Bændablaðið - 04.10.2018, Síða 6
Bændablaðið | Fimmtudagur 4. október 20186
Bændablaðið kemur út 24 sinnum á ári. Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum
á landinu og á öll lögbýli landsins.
Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti
gegn greiðslu. Árgangurinn kostar þá kr. 10.500 með vsk. (innheimt í tvennu lagi).
Ársáskrift fyrir eldri borgara kostar 5.250 með vsk.
Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík.
Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279
Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar −
SKOÐUN
Það eru ansi misvísandi og skrýtin
skilaboðin sem Vestfirðingum berast
úr stjórnkerfinu um framtíð byggðar í
fjórðungnum. Þar er slegið úr og í svo
íbúar vita vart sitt rjúkandi ráð og það
nýjasta lýtur að fiskeldi á sunnanverðum
Vestfjörðum.
Hvað sem mönnum kann að finnast
um ágæti ræktunar á fiski í sjó, þá er það
staðreynd að í áratugi hefur fólki víða á
landsbyggðinni verið rétt það haldreipi að
ein leið í atvinnuuppbyggingu væri fiskeldi.
Þetta var m.a. gert þegar ljóst var að
kvótakerfið, sem sett var á 1984, eyðilagði
tilverugrundvöll heilu byggðarlaganna með
frjálsu framsali kvóta 1990. Það gerði eignir
þúsunda fjölskyldna á landsbyggðinni
verðlausar. Engar bætur voru boðnar fyrir
þann eignamissi og lítið hefur heldur
verið rætt um að fyrir þetta fólk jafnaðist
kvótatilfærslan á við þær hamfarir sem
bankahrunið 2008 leiddi af sér.
Vestfirðingar, sem voru gríðarlega
verðmætir þjóðinni hvað fiskveiðar og
fiskvinnslu varðaði, voru nú allt í einu
orðnir ölmusumenn og harla lítils virði í
exelskjölum fjármálaelítu landsins. Í raun
hafa ráðamenn allar götur síðan stungið
hausnum á kaf í sandinn þegar minnst er
á Vestfirði. Skiptir þá engu hvar borið er
niður.
Gerðar hafa verið úttektir á burðarþoli
fjarða á Vestfjörðum, Norðurlandi og á
Austfjörðum vegna mögulegs fiskeldis.
Laxeldi fór m.a. af stað á þeim forsendum
á sunnanverðum Vestfjörðum og hleypti
nýju lífi í byggðarlögin á svæðinu. Nú ber
svo við að gild rekstrarleyfi sem áður höfðu
verið veitt til tveggja fyrirtækja á svæðinu
hafa verið felld úr gildi af „úrskurðarnefnd
umhverfis- og auðlindamála“ vegna
mismunandi túlkana stofnana á reglum og
– af umhverfisástæðum.
Framkvæmdamenn við Ísafjarðardjúp
hafa um áratugi stundað eldi á þorski og
laxi og hugðust þar fara svipaða leið og
gert var á sunnanverðum Vestfjörðum. Þó
burðarþolsmat á Ísafjarðardjúpi sýndi að
þar mætti stunda laxeldi í sjó, þá er ekki
annað að heyra og sjá en að í stjórnkerfinu
séu menn einbeittir í að koma í veg fyrir slík
áform – af umhverfisástæðum.
Í orkumálum hefur svipuð staða verið
uppi. Hugmyndir um virkjanir til að tryggja
afhendingaröryggi raforku hafa ítrekað
verið skotnar í kaf – af umhverfisástæðum.
Línulagnir þykja heldur ekki ákjósanlegar
í því tilliti – af umhverfisástæðum.
Í vegamálum hefur allt verið í lás síðan
á seinni hluta síðustu aldar hvað varðar
endurbætur á veglínu í austanverðri
Barðastrandarsýslu. Þar hefur enginn
ríkisstjórn né ráðherra haft dug í að höggva á
hnút sem hnýttur hefur verið um Teigsskóg
– af umhverfisástæðum.
Á Bíldudal hófu menn fyrir nokkrum
árum vinnslu á þörungum af hafsbotni
Arnarfjarðar. Hófst síðan undirbúningur
að stofnun á viðlíka fyrirtæki í Súðavík
vegna vinnslu í Ísafjarðardjúpi. Nú virðast
þar til bærar stofnanir ríkisins einbeittar í
að slá þessa von úr höndum íbúanna – af
umhverfisástæðum.
Það liggur ljóst fyrir að það eina sem
eftir er að banna á Vestfjörðum – af
umhverfisástæðum, eru Vestfirðingar
sjálfir. Trúlega er þá rökrétt næsta skref að
bera Vestfirðingum þau tíðindi umbúðalaust,
fremur en að draga íbúana áfram á
asnaeyrunum. Ríkið hlýtur þá í staðinn
að bjóða Vestfirðingum uppkaup á þeirra
eignum. Þá að sjálfsögðu á meðalverði
sambærilegra eigna á höfuðborgarsvæðinu.
Í framhaldinu væri væntanlega ekkert
mál að loka Vestfjörðum endanlega – af
umhverfisástæðum. Menn hljóta að hafa
reiknað út hvað það kostar. /HKr.
Vestfirðingabann
ÍSLAND ER LAND ÞITT
milli Blakks og Bjargtanga. Kollsvík afmarkast að norðan af Blakk eða Blakknesi, sem á öldum áður mun hafa heitið Straumnes, og að sunnan
af Hreggnesa. Hún var numin af landnámsmanninum Kolli, fóstbróður Örlygs, sem nam Örlygshöfn við Patreksfjörð. Í Kollsvík hafa í gegnum
tíðina verið tveir höfuðbæir; Kollsvíkurbærinn sjálfur, norðan til í víkinni, og Láganúpur, sunnan til. Út frá þeim hafa svo byggst bæði hjáleigur
og lögbýli, t.d. Grundir, út frá Láganúpi, og Tröð, út frá Kollsvík. Miklar minjar eru þar um útræði sem stundað var úr víkinni. Mynd / HKr.
Í blaðinu í dag er fjallað um væntanlega
landbúnaðarsýningu sem verður í Laugar-
dalshöllinni 12.–14. október næstkomandi.
Ástæða er til að hvetja alla lesendur til að
leggja leið sína á sýninguna og kynna sér
starf og áherslur þeirra nær 100 fyrirtækja
og samtaka sem taka þátt í henni. Þar verða
bæði afurðirnar, bútækni, bændurnir sjálfir
og þeir sem þá þjónusta.
Ástæða er einnig til að vekja sérstaka athygli
á fyrirlestradagskrá sem fjallar að hluta til um
frumkvöðla- og sprotaverkefni í íslenskum
landbúnaði. Það er sannarlega margt jákvætt
í gangi þó að oft verði það meira áberandi
þar sem á brattann er að sækja eins og nú um
stundir í sauðfjár- og loðdýrarækt. En við
þurfum að hlúa að öllum sprotum og leggja
rækt við fjölbreytnina.
Hugsum um uppruna matarins
Það er sótt að landbúnaðinum á ýmsan máta.
Samkeppnin er að aukast, sterk króna gerir
allan innflutning ódýrari en okkar útflutning
dýrari, tollar hafa verið lækkaðir og samið
hefur verið um að tollfrjáls innflutningur aukist
verulega á næstu árum.
Það er fyllilega ljóst að íslenskir neytendur
hafa mikinn velvilja í garð íslensks landbúnaðar
og þeir velja yfirleitt íslenska framleiðslu sé
þess kostur. En þeim er ekki alltaf sagt hvaðan
maturinn kemur. Það er sanngirniskrafa að úr
því verði bætt.
Vissulega er oft hægt að sjá uppruna á
vörum úti í búð, en það er lítið um að það sé
gert t.d. í mötuneytum eða veitingastöðum. Ég
hvet lesendur til að spyrja eftir upprunanum
þar sem þeir versla. Við erum öll neytendur
og það þrýstir á um úrbætur ef að nógu margir
láta í sér heyra þar sem þeir versla.
Tollvernd og stuðningur við landbúnað
eru til þess að jafna samkeppnisstöðu. Það er
engri þjóð sama um sína framleiðslu og allar
þjóðir styðja við hana á einhvern hátt. Við
búum í landi þar sem ræktunarmöguleikar
eru takmarkaðir og nýtum okkur ekki aðferðir
sem víða tíðkast til að þrýsta verðinu sem
mest niður, eins og að flytja inn afurðamestu
stofnana, nota hormóna eða sýklalyf sem
vaxtarhvata.
Við byggjum á fjölskyldubúum, endur-
nýjanlegri orku þar sem það er hægt, hreinu
vatni og grasfóðrun þar sem það á við. Við
búum við þau forréttindi að nota óverulegt
magn af sýklalyfjum í landbúnaði sem þýðir
að hætta á ónæmi er hér miklu minni, eins
og nýleg samanburðarrannsókn á íslensku og
innfluttu grænmeti dró enn einu sinni fram
fyrir fáum dögum.
Vissulega gætum við gert ýmislegt til
að þrýsta verðinu meira niður en neytendur
yrðu örugglega ekki ánægðir með þær
framleiðsluaðferðir.
Við vitum hvaðan sú framleiðsla kemur sem
á sér stað hérlendis og ef það koma vandamál
upp þá er sagt frá þeim og þau hljóta almenna
fordæmingu eins og dæmin sanna.
Hvernig vörur erum við að kaupa að utan?
Við verðum líka að hugsa til þess að við vitum
lítið um þá framleiðslu sem flutt er inn.
– Hvernig voru framleiðsluaðstæður
og framleiðsluhættir?
– Dýravelferð?
– Lyfjanotkun?
– Aðbúnaður starfsfólks?
Við erum kannski ekki mikið að spá í
þetta og það er ekki sagt frá þessu hér. Að
framleiðslunni erlendis koma bændur, annað
starfsfólk og oft búfénaður en við vitum ekkert
um aðstæður þeirra – gerum ekki þær sömu
kröfur til innflutningsins og við gerum hér –
vegna þess að við höfum engar upplýsingar
og þeirra er ekki krafist. Um það ættum við
að hugsa meira.
Það má benda á sláandi umfjöllun Kveiks
á RÚV sl. þriðjudag um aðstæður erlendra
starfsmanna hérlendis. Eðlilega vilja menn ekki
sjá að gengið sé á réttindi verkafólks og bændur
styðja verkalýðshreyfinguna heils hugar
á því sviði. Við ætlum ekki að grafa undan
kaupum og kjörum launafólks sem vinnur eftir
samningum með því að ráða erlent vinnuafl á
smánarlaunum. Það er það sem við erum að
gera óbeint með því að þrýsta sífellt á um meiri
innflutning á ódýrum mat og minni tollvernd
landbúnaðarafurða. Það er bara þannig.
Hvar er hinn öflugi fyrirliði landbúnaðar
og matvæla í ráðuneytinu?
Stjórnvöld á hverjum tíma hafa stutt hérlendan
landbúnað á ýmsan hátt og gera enn. Nú
stendur yfir endurskoðun á samningi um
sauðfjárræktina sem vonandi verður hægt að
ljúka farsællega. En þetta snýst ekki bara um
stuðning.
Það er mikil reglusetning um landbúnaðinn.
Það gilda margar og strangar reglur um
framleiðsluna. Við viljum ekki neinn afslátt
af því en það þýðir líka að það þarf að standa
vel að stjórnsýslunni og öðru utanumhaldi.
Það þarf að vera hægt að taka á málum fljótt
og örugglega.
Lengi var það þannig að sérstakt
ráðuneyti fór með landbúnaðarmál. Því
var svo slegið saman í sjávarútvegs- og
landbúnaðarráðuneyti og svo aftur í
atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, þó að
því sé nú stýrt af tveimur ráðherrum. Við þetta
voru og eru margir ósáttir í landbúnaðinum.
Það var þó þannig að einni skrifstofu í því
ráðuneyti var ætlað að sinna málefnum
landbúnaðar og matvæla.
Nú í lok september bárust fregnir um að
þessari einu skrifstofu ætti á slá saman við
aðra. Þetta hafði ekki verið kynnt með neinum
hætti og kom upp þegar ráðning nýs „öflugs
fyrirliða á sviði matvæla og landbúnaðar“
(eins og ráðuneytið auglýsti sjálft) átti að
vera að ljúka. Ráðherra hefur ekki séð sér
fært að kynna bændum rök sín fyrir þessum
breytingum. Honum þarf ekki að koma á óvart
að þeim þyki þetta lýsa litlum áhuga á að efla
íslenskan landbúnað nema að hann sýni fram
á annað með afgerandi hætti.
Sindri Sigurgeirsson
formaður Bændasamtaka Íslands
sindri@bondi.is
Áherslur í ýmsar áttir
Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 − Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is – Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson
smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is – Auglýsingastjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir ghp@bondi.is – Sími: 563 0303 – Netfang auglýsinga: augl@bondi.is −
www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is
Frágangur fyrir prentun: Anna Kristín Ólafsdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621