlægt (pilt-
ur, svelta, en þó raddað í bolti). Þetta eru meginreglurnar sem Baldur
Jónsson (1982) dregur fram en þær eru þó fleiri, ásamt ýmsum undan-
tekningum og stakdæmum. Munurinn getur verið merkingargreinandi,
sem sést einna best á framburði orðanna holt (af holur), holt (í landslagi)
og hollt (af hollur) þar sem aðeins það fyrsta er raddað í [lth]-framburði.3
3. Rannsókn Björns Guðfinnssonar
3.1 Birtar niðurstöður
Óhætt er að segja að hin víðfræga rannsókn Björns Guðfinnssonar hafi
verið þrekvirki en hann fór ásamt samstarfsmönnum sínum, einkum Ólafi
M. Ólafssyni, um land allt á 5. áratug 20. aldar og kannaði framburð lands-
manna. Árið 1946 kom út bókin Mállýzkur I þar sem rannsóknunum er lýst
ítarlega og greint frá niðurstöðum um afbrigðin sem kölluð eru harðmæli og
linmæli og birtast í mismunandi framburði orða eins og api, fata og loka.
Margrét Guðmundsdóttir164
2 Með orðalaginu „blandaður raddaður framburður“ er átt við að sami málhafi noti
ýmist raddaðan eða óraddaðan framburð.
3 Þess má geta að Baldur taldi einnig að framburðarmunurinn væri merkingargrein-
andi í orðmyndinni mælt. Þannig væri mælt raddað þegar merkingin væri ‘segja, tala’ (sbr.
mæla e-u bót) en óraddað þegar átt væri við mælingu (sbr. mæla vegalengd). Nákvæm athug-
un á framburðarspjöldum Björns styður þessa aðgreiningu ekki vel. Báðar orðmyndirnar
koma fyrir með rödduðum framburði hjá þeim sem nota hann á annað borð.