Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Page 203
Ari Páll Kristinsson. 2017. Málheimar. Sitthvað um málstefnu og málnotkun.
Háskólaútgáfan, Reykjavík. 214 bls.
1. Inngangur
Sem kunnugt er var engri opinberri íslenskri málstefnu til að dreifa fyrr en með
samþykkt Alþingis á þingsályktunartillögu um þetta efni árið 2009 og lögum um
stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls sem fylgdu í kjölfarið árið 2011. Þetta
kann að virðast nokkuð undarlegt í ljósi þeirrar líflegu almennu umræðu um tung -
una sem hér hefur átt sér stað um langt skeið en um leið má segja að sú einsleitni
sem einkennt hefur þær skoðanir sem þar hafa komið fram hafi um margt verið
ígildi málstefnu enda þótt hinn opinbera stimpil hafi vantað á hana. Sú almenna
samstaða sem virðist hafa ríkt um hvaða augum beri að líta málið og hvernig eigi
að efla það og varðveita gæti svo líka verið ástæða þess að hér hefur tiltölulega lítið
farið fyrir ítarlegri fræðilegri umfjöllun um málrækt og málstefnu, enda þótt
sitthvað sé til um staka þræði innan þessa sviðs. Segja má að bók Ara Páls Krist -
ins sonar, sem hér er til umfjöllunar, feli í sér ákveðna tilraun til að flétta þessa
þræði saman til þess að gefa heildstætt yfirlit yfir málræktarfræði og helstu hug-
tök og viðfangsefni hennar. Rétt er þó að taka skýrt fram að markmið Ara Páls
virðist ekki vera að gefa tæmandi yfirlit, enda kallaði það á talsvert umfangsmeira
verk, og þannig segir hann af nokkurri hógværð í inngangi að „[þ]essari litlu bók
[sé] ætlað að fjalla fremur almennt um málstefnu og málnotkun“ (bls. 9). Undir -
titill bókarinnar felur jafnframt í sér ákveðna vísbendingu um að hér sé ekki ætl-
unin að sópa út í öll horn. Auk þessa tilgreinir Ari Páll í innganginum þrjú atriði
sem hann telur vera mikilvægust í efni bókarinnar: að margt í íslenskri málstefnu
og málstýringu eigi sér hliðstæður annars staðar í heiminum, að ekki megi rétt-
læta íslenska málstýringu með þjóðrembu sem geri lítið úr öðrum málum og að
málnotkun sé breytileg eftir aðstæðum sem aftur þýði að ekki sé alltaf hægt að
styðjast við viðmið um vandað ritmál. Þessi þrjú stef koma svo ítrekað við sögu í
meginmáli bókarinnar.
2. Málheimar
Bókin skiptist í átta mjög mislanga meginkafla og hverfist hver þeirra um tiltekið
svið málræktarfræða. Nokkur skörun er þó á milli kafla, en hún má heita óhjá-
kvæmileg þar sem skilin á milli þessara sviða og þeirra meginhugtaka sem eru
undirstaða þeirra eru sjaldnast skörp.
Fyrsti meginkaflinn nefnist „Mál meðal mála“ og helsta viðfangsefni hans er
að staðsetja íslenskt mál og umræður um stöðu þess í alþjóðlegu samhengi. Með
öðrum orðum snýst þessi kafli að miklu leyti um fyrsta efnisþáttinn af þeim
þremur sem Ari Páll tilgreinir sem þá mikilvægustu í bókinni. Kaflinn hefst á
almennu yfirliti yfir hvernig tungumál blandast víða um heim inn í stjórnmála-
umræðu, sérstaklega varðandi þætti eins og þjóðerni og sjálfstæðisbaráttu, og
Ritdómar 203
Íslenskt mál 40 (2018), 203–211. © 2019 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.