Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Page 219
stefnan var haldin í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins 27. janúar 2018 og var
helguð minningu Magnúsar Snædal, prófessors í almennum málvísind-
um, sem lést síðla árs 2017. Á ráðstefnunni voru haldin 12 erindi um fjöl-
breytt málfræðileg efni, auk stuttra minningarorða um Magnús. 33. Rask-
ráðstefnan var svo haldin á sama stað 26. janúar 2019. Þar voru flutt 14
erindi um ýmis svið málfræðinnar. Báðar ráðstefnurnar voru vel sóttar og
þóttu takast ágætlega.
Aðrar ráðstefnur
11. norræna mállýskuráðstefnan var haldin í Háskóla Íslands 20.–22.
ágúst 2018. Málvísindastofnun Háskólans og Stofnun Árna Magnús -
sonar í íslenskum fræðum stóðu að ráðstefnunni og félagar í Íslenska
málfræðifélaginu tóku virkan þátt í undirbúningi hennar og framkvæmd.
Á ráðstefnunni voru fluttir þrír aðalfyrirlestrar og 65 fyrirlestrar í mál -
stofum, auk fimm veggspjalda. Ráðstefnan var fjölsótt og tókst í alla staði
vel.
Íslenska málfræðifélagið stóð ásamt Málvísindastofnun Háskólans að
Kristjánsþingi, málþingi til heiðurs Kristjáni Árnasyni prófessor emer-
itus, í Árnagarði 24. nóvember 2018. Erindi á málþinginu fluttu sjö fyrr-
verandi og núverandi doktorsnemar Kristjáns, auk þess sem hann ávarp -
aði þingið sjálfur í lokin. Um leið kom út afmælisrit Kristjáns, Á vora
tungu, sem Háskólaútgáfan og Málvísindastofnun gáfu út.
Íslenskt mál
39. árgangur Íslensks máls 2017 kom út á starfsárinu. Þetta var síðasti
árgangurinn sem fráfarandi ritstjórar, Haraldur Bernharðsson og Hösk -
uldur Þráinsson, sáu um, og eiga þeir skilið miklar þakkir fyrir vinnu sína
við útgáfuna undanfarin ár. Nýir ritstjórar auglýstu eftir efni í 40. árgang
tímaritsins með skilafresti til 5. febrúar, og er stefnt að því að hraða út -
komu næsta heftis eftir föngum.
Áskrifendur að Íslensku máli, einstaklingar og stofnanir, eru um 280
samtals og hefur örlítið fjölgað. Kynningar meðal íslenskunema (sjá hér á
eftir) skiluðu tíu nýjum áskrifendum.
Félagið hafði sótt um styrk til útgáfunnar úr Málræktarsjóði og fékkst
styrkur að upphæð 500 þúsund krónur. Aftur var sótt um styrk í Mál -
ræktarsjóð á þessu ári.
Frá Íslenska málfræðifélaginu 219