Bændablaðið - 09.05.2018, Blaðsíða 22
22 Bændablaðið | Miðvikudagur 9. maí 2018
Slow Food-hreyfingin hélt Terra Madre Nordic í Kaupmannahöfn:
Íslenskum matarhefðum hampað
– á markaðstorgi og málstofum
Slow Food-hreyfingin heldur mikla
matarhátíð sem heitir Salone del
Gusto & Terra Madre í Tórínó
annað hvert ár – og slík hátíð verð-
ur einmitt haldin í september næst-
komandi. Á dögunum var Terra
Madre hátíð í fyrsta skipti haldin
á Norðurlöndum, nánar tiltekið í
Kaupmannahöfn undir yfirskrift-
inni Terra Madre Nordic, þar sem
Íslendingar létu að sér kveða.
Þátttakendur komu reyndar frá
öllum Norðurlöndunum, auk þess
sem Grænlendingar, Færeyingar,
Álandseyjar og Sápmi (Lappland)
áttu fulltrúa á hátíðinni.
Markmiðið með hátíðinni er
meðal annars að tengja saman hin
norrænu samfélög um sjálfbæra
matvælaframleiðslu, en þar
innanborðs eru smáframleiðendur,
róttæklingar, fræðimenn og
matreiðslumenn.
Fyrsti Terra Madre viðburðurinn
var haldinn á Ítalíu árið 2004 en
frá árinu 2007 hafa sambærilegir
viðburðir verið haldnir til dæmis
á Írlandi, í Tansaníu, Brasilíu,
Argentínu, Rússlandi og fleiri
löndum. Alltaf er um að ræða sama
form á Terra Madre viðburðum;
sýningar (sala og kynning á afurðum),
smiðjur og fyrirlestrar.
Alls tóku 14 íslenskir
smáframleiðendur þátt í hátíðinni,
auk þess sem Íslendingarnir voru
áberandi á málstofum um norrænan
mat. Þá var dr. Ólafur Dýrmundsson
frummælandi á málstofu um norræn
búfjárkyn, þar sem hann fjallaði
sérstaklega um íslensku búfjárkynin.
Dominique Plédel Jónsson, for-
maður Reykjavíkurdeildar Slow
Food, segir að hátíðin hafi heppn-
ast mjög vel – og eiginlega framar
vonum því mikið var um að vera
í Kaupmannahöfn þessa helgi.
„Aðsókn var mjög góð og gestir komu
víða að þannig að alþjóðlegur bragur
var á hátíðinni. Norðurlandanágrannar
voru áberandi og margir Ítalir voru
að sjálfsögðu mættir. Þá fjölmenntu
Íslendingar sem eru búsettir í
Danmörku, höfðu mjög gaman af og
birgðu sig vel upp. Að auki komu um
30–35 manns frá Íslandi sérstaklega
til að fara á hátíðina. Almennt má
segja að góð sala hafi verið í íslensku
sölubásunum,“ segir Dominique.
Hátíðin styrkt af Norrænu
ráðherranefndinni
Að sögn Dominique styrkti Norræna
ráðherranefndin verkefnið myndar-
lega, sem telst vera í beinu framhaldi
af Ny Nordisk Mad-áætlunarinnar.
„Þetta gerði þátttakendum kleift að
setja upp sína bása þeim að kostn-
aðarlausu og þeir þurftu einungis
að greiða fyrir flutninginn á þeirra
vöru, ferðir og gistingu. Hóflegt
gjald var tekið inn á svæðin og inn á
smakkanir en ókeypis var á málstof-
ur. Hátíðarsvæðið var í Ködbyen – í
hjarta Kaupmannahafnar – þar sem
mikil fræðslustarfsemi fer fram; þar
er Köbenhavns Madhus, Børnenes
Madhus, Copenhagen Food Space
– allt í innan við 2–300 metra
fjarlægð frá svæðinu. Þar eru líka
margir tónlistar- og tómstundaskól-
ar til húsa.
Af þeim um 5.000 manns
sem komu á hátíðina voru um 80
sýnendur – þar af 14 íslenskir smá-
framleiðendur. Viðburðirnir voru
alls um 200; smakkanir, smiðjur,
málstofur af öllu tagi. Þar var ýmis-
legt mjög merkilegt og greinilegt að
líffræðileg fjölbreytni (biodiversity)
var efst í huga margra gesta. Meðal
áhugaverðra málstofa má nefna mál-
stofu um Norðurlönd og CAP, land-
búnaðarstefnu Evrópusambandsins,
málstofu um vernd vöruheita og
upprunamerkingar þar sem við
Svavar Halldórsson frá Icelandic
lamb vorum í umræðum, málstofa
um „heritage breeds“ eða gömul
húsdýrakyn, þar sem Ólafur
Dýrmundsson og ég tókum þátt.
Umfjöllunarefnið var: hver er þeirra
staða og er það þess virði að vernda
þau – þar sem svarið var einmitt já.
Það má gera mun betur í varðveislu
þeirra, einkum í Svíþjóð, Danmörku
og Finnlandi.“
Dominique tiltekur einnig
málstofu um Slow Food Chef‘s
Alliance, en það eru sérstök sam-
tök innan Slow Food þar sem mat-
reiðslumenn taka höndum saman
um að verja líffræðilega fjölbreytni
með sterku tengslaneti. Dóra
Svavarsdóttir, matreiðslumeistari
og eigandi Culina, og Gísli Matthías
Auðunsson, matreiðslumeistari og
eigandi Slippsins, stýrðu þeirri
málstofu sem var þétt setin af mat-
reiðslumönnun og ungu fólki.
Merkilegt samtal um
lýðræðisvæðingu á gæðafæðu
„Merkilegt var líka samtal Dan
Saladino, eins þekktasta blaða-
manns hjá BBC 4 Food Channel,
sem hefur komið til Íslands og hefur
mikinn áhuga á því sem er að gerast
hér, meðal annars varðandi skyr-
ið okkar, við Christian Pugliesi,
frægan matreiðslumann um
„Market-Based Biodiversity and the
Democratisation of Good Food“.
Christian Pugliesi var matreiðlsum-
eistari á hinum kunna veitingastað
Noma í Kaupmannahöfn og á nú
Relæ (sem er með eina Michelin-
stjörnu) og Mannfred's. Hann er
hugsjónamaður og varð fyrstur til
að vera 100 prósent með lífrænt
ræktað hráefni á sínum veitingastað
og fá Michelin-stjörnu, en það gerði
hann árið 2013 á Relæ.
Ég sá um smökkun og kynningu
á gömlum íslenskum geymsluað-
ferðum; þurrkun, reykingu með taði
og súrsun og gaf smakk af silungi,
hangikjöti og mysu. Við Þóra
Valsdóttir frá Matís stóðum fyrir
ítarlegri kynningu á hefðbundnu
íslensku skyri (sem við fengum
frá Erpsstöðum) og bárum saman
við skyr frá Mjólkursamsölunni og
tveimur dönskum skyrframleiðend-
um. Munurinn var sláandi og mark-
mið okkar að sýna hvað skyr er í
raun, ekki að skjóta niður það sem
er dreift undir nafninu skyr annars
staðar en er í raun bara jógúrtfram-
leiðsla.
Íslensk Hollusta var líka með
mjög flotta smökkun þar sem
Gísli M. Auðunsson matreiddi
einn disk með sölvum og sjávar-
fangi. Omnom var líka með frábæra
smökkun þar sem þeir lögðu áherslu
á sjálfbærni og notkun á íslensku
hráefni (byggi). Básar fylltust og
síðan stóð fólki í röðum eftir að
komast að.“
Sterk tengsl mynduð
„Allir komu heim ánægðir þó ekki
hafi allir endilega selt mjög mikið,
en flestir mynduðu sterk tengsl og
lærðu af öðrum á markaðstorginu
og á viðburðunum.
Það er alltaf spurning um hvað
á að gera við það sem selst ekki á
markaðstorginu því það er rándýrt
að senda það heim aftur. Að þessu
sinni var búið að ákveða að láta góð-
gerðarsamtök njóta góðs af og það
var gert myndarlega. Þar að auki
gaf Reykjavik Distillery ágóðann af
sölunni til Barnaheilla.
Þetta verður að öllu óbreyttu
endurtekið að tveimur árum liðnum,“
segir Dominique Plédel Jónsson.
/smh
Íslensku smáframleiðendurnir og þátttakendur
Íslandsstofa styrkti verkefnið og Matarauður kostaði Gísla Matthías út.
Dóra Svavarsdóttir var verkefnastjóri fyrir hönd Slow Food og sá um
framkvæmdina vegna markaðstorgsins, en Dominique sá um þátttöku í
málstofum og smökkunum.
Á markaðstorginu voru eftirtaldir aðilar með bása:
• Saltverk
• Svövu sinnep
• Krus Islandus (mysa)
• Móðir Jörð
• Breiðdalsbiti
• Pure Natura
• Icelandic Lamb
• Bone & Marrow
• Reykjavik Foods
• Feed the Viking
• Klaustursbleikja
• Omnom
• Íslensk Hollusta
• Reykjavik Distillery
Dr. Ólafur Dýrmundsson, frummælandi á málstofu um norræn búfjárkyn, þar
sem hann fjallaði sérstaklega um íslensku búfjárkynin. Mynd / Dominique
Þóra Valsdóttir frá Matís fræðir málstofugesti um eðlisgerð íslenska skyrsins.
Mynd / Dominique
Markmið okkar er að spara
viðskiptavinum tíma,
fyrirhöfn og fjármuni.
VA N TA R Þ I G STA R FS F Ó L K
Handafl er traust og fagleg
starfsmannaveita með
margra ára reynslu á markaði
þar sem við þjónustum
stór og smá fyrirtæki.
Við útvegum hæfa
starfskrafta í flestar
greinar atvinnulífsins
Suðurlandsbraut 6, Rvk. | SÍMI 419 9000 info@handafl.is | handafl.is
Dominique Plédel Jónsson, formaður Slow Food Reykjavík. Mynd / smh