Bændablaðið - 09.05.2018, Blaðsíða 38
38 Bændablaðið | Miðvikudagur 9. maí 2018
Sumardvöl Kristbjörns Egilssonar í Langeyjarnesi og Efri-Langey í Klofningshreppi í Dalasýslu 1958–1961:
Sjálfsþurftarbúskapur í sátt við
náttúruna fyrir sex áratugum
Kristbjörn Egilsson líffræðingur
hefur gefið út endurminningar
drengs sem galvaskur vildi fara
í sveit 9 ára gamall og fékk
pláss á smábýli við Breiðafjörð.
Þetta er fágæt lýsing og myndir
Kristbjörns á lífi og starfi á
smábýli við sjóinn á 6. áratug 20.
aldar. Horfinn heimur sem segir
frá sjálfsþurftarbúskap í sátt við
náttúruna.
Ritið heitir Sumardvöl í
Langeyjarnesi og Efri-Langey,
Klofningshreppi Dalasýslu 1958-
1961. Kristbjörn segir á titilsíðu
að ritið sé tileinkað Elínu í
Langeyjarnesi. „Hún var mín fyrsta
húsmóðir og ævivinkona.“
Ritið hefur vakið mikla athygli á
þeim slóðum þar sem Kristbjörn var
í sveit, enda einstök lýsing af lífinu
í sveitinni samkvæmt minningum
ungs drengs úr borginni sem hafði
auk þess meðferðis myndavél til
að festa á filmu það sem fyrir augu
bar í sveitinni. Hefur hann gefið
Bændablaðinu heimild til að birta
hluta úr ritinu ásamt nokkrum
myndum lesendum til fróðleiks. Í
inngangi þessa rúmlega 80 síðna
rits segir:
Það sem hér fer á eftir eru
minningar úr sumardvöl minni í
Árin frá níu til tólf ára aldurs eru
sterk í minningunni. Ýmislegt
rifjaðist enn fremur upp við skoðun
á ljósmyndum sem ég, Logi bróðir
minn og Egill faðir okkar tókum
á þessum tíma og nokkrum árum
seinna. Logi, sem var í Langeyjarnesi
las allan textann yfir og lagfærði
margt og í samræðum milli okkar
varð ýmislegt skýrara og vonandi
nær sanni. Ég hef leitast við að segja
sem réttast frá án þess að ýkja eða
draga úr neinu. Hins vegar verður að
hafa í huga að textinn er minningar
manns sem sá hlutina sínum augum
sem ungur drengur og síðan eru liðin
nærri sextíu ár. Ég held þó að þetta
yfirlit gefi nokkuð rétta heildarmynd
af heimilinu, verklaginu og andanum
sem ríkti í Langeyjarnesi á þessum
árum. Ég var svo lánsamur að ná
að kynnast lífi og búskaparháttum
sem voru að hverfa á tækniöld.
Nytsemin, nægjusemin, lífsbaráttan
og lífsviðhorfin voru af allt öðrum
heimi en varð á síðari hluta 20.
aldarinnar.
Undirbúningur og ferðalagið
í sveitina
Ég fór fyrst í sveit til vandalausra
níu ára gamall, hinn 3. júní 1958,
og dvaldi þar fjögur sumur í góðu
yfirlæti. Alltaf var farið vestur í
lok maí eða byrjun júní og dvaldi
ég þar til ágústloka. Bærinn heitir
Langeyjarnes í Klofningshreppi í
Dalasýslu. Þar bjuggu hjónin Elín
Jóhannes Þórður Jónsson, 58 ára,
með syni sínum, Bergi Jóhannessyni,
29 ára. Ástæðan fyrir því að ég fór í
sveit var sú að mig langaði í sveit.
Ekki var mikið um að vera í
Reykjavík yfir sumartímann, skólinn
var ekki starfræktur frá júní til
ágústloka fyrir sjö til níu ára börn og
frá og með tíu ára bekk hófst skólinn
ekki fyrr en 1. október svo nægur var
tíminn. Mér fannst gaman að vera í
sumarbústað fjölskyldunnar, en þar
hafði maður takmarkaðan aðgang að
skepnum. Tíðarandinn var einnig sá
að það þótti gott að börn kynntust
sveitalífi, lærðu til verka og að
umgangast menn og málleysingja.
Eldri systir mín, Auður, fór einnig í
sveit, norður að Söndum í Miðfirði.
Logi bróðir minn tók við af mér í
Langeyjarnesi og var þar þrjú sumur.
Guðbjörg systir mín sinnti hins vegar
barnapössun hjá ungum hjónum sem
áttu nýtt hús, Eik í Mosfellssveit, en
þau unnu bæði á Reykjalundi.
Eitt var ég viss um. Mig langaði
ekki í sumarbúðir, t.d. Vatnaskóg,
eða skátabúðir. Mér leiddust allar
hópíþróttir og fannst slík dvöl ekki
henta mér. Þar að auki var slík
vist aldrei meira en vika til hálfur
mánuður. Strax á unga aldri var ég
sem sagt með ákveðinn vilja og sýn
á sumt.
Ef til vill hefur líka þótt ágætt
að létta á álaginu heima. Við vorum
fjögur systkinin, fædd á fimm árum,
og pabbi hafði verið mikið veikur
nokkrum árum áður og átti að taka
lífinu frekar rólega.
Fyrir dvölina í Langeyjarnesi
hafði ég farið í sumardvöl og ferða-
lög. Sumarið 1955 fór ég með stjúpu
pabba, ömmu Söru (Sara D.W.
í Húnavatnssýslu í heimsókn á bæ
sem heitir Skarð og hefur það lík-
lega kveikt áhuga minn á sveitadvöl.
Sumarið 1956 vorum við fjögur
systkinin með mömmu og pabba,
systur pabba og manni hennar
og syni í tveim vinnuskúrum frá
Rafveitunni uppi við Elliðavatn, en
pabbi og mágur hans unnu þá báðir
hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur.
Sumarið þar á eftir var fjölskyldan
í sumarbústað sem heitir Bjartholt
sem faðir minn keypti sama ár og var
rétt ofan við Gunnarshólma.
Ég fór í sveit til vandalausra að
eigin ósk og með fullu samþykki
mínu. Foreldrar mínir eru báðir
Reykvíkingar og höfðu engin
sérstök tengsl við tilteknar sveitir
eða landshluta. Ég er sem sagt
hreinræktaður Reykvíkingur því
síðan á fyrri hluta nítjándu aldar
hefur ætt mín átt heima í Reykjavík.
Það að vera Reykvíkingur í húð og
hár þýddi að við systkinin vissum
t.d. í hvað húsum í Reykjavík
foreldrar okkar, afar og ömmur,
langafar og langömmur fæddust eða
létust. Mér fannst alltaf að flestir
sem fjölskyldan kynntist í þá tíð
væru utan af landi, öfugt við okkur.
Amma Sara, sem var stjúpa
pabba tók að sér að finna sveitabæ
fyrir drenginn. Hún hafði kynnst
stúlku að nafni Agnes Pétursdóttir,
sem bjó í Stóru-Tungu á Fellsströnd,
en þær höfðu verið stofufélagar á
Landakoti árið áður. Hún bað Agnesi
að spyrjast fyrir um pláss í Stóru
Tungu eða nágrenni. Þá vildi svo vel
til að hjónin í Langeyjarnesi vildu fá
strák til að snúast lítillega, eins og að
sækja kýrnar, og ég sló til.
Fyrir sveitadvölina var keypt
ferðataska í Geysi í Aðalstræti. Til
dvalarinnar var valinn hentugur
fatnaður, svo sem gallabuxur,
skyrtur, peysur, nærföt og sokkar
til skiptanna, ásamt vettlingum og
húfu. Skóplögg voru vaðstígvél,
gúmmískór (þessir tékknesku með
sem náðu upp á ökkla, einnig frá
Tékkóslóvakíu, og svartir með
hvítum botnum og reimum. Þessi
fótabúnaður þótti bráðnauðsynlegur
í sveitina. Einnig voru í farangrinum
sokkahlífar, gerðar úr þunnu leðri. Í
þær var farið utan yfir ullarsokkana
og síðan farið í gúmmískóna.
Þannig slitnuðu sokkarnir minna og
svo gekk maður í sokkahlífunum
innandyra og þurfti því enga inniskó.
Þar sem ég var eyrnabólgubarn var
ég látinn taka með mér eyrnaskjól
til að þurfa ekki að vera með húfu
niður fyrir eyru alla daga. Ekki þurfti
ég að hafa með mér sæng, kodda,
rúmföt og handklæði. Tannbursti
og tannkrem var helsta snyrtivaran
og lofaði ég mömmu hátíðlega að
bursta tennurnar á hverju kvöldi áður
en ég færi að sofa. Það loforð efndi
ég, þótt fólkinu á bænum þætti þetta
skrýtinn siður, en það notaði hvorki
tannbursta né tannkrem.
Einnig var ég með Nivea-krem
til að bera á andlitið ef ég sólbrynni.
Svo lét ég að sjálfsögðu snoða mig
fyrir sumardvölina, burstaklipping
var það sem gilti. Myndavél var
með í förinni. Pabbi gaf mér
kassavél, sem hann hafði fengið
í fermingargjöf. Hún var merkt
ljósmyndavöruversluninni Amatör
sem var til húsa á Laugavegi 55.
Að morgni 3. júní 1958 lagði
ég af stað í sveitina. Farið var með
rútu sem fór klukkan átta að morgni
frá BSÍ við Kalkofnsveg. Foreldrar
mínir fylgdu mér niður eftir. Mig
minnir að við færum gangandi, þar
sem ekki var til bíll á heimilinu og
ekki langt að fara, en við bjuggum á
Laugavegi 58b. Við kvöddumst svo
við rútuna og ég lagði einn af stað. Ég
man að konan sem sat fyrir framan
mig var Margrét Guðmundsdóttir
Á á Skarðsströnd, og held ég að hún
hafi verið beðin um að hafa auga
með mér á leiðinni. Ferðin vestur
tók tólf tíma.
Fyrst var stoppað eftir tvo tíma
í Hvalfirði, síðan í Borgarnesi og
Búðardal auk nokkurra annarra
staða sem ég kann ekki að nefna,
en þá var verið að henda út pósti,
pökkum og farþegum. Ég man að
ég var ekki bílveikur á leiðinni, en
ég hafði hálfkviðið fyrir því, og ekki
man ég eftir að ég hefði áhyggjur af
öðru hvað varðaði ferðalagið.
Um klukkan átta um kvöldið
stansaði rútan svo á Hnúki, en
þar var Póst og símstöð. Jóhannes
á Hnúki, skutlaði mér síðan niður
í Langeyjarnes sem er næsti bær,
líklega þrír til fjórir km á milli.
Þegar ég kom niður í
Langeyjarnes var mér vel tekið, þó
MENNING&MINNINGAR
Horft heim að Langeyjarnesi að sunnan í ágúst 1978. Fremst eru fjárhúsin.
Fjær eru íbúðarhús, fjóshlaða og gamli bærinn. Klofningsfjall og hrepp-
stjórasetrið Hnúkur í baksýn. Þarna er búið að mála öll húsin og túnhliðið.
Mynd / Kristbjörn Egilsson
Kristbjörn Egilsson (9 ára) í ágúst 1958 með fjósköttinn framan við fjósið í
Langeyjarnesi. Nautkálfur undan Lukku. Gúmmískór, Wrangler-gallabuxur
og eyrnaskjól, enda drengurinn eyrnabólgubarn. Mynd / Egill Kristbjörnsson Kristbjörn Egilsson (10 ára) sinnir
heimalningum (Blettfæti og Tinnu)
í Langeyjarnesi. Elín prjónaði
lopapeysuna. Hún var ljósblá með
hvítu munstri, ermarnar ísaumaðar,
Mynd / Elínborg L. Jónsdóttir,
Kort af Klofningshreppi og nágrenni. Klippt úr Herforingjaráðskorti. Blað nr.
24. Fellsströnd N. Mælt 1911 og prentað 1913. Mynd / Kortasafn Landmælinga Íslands.
Mikil tilhlökkun. Amma Sara prjónaði vestið sem var grátt með dökkgrænum
röndum. Sara Kristjánsdóttir og Kristbjörn Egilsson. Mynd / Egill Kristbjörnsson,