Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Page 185
um félagslegu dreifinguna í stuttu máli í einum sérstökum kafla, að undantekinni
aldursdreifingunni; allar þessar tölfræðilegu niðurstöður um takmarkaða fylgni
við félagslegar breytur eru tilbreytingarlaus lestur og vekja lítinn áhuga. En þar á
móti kemur að nú liggja þessar niðurstöður fyrir og geta nýst til samanburðar í
framtíðinni. Og víst er það gleðiefni að menntun og kyn hafa lítil áhrif á máltil-
finningu Íslendinga, hvað sem síðar kann að verða.
7. kafli: Fallmörkun
(höf.: Höskuldur Þráinsson, Þórhallur Eyþórsson, Ásta Svavarsdóttir og Þórunn Blöndal)
Hér er fjallað um nokkur atriði í fallmörkun: þágufallshneigð (Honum vantar …),
nefnifallshneigð (Skákin lauk …), breytilegt andlagsfall (faxa þetta/þessu), fallglöt-
un (Það býst ég við) og fallflutning (Listaverkunum sem var stolið eru ómetanleg).
Mikið hefur verið skrifað um fallmörkun í íslensku og niðurstöðurnar hér stað -
festa að ýmsu leyti það sem menn hafa talið sig vita. Þágufallshneigð er út breidd -
ari á meðal hinna yngri en þeirra eldri og þágufallsandlög með sögnum eins og
faxa, framlengja og rústa virðast vera í sókn, eru algengari á meðal yngri þátttak-
enda en þeirra eldri. Eitt kemur talsvert á óvart hér, nefnilega að fallflutningur
hlýtur almennt frekar góðar viðtökur, sjá dæmin í (1); tölurnar hér (og annars
staðar) sýna hversu hátt hlutfall þátttakenda sagði „já“.1
(1)a. Listaverkunum sem var stolið eru ómetanleg. 57%
b. Þeim sem liggur mikið á hjarta fá tækifæri hér. 74%
Svo er reyndar að sjá sem heldur færri samþykki dæmi eins og þessi ef þau inni-
halda ekki aðeins sagnarsamræmi heldur líka sagnfyllingarsamræmi (eins og
dæmið í (1a)).
Setningar af þessu tagi eru ekki auðfundnar í textum og því er ekki vitað
hvort hér er um nýjung að ræða. Málfræðingar hafa í öllu falli ekki veitt þessu
athygli áður. Ég hef það á tilfinningunni að maður „afvegaleiðist“ í dæmum af
þessu tagi (einhvers konar „garðstígsáhrif“, e. garden path effect). Ég gæti vel átt
það til að segja Þeim sem liggur mikið á hjarta fá tækifæri hér en myndi síðan líklega
leiðrétta mig og segja Þeir sem liggur mikið á hjarta fá tækifæri hér. Það er athyglis-
vert að sagnarsamræmið í aðalsetningunum í dæmum af þessi tagi er venjulegt
„nefnifallssamræmi“ en ekki hlutlaust „aukafallssamræmi“: Þeim sem … fá … en
ekki *Þeim sem … fær … (sbr. hins vegar Þeim líður vel, ekki *Þeim líða vel). Það
bendir til þess að nefnifall sé með einhverju móti til staðar í frumlagi aðalsetning-
arinnar þótt það sæki sér síðan þágufall til frumlags tilvísunarsetningarinnar,
væntanlega í yfirborðsgerð, eftir að sagnarsamræmið á sér stað.
Ritdómar 185
1 Það ætti ekki að fara á milli mála hvaða setningar í þessum ritdómi eru ekki fengnar
úr Tilbrigðabókunum heldur eru mínar þrátt fyrir að þær séu ekki merktar sérstaklega,
hvorki í meginmáli né í númeruðum dæmum. Það er þó rétt að geta þess að dæmi (2)–(4),
(17)–(19) og (24), þ.e. þar sem engar prósentutölur eru sýndar, eru mín.