Gríma - 01.09.1940, Page 31
Á BREIÐAMERKURJÖKLI
29
lokum að brjóta ísinn frá því. Kom þá í ljós, að
armarnir lágu krosslagðir á brjósti og hattur hins'
látna var yfir andlitinu. Þá sáu leitarmenn á annað
póstkoffortið og náðu því; var það samanlagt af jök-
ulfarginu og ónýtt, og enginn verðpóstur í því. Líki
Jóns var síðan ekið að Kvískerjum og smíðað þar
utan um það. Kistan var svo flutt að Svínafelli og
jarðsett að Sandfelli 24. apríl.
Tveim dögum síðar fór Björn, eftir tilmælum Ara
hreppstjóra Hálfdánarsonar á Fagurhólsmýri, enn
austur að jökli, til þess að leita að hinu póstkoffort-
inu. Hafði hann menn og nauðsynleg tæki með sér.
Þegar þeir höfðu höggvið á aðra alin niður frá þeim
stað, þar sem hrossið lá, sást á samankramið koffort-
ið, en þar sem það var, virtist vera langt niður til
botns á jakahrönninni. Ekkert hafði glatazt af pósti
þeim, sem í koffortinu átti að vera, og var þá allt
fundið, sem í jökulinn féll. Bréf, ávísanir og pening-
ar, sem að vísu var blautt og skemmt, tókst Ara
hreppstjóra að þurrka og hreinsa, svo að nálega
ekkert fór forgörðum, og varð því öllu til skila kom-
ið að lyktum.
Sögu þessa hef eg ritað eftir skriflegri frásögn áðurgreindra
heimildarmanna og með leyfi Páls bónda á Svínafelli. Má því
þakka honum það fyrst og fremst, að slysasaga þessi hefur
fengizt rétt og sönn í öllum atriðum og getur því geymt
óbornum kynslóðum fróðlega lýsingu á lífshættu og þrautum
þeim, sem Öræfingar og ferðamenn á þeim slóðum hafa átt
við að etja á liðnum öldum og allt fram á þenna dag.
Síðasta kaflann hef eg tekið eftir skýrslu Ara hreppstjóra
Hálfdánarsonar, er hann sendi póststjórninni, og var hún birt
í Isafold 54. árg., 32. tbl. 1928.
1 janúarmán. 1930.
Margeir Jónsson.