Bændablaðið - 04.10.2018, Qupperneq 46
Bændablaðið | Fimmtudagur 4. október 201846
LESENDABÁS
Skógrækt í Skógum í Þorskafirði
Á jörðinni Skógum í Þorskafirði
hefur verið að unnið að skógrækt
síðan í byrjun sjötta áratugar
síðustu aldar. Skógar teljast
samkvæmt upplýsingum Nytja-
lands 13 ferkílómetrar að flatar-
máli en jörðina tók íslenska bahá‘í
samfélagið í arf eftir Jochum
Eggertsson, skáld, rithöfund og
eins af frumkvöðlum skógræktar
á Íslandi.
Jörðin er við austanverðan
Þorskafjörð. Undirlendi er lítið og
hlíðin sem rís upp frá sjávarmálinu
einkennist af misbreiðum hjöllum
sem skiptast á við skriður. Hjallarnir
eru misvel grónir, sumir ágætlega, en
gróðurfarið ræðst af þeim raka sem
stöðvast á hjallanum á leið sinni niður
hlíðina til sjávar.
Skóga er fyrst getið í
Landnámabók. Sá sem nam land
í Skógum, var sænskur maður,
Oddur skrauti, sonur Hlöðvers
Gautakonungs. Upphaflega var
jörðin nefnd Uppsalir en síðar var
nafninu breytt í Skóga. Heimildir
fjalla um mikla tekju skógarafurða
í landi jarðarinnar til húsagerðar,
smíða, kolagerðar og eldiviðar.
Fæðingarstaður Matthíasar
Skógar eru þekktastir fyrir að
vera fæðingarstaður Matthíasar
Jochumssonar sem þar fæddist 11.
nóvember 1835. Matthías er eins og
kunnugt er eitt mesta og merkasta
ljóðskáld Íslendinga. Þegar Matthías
var á unglingsaldri fluttu foreldrar
hans frá Skógum og jörðin fór í
hendur annarra. Jochum Eggertsson,
bróðursonur Matthíasar, keyptir
Skóga 1950 og þá komst jörðin aftur
í hendur ættmenna Matthíasar.
Jochum fór aldrei troðnar slóðir,
hvorki sem skáld eða frumkvöðull, og
hann var meðal þeirra Íslendinga sem
fyrstir gengu bahá‘í trúnni á hönd.
Eftir að hann keypti jörðina hóf hann
skógrækt á litlum skika sem hann
girti nyrst í landareigninni niður við
fjarðarbotninn. Þegar Jochum hófst
handa í skógrækt 1950 sáu aðeins
örfáir menn á landinu þörfina fyrir
skógrækt sem leið til jarðvegsbóta
og vörn gegn uppblæstri og
jarðvegseyðingu, Skógræktarmenn
voru almennt litnir hornauga og
afstaða til þeirra var neikvæð meðal
þjóðarinnar vegna þess að þeir höfðu
ama af lausagöngu sauðkindarinnar.
Árið 1959 fékk Jochum
girðingarstyrk frá Skógrækt ríkisins
til að stækka það svæði sem friðað
var fyrir beit upp í 50 hektara. Þetta
svæði var síðan nýtt til frekari átaka
í skógræktinni.
Krefjandi starf, erfið aðföng
Skógræktarstarfið hjá Jochum var
krefjandi, aðföng erfið, ferðin frá
Reykjavík löng, staðir sem ólu upp
plöntur til gróðursetningar fáir og
frumstæðir og plönturnar dýrar.
Jochum brást við þessu með því að
útvega sér fræ, sá því í dreifibeð og
koma upp þúsundum barrplantna
auk þess sem hann sáði fræi beint
í svörðinn.
Elsta heimildin sem fyrir liggur
um ástand gróðurs í Skógum er í
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls
Ólafssonar. Þar er fjallað um Skóga
og stutt tilvísun í gróðurástandið þar:
„Útigangur í lakara lagi. Skógur
til kolagjörðar og eldiviðar er nægur,
en til raftaviðar eyddur, torfrista og
stunga lök og lítt nýtandi. Engjar
eru öngvar nálægt jörðunni. En hún
á engi eitt fram á fjalli, sem kallast
Skógaengi, og er þángað mjög lángt
og stórlega torsótt yfir Músará,
sem rennur í djúpum gljúfrum.
Úthagarnir eru góðir og miklir á
sumurin ...“
(Jarðabók Árna Magnússonar og
Páls Ólafssonar 6. hefti bls 210-211)
Við eigum líka lýsingu frá
Matthíasi Jochumssyni þar sem hann
ber saman gróðurástandið upp úr
1840 í ljósi þess sem ber fyrir augu
hans 1913. Hann segir í ævisögu
sinni Sögukaflar af sjálfum mér:
„Yfir hin gömlu skógarsvæði leit
ég fljótlega,- var mér sagt, að litlar
leifar stæðu eftir, og var þó fyrir 60 –
70 árum af miklu að taka ... enn voru
þar fagrir birkiskógar í barnæsku
minni, síðan hefur þeim stórlega
verið spillt. Hafa menn séð það of
seint, að skógar breyta hverri jörð
í lystigarð á hverju komandi vori.“
Stefnubreyting eftir 1980
Segja má að skógræktarstarfið í
Skógum skiptist í þrjá kafla.
1) 1950 til 1966. Frumherjastarf
Jochums sem fólst í að friða land
og gróðursetja og sá ýmsum
trjátegundum í skjóli upprunalegs
birkikjarrs.
2) Frá 1981. Bahá’í samfélagið
hefur skipulega umhirðu og grisjun
skógræktarinnar sem Jochum
hóf og í takmörkuðum mæli
plöntun á nýjum svæðum innan
skógræktargirðingarinnar frá 1959.
3) Frá 2005 til þessa dags.
Þátttaka í Skjólskógaverkefninu á
Vestfjörðum. (Fjölnytjaskógrækt)
Eins og sést af upptalningunni
verður nokkur stefnubreyting í
skógræktarstarfinu í Skógum um og
upp úr 1980. Fyrst í stað snerist þetta
um að hirða um og hlú að hinum
ýmsu þáttum skógræktarinnar sem
Jochum lagði grunninn að. Einnig
var haldið áfram að planta í svæðið
en þó ekki í stórum stíl, en þetta var
gert samhliða því að reynt var að
halda við, bæta og skýla.
Mikil kaflaskipti urðu árið
2005 þegar bahá‘í samfélagið
skráði sig sem þátttakanda
í verkefni stjórnvalda sem
nefndist landshlutabundin
skógræktarverkefni og lagður
var grunnur að með lagasetningu
1999. Skógar urðu þá hluti af
landshlutaverkefninu Skjólskógar.
Arnlín Ólafsdóttir skógfræðingur
frá Skjólskógum tók út svæðið og
lýsti því því þannig:
„Landið er að hluta vaxið gisnu
kjarri, votlendispollar myndast innst
á hjöllum og ógrónar skriður og holt
eru áberandi fremst á hjöllum og þar
sem hjallar eru grunnir..... Innar á
jörðinni er myndarlegur skógarreitur
frá því um miðja 20. öld með
fjölbreyttu úrvali tegunda. Plantað
var þétt í reitinn og ekki sinnt um
að grisja lengi vel, svo talsvert er
um að trén hafi brotnað og laskast í
snjó. Að öðru leiti er vöxtur ágætur
og gefur góðar vonir fyrir tilvonandi
skógrækt. ...... Inn á milli kletta
myndast votlendi og eru nokkur
slík innan samningssvæðisins.
Gróðurfar einkennist af þessum
votlendum, lyngmóum og ógrónum
holtum. Kjarrleifar eru á víð og
dreif, almennt eru þær mjög dreifðar
en þar sem þekjan er yfir 50% telst
birkiskógur.“
Samhliða skógræktinni hefur
verið unnið að landgræðslu
bæði til að styrkja landið fyrir
áframhaldandi skógrækt og vinna
gegn jarðvegseyðingu. Þessi vinna
hefur verið unnin undir leiðsögn
og með stuðningi verkefnisins
„Bændur græða landið“, deild
innan Landgræðslu ríkisins.
Notast er við árlega áburðargjöf
og sáningu fræs.
Eftirtektarverður árangur
Þetta starf hefur borið eftirtekta r-
verðan árangur og leitt til samstarfs
við leiðandi einstaklinga á sviði
skógræktar og landgræðslu á
vettvangi hins opinbera sem
og félaga sem vinna að þessum
málefnum. Þátttaka í þessu starfi
er lykillinn að hjarta skógarbænda
um allt land.
Landshlutabundnu skógræktar-
verkefnin, bændaskógræktirnar,
voru grundvallaðar með lögum
árið 1999. Þegar verið var að
fjármagna verkefnið þá var
aðallega tvennt sem nefnt var
til sögunnar sem rökstuðningur
fyrir fjármögnun. Annars vegar
skuldbinding þjóðarinnar við
loftslagssamninginn í Kyoto og það
sem vó kannski þyngra samdráttur
í hefðbundnum landbúnaði og
byggðasjónamið. Nýplöntun
landshlutaskógræktarverkefnanna
verður tekin með í úttekt
Skógræktar ríkisins. Úttektin verður
notuð til að meta kolefnisbindingu
skóga sem plantað hefur verið eftir
1990 og falla þar af leiðandi undir
skuldbindingar Íslands gagnvart
Kyoto bókuninni. Verkefnið felur
í sér fjárhagslegan og faglegan
stuðning íslenska ríkisins við
kröftuga skógrækt á bújörðum á
Íslandi.
Í ferð sinni um bernskustöðvarnar
í upphafi síðustu aldar greip
Matthías gjarnan til ljóðsins til að
lýsa tilfinningum sínum, óskum og
bænum. Á einum stað segir hann
hann:
Friði drottinn fjörðinn minn
fósturbyggð og þingstaðinn,
blessi lýð og landsins plóg,
og lífgi við minn gamla skóg.
Þeir sem nú vinna að skógrækt
í Skógum vinna að því að þessi
fróma bæn þjóðskáldsins verði að
veruleika
Böðvar Jónsson