Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Page 221
Frá ritstjórum
Með þessu hefti taka nýir ritstjórar við tímaritinu eftir að Haraldur Bern -
harðsson og Höskuldur Þráinsson, sem stýrt hafa tímaritinu um árabil,
óskuðu eftir að hætta. Flestar greinarnar eru eðlilega á sviði íslenskrar
málfræði en eins og stundum áður eru hér einnig greinar um önnur nor-
ræn mál, tvær greinar um færeysku og sú þriðja um norska málsögu. Sumu
efninu höfðu fráfarandi ritstjórar gengið frá að mestu leyti, annað krafðist
meiri ritstjórnarvinnu og enn annað barst tímaritinu eftir að nýir ritstjór-
ar tóku við.
Efni tímaritsins er að miklu leyti með sama sniði og undanfarin ár, þó
með nokkrum breytingum. Meginefnisflokkar frá og með 40. árgangi
verða tveir, Greinar og Flugur. Í fyrri flokknum verða eftir sem áður birt-
ar ritrýndar rannsóknar- og yfirlitsgreinar. Þó verður sú breyting gerð að
hægt verður að senda ítarlega ritdóma í tímaritið sem verða þá ritrýndir
og birtir sem rýnigreinar (e. review articles). Efnisflokkurinn Flugur rúmar
aftur á móti margs konar smágreinar um mál og málfræði, svo sem ábend-
ingar, stuttar umræður um tiltekið atriði, hugdettur og annað efni sem
fólki flýgur í hug. Það efni verður óritrýnt. Efni sem áður hefði birst í
flokkunum Málsefni og Umræðugreinar, athugasemdir og flugur mun nú
annaðhvort birtast sem stuttar ritrýndar greinar eða sem flugur, eftir eðli
og lengd. Með þessu má segja að horfið sé til eldra og einfaldara fyrir -
komulags tímaritsins. Loks verða óritrýndir ritdómar og ritfregnir áfram
birt í tímaritinu og er fólk hvatt til að senda okkur upplýsingar um áhuga-
verð ný rit.
Á þessum tímamótum er við hæfi að þakka fráfarandi ritstjórum, þeim
Höskuldi og Haraldi, kærlega fyrir mikið og farsælt starf í þágu íslenskrar
málfræði. Höskuldur ritstýrði samtals 26 árgöngum (2.–5. og 18.–39. árg.)
tímaritsins. Haraldur varð ritstjóri með Höskuldi frá og með 27. árgangi
og þeir ritstýrðu saman 13 árgöngum. Ekki er heiglum hent að feta í fót-
spor slíkra kappa enda þarf ekki færri en þrjá ritstjóra til að taka við kefl-
inu af þeim.
Ásta Svavarsdóttir
Einar Freyr Sigurðsson
Þórhallur Eyþórsson