Bændablaðið - 04.10.2018, Qupperneq 7
Bændablaðið | Fimmtudagur 4. október 2018 7
LÍF&STARF MÆLT AF
MUNNI FRAM
Laugardaginn 22. september var réttað í
Melarétt í Fljótsdal. Hátt á fjórða þúsund
fjár var í réttinni, að sögn Jóhanns F.
Þórhallssonar fjallskilastjóra.
Afréttur Fljótsdælinga er afar víðfeðmur
og skiptist í sex gangnasvæði sem eru
Útheiði, 171 km2, en það fé er rekið í
Melarétt. Þá er Rani, sem er 230 km2, Undir-
Fell, 308 km2, Múli 232 km2, Kiðafell og
Hraun, 103 km2 og Villingardalur, Flataheiði
og Gilsárdalur 90 km2.
137 dagsverk
Það eru lögð á 137 dagsverk til að smala
þessi svæði. Gangnamenn eru sumir búnir
að vera í smalamennskum á aðra viku.
Göngum var flýtt vegna norðanáhlaupsins
sem gerði um miðja vikuna á undan. Það fé
sem er réttað á Melarétt kemur úr Útheiði,
Rana, Undan-Fellum og af Vesturöræfum.
Ein stærsta rétt landsins
var hlaðin úr grjóti fyrir 118 árum
Melarétt er ein stærsta rétt landsins, var
hlaðin um aldamótin 1900 úr grjóti úr
Bessastaðaá og er mikið mannvirki. Halldór
Benediktsson teiknaði og stjórnaði byggingu
réttarinnar, fyrst var réttað í Melarétt 26
sept. 1902. Þar sem grjótið
í réttinni er sorfið undan
árstraumnum þarf hún talsvert
viðhald. Fjöldi fólks var í
réttinni, heimamenn ásamt
vinum og nágrönnum og
gekk greiðlega að draga í sundur, margar
hendur vinna ávallt létt verk. Réttarstjóri var
Hjörtur E. Kjerúlf, bóndi á Hrafnkelsstöðum
í Fljótsdal, og stýrði hann skömmtun á fé inn
í dráttarhring úr almenningi.
/Erna Bjarnadóttir
Hátt á fjórða þúsund fjár í Melarétt:
Það tekur um viku og 137 dagsverk
að smala allan afrétt Fljótsdælinga
Það mylgrast til mín stökur frá Gunnari Veltan. Gjarnan verða þær til þegar hann situr undir
sjónvarpsfréttum. Fyrir ekki alls löngu var
frá því sagt í sjónvarpi, að fundist hefðu
fornminjar sem greindust í aldri talsverðu
fyrir sjálft landnámið. Gunnar tekur þó upp
hanskann fyrir Ingólf Arnarson:
Vasklega dauðir verða að berjast,
varla lærðir bjóða grið.
Ingólfur á í vök að verjast
að viðurkennt sé landnámið.
Gunnar tengist hestum sterklega, og hefur
verið innan um hross allt sitt líf. „Fallegum
hesti af góðu kyni var lógað er hann sýndi sig í
hrekkjum.“ Gunnar orti honum þessi eftirmæli:
Ekki þótti hann illa skaptur,
akkilesar þó ég get,
en fyrstu verðlaun í ættir aftur,
átti þetta góða ket.
Og haldið skal áfram hestavísum. Guðlaugur
Jónsson orti um hryssu sína Öldu:
Fram hún óð í miklum móð,
mekki hlóð í kasir.
Hinir tróðu hennar slóð,
-hrepptu blóð í nasir.
Um gæðing sinn orti Eyjólfur Jóhannsson
í Sveinatungu:
Taumar leika mér í mund
minn þá Bleikur rennur.
Þetta veika léttir lund
lífs meðan kveikur brennur.
Hallgrímur Jónasson rithöfundur orti um
hest sinn:
Yfir klungur, urðir, straum,
undir sungu vatnaflug.
Líkt og ungur lékst við taum,
-léttir þungum ferðahug.
Albert Jóhannsson, kennari í Skógum,
orti langan vísnaflokk um hestinn Sindra.
Þaðan koma tvær vísur hans:
Augun glettin, afar snör,
eins og hnettir tindra,
sporið létta og lundin ör;
lýsir þetta Sindra.
Man ég hljóða morgun þann,
-mynd úr sjóði vænum-
fyrir stóði fákur rann,
faxið glóði í blænum.
Hjörleifur Kristinsson á Gilsbakka í
Skagafirði kvað þessa kunnu vísu:
Leikur ekki lipran gang,
lítt vill blekking þjóna.
Þegar brekkan fyllir fang,
fyrst ég þekki Skjóna.
Þorsteinn Jósepsson rithöfundur átti tal
við Jón úr Vör, og innti hann þess, hvort
hann hefði aldrei ort alvöru hestavísu. Jón
orti þá það sem hann kallaði hestavísu:
Aldrei hef ég eignast fák.
Enginn vildi ljá mér hest.
Mátti sitja á mínum strák,
meðan ég gat riðið best.
Gísli Jónsson frá Saurbæ kvað:
Hesta rek ég hart af stað.
Heim er frekust þráin.
Kólna tekur, kvöldar að.
Kári hrekur stráin.
Björn S. Blöndal orti svo:
Þegar glettin bölsins brek
byrgja þétt að vonum,
fótaléttan fák ég tek
fæ mér sprett á honum.
Og Hallgrímur Jónasson orti á hestbaki:
Hófatak og fáksins fjör
finn ég vaka í svörum.
Létt á baki í fleygiför
flýgur staka af vörum.
Féð komið í réttina og Hallgrímur Þórhallsson á Skriðuklaustri byrjaður að draga í dilka. Myndir / Erna Bjarnadóttir
Þrír af sex afréttum Fljótsdælinga. Útheiði, sem er 171 ferkílómetri, er efst til
hægri á kortinu, en þaðan kemur féð sem rekið er í Melarétt.
Það var handagangur í öskjunni og þá þurfti ekki alltaf að vera kappklæddur til að halda á sér hita.
Hátt á fjórða þúsund fjár var smalað í Melarétt 22. september
síðastliðinn.
Umsjón:
Árni Geirhjörtur Jónsson
kotabyggð1@gmail.com