Bændablaðið - 04.10.2018, Síða 4
Bændablaðið | Fimmtudagur 4. október 20184
FRÉTTIR
Íslenskir minkabændur hafa á
síðasta áratug náð þeim árangri
að framleiða einhver bestu
minkaskinn í heimi. Þar hafa
einungis Danir og stundum
Norðmenn staðið örlítið framar.
Á bak við þennan árangur
liggur þrotlaust þróunarstarf og
þekkingaröflun.
Nú stendur víða yfir
endurnýjun á búrum vegna hertra
aðbúnaðarreglugerða frá Evrópu.
Nokkrir bændur eru komnir vel á
veg í þeirri endurnýjun sem verður
að vera lokið fyrir 1. desember 2019.
Vegna stöðunnar á markaðnum og
langvarandi tapreksturs hafa margir
minkabændur þó ekki treyst sér til að
ráðast í slíkar framkvæmdir.
Minkarækt er umhverfisvæn
búgrein
Einar E. Einarsson, formaður
Sambands íslenskra loðdýrabænda
(SÍL), segir að minkarækt sé
umhverfisvæn búgrein. Í fyrsta
lagi sé verið að nota afskurð frá
matvælaframleiðslunni í fóðurgerðina
en einnig nýtist skíturinn vel sem
áburður á tún eða til uppgræðslu.
„Á bak við hvert framleitt skinn
eru um 50 kg af hráefnum og út
kemur skinn og ca 2,5 kg skrokkur.
Við höfum verið að finna leiðir til
að nýta skrokkinn og þá fitu sem
til fellur við verkun skinnanna,
samanber framleiðslu á smyrslum
og leðurfeiti úr minkaolíu undir
vörumerkinu Gandur.
Einnig höfum við tekið þátt
í verkefnum um að framleiða
gæludýrafóður úr skrokkum en
það er þekkt víða erlendis og fer
vaxandi. Enn sem komið er höfum
hvorki við né aðrir hafið framleiðslu
á gæludýrafóðri úr skrokkunum en
markmiðið er klárlega að ekkert
fari til spillis í framleiðsluferlinu
og að allt verði nýtt sem síðan
hámarkar nýtinguna á þeim slátur-
og fiskafskurði sem við notum í
fóðurgerðina,“ segir Einar.
Samdráttur í heimsframleiðslu og
vonir um að verð hækki
Verðsveiflur eru ekki nýtt fyrirbæri í
skinnaiðnaði, en niðursveiflan nú er
þó orðin óvenju löng. Einar segir að
uppsöfnun á skinnum hafi greinilega
verið mun meiri þegar mest var
framleitt en menn töldu.
„Við trúum því að það sé loks að
losna um þessa stíflu á markaðnum
þó menn geti ekki tímasett hvenær
viðsnúningur getur orðið. Á árunum
2009 til 2010 var heimsframleiðslan
í kringum 50 milljónir skinna, en fór
yfir 80 milljónir árin 2013 og 2014.
Samkvæmt tölum frá Kopenhagen
Fur hefur hins vegar dregið verulega
úr framleiðslu minkaskinna frá árinu
2016, mest þó 2017 og áfram nú í ár.
Talið er að framboðið árið 2019 verði
komið undir 50 milljónir skinna,
eða svipað og markaðsfræðingar
telja þörf fyrir. Í framhaldinu má
ætla að markaðurinn verði stöðugur
og hægt vaxandi og um leið ætti
markaðsverðið að hækka. Þetta er
því spurning um hvort mönnum tekst
að þrauka þar til verðið fer að stíga
á ný.“
Ríkið þarf að koma að borðinu
Einar segir alveg ljóst að ríkið þurfi
að koma að borðinu með einhverjum
hætti ef ekki eigi allt að fara á versta
veg. Hann segir að viðræður hafi
verið í gangi og þær snúist um að
gera 3 ára samning við ríkið fyrir
árin 2018–2020. Með þriggja ára
samningi er verið að gefa greininni
möguleika á að komast aftur á
lappirnar eftir þessa miklu og þungu
niðursveiflu sem nú er í gangi.
Tillögur um aðkomu ríkisins
byggjast annars vegar á beinum
stuðningi til framleiðenda vegna
ársins 2018 og síðan stuðningi við
fóðurstöðvarnar árin 2019 og 2020.
Markmiðið með stuðningi við
fóðurstöðvarnar er að þær ráði betur
við að framleiða samkeppnishæft
fóður og efli þá um leið hjá sér
allt sem snýr að aukinni móttöku
og afsetningu á lífrænum úrgangi.
Þær vinni þannig með stjórnvöldum
í að draga úr og á endanum stoppa
þá verðmætasóun sem urðun er en
síðustu ár hafa fóðurstöðvarnar verið
að nota árlega 6.500 til 8.000 tonn af
afskurði í fóðurframleiðsluna.
Lausn gæti samræmst
markmiðum stjórnvalda
Einar segir að í þeim viðræðum sem
séu í gangi hafi stjórnvöld verið
jákvæð og sýnt vandamálinu skilning
en verið sé að vinna í málinu.
„Allir sem þetta skoða sjá líka
skynsemina í að framleiða verðmæta
vöru úr þessum aukaafurðum sem
falla til við matvælaframleiðslu
og skapa þannig bæði atvinnu og
gjaldeyri.
Það að verið sé að nýta afskurð
með þessum hætti samræmist líka
vel stefnu stjórnvalda um að draga
úr og að endingu banna urðun á
lífrænum úrgangi. Það hefur verið
markmiðið samkvæmt reglugerð
737/2003 og síðan nú með tilkomu
stefnu í loftslagsmálum var gengið
ennþá lengra í að hefta og banna að
lokum urðun.
Ég vona því að stjórnvöld klári
málið með jákvæðum hætti en við
leggjum áherslu á að niðurstaða fáist
fyrir miðjan október,” sagði Einar að
lokum. /HKr.
Undirbúningur sýningarinnar
ÍSLENSKUR LANDBÚNAÐUR
2018, sem verður haldin í
Laugar dalshöll dagana 12. til 14.
október næstkomandi, stendur
nú sem hæst. Um er að ræða
stórsýningu á íslenskum mat,
landbúnaðartækjum, land bún aðar-
vörum og þjónustu, byggingum
og fleiru. Um þessar mundir eru
50 ár liðin frá því síðasta stóra
landbúnaðarsýning var haldin í
Höllinni.
Að sögn Ólafs M. Jóhannessonar,
framkvæmdastjóra sýningarinnar,
hafa rúmlega 90 fyrirtæki, samtök
og stofnanir pantað bása bæði á
úti- og innisvæði. Hann segir að
það hafi komið honum mest á óvart
við undirbúning sýningarinnar
hversu fjölbreyttur landbúnaður er
stundaður á Íslandi. „Það eru ekki
bara okkar fjölbreyttu og hreinu
matvæli sem streyma frá bændum
heldur stunda þeir ferðaþjónustu
í æ meira mæli og líka skógrækt,
orkuframleiðslu og hvers kyns
heimilisiðnað. Allt verður þetta
kynnt á sýningunni. Einnig verður
afar áhugaverð fyrirlestradagskrá.
Þessi sýning á eftir að koma á óvart.“
Sýningin Íslenskur landbúnaður
2018 verður opin á föstudag 12. okt.
kl. 14.00–19.00, á laugardag 13.
okt. kl. 10.00–18.00 og sunnudag
14. okt. kl. 10.00–17.00. Miðar
gilda alla helgina og aðgangseyrir
aðeins kr. 1.000. Frítt fyrir aldraða,
öryrkja, námsmenn og börn yngri
en 12 ára í fylgd með fullorðnum.
Tímarit Bændablaðsins kemur út
samhliða sýningunni
Bændablaðið gefur út Tímarit
Bændablaðsins í tilefni sýningar-
innar. Það fer í dreifingu til bænda
og annarra áskrifenda í næstu viku.
Meðal efnis eru viðtöl, kynningar
og annar fróðleikur um landbúnað.
/TB
Landbúnaðarsýning í Laugardalshöll 12.–14. okt.:
Sýnir breidd íslensks
landbúnaðar
Íslenskir loðdýrabændur í hópi allra bestu framleiðenda í heimi:
Rætt um þriggja ára samning við ríkið
til að koma greininni aftur á lappirnar
– Verðmæt reynsla og þekking haldist áfram í landinu ásamt nýtingu hráefnis
Mynd / HKr.
Áskrifendur Bænda-
blaðsins í þéttbýli
fá framvegis blaðið
til sín með blað-
berum Árvakurs.
Íslandspóstur hefur
séð um dreifinguna
til þessa en vegna
skipulags breytinga
hefur blaðið ekki
borist áskrifendum
með nógu skilvirkum
hætti upp á síðkastið.
Tjörvi Bjarnason,
sviðsstjóri útgáfu- og
kynningarsviðs Bændasamtakanna,
sem er útgefandi Bændablaðsins,
segir að til að bregðast við lægra
þjónustustigi Íslandspósts leiti
blaðið annarra leiða.
„Á síðustu mánuðum hefur
þjónusta Íslandspósts við okkur
versnað. Nýjar starfsreglur fyrir-
tækisins um að hætta flokkun á
kvöldin gera það að verkum að
Bændablaðið er borið seint og
illa út til þeirra áskrifenda sem fá
nafnamerkt eintök inn um lúguna
til sín. Æ fleiri kvarta yfir því að
fá blaðið í hendur á mánudegi eftir
útgáfu sem er óásættanlegt þegar
blaðið kemur út á fimmtudegi.
Með breytingunum
og nýju samkomulagi
við Árvakur þá fá
lang flestir áskrifendur
Bænda blaðsins í þétt-
býli blaðið inn um
lúguna í dagrenningu
á útgáfudegi.“
Blaðburður til
bænda í góðum
farvegi
Engar breytingar eru
á lögbýladreifingu til
bænda að sögn Tjörva. „Blaðburður
til bænda er í góðum farvegi og
verður áfram eins og áður. Þjónusta
Íslandspósts er ákaflega mikilvæg
og er grundvöllur þess að við getum
gefið blaðið út og dreift um sveitir
landsins. Þess vegna er slæmt að sjá
kvarnast úr þjónustu póstsins við
almenning eins og við höfum horft
upp á síðustu misseri. Í samtölum
við stjórnendur Íslandspósts er
greinilegt að stefnu þeirra verður
ekki breytt. Gagnrýni á fyrirtækið er
svarað á þá leið að vegna samdráttar
í bréfasendingum verði að fækka
dreifingardögum og við það situr,“
segir Tjörvi Bjarnason.
Minni þjónusta Íslandspósts knýr á um breytingar:
Blaðberar Árvakurs
dreifa Bændablaðinu