Bændablaðið - 09.05.2018, Blaðsíða 40
40 Bændablaðið | Miðvikudagur 9. maí 2018
LESENDABÁS
Sorporka – Tillögur skoðaðar um allsherjarlausn sorphirðumála landsmanna:
Fullkomin sorpbrennslustöð verði reist
til orkuframleiðslu á Vestfjörðum
– Í takti við tilskipun EES um að ekki megi urða meira en 10% af sorpi árið 2030
Sorphirða, það er að segja
móttaka og förgun úrgangs
frá heimilum og iðnaði, hefur
reynst sveitarfélögum á Íslandi
erfitt viðfangsefni. Ekki er svo
langt síðan, að öllu sorpi var
ekið á sorphauga í nágrenni
byggðar. Þar hrúgaðist það
upp, og reynt var að brenna það
sem hægt var. Af þessu stafaði
mikil mengun. Bæði loftmengun
vegna brunareyks og útgufunar
ýmiss konar lofttegunda svo og
jarðvegs- og grunnvatnsmengun
frá haugunum sjálfum.
Þegar umhverfisráðuneyti var
stofnað á Íslandi í febrúar 1990, voru
sorphirðumál landsmanna í miklum
ólestri og förgun sorps langt að baki
því sem gerðist í nágrannalöndum
okkar og flestum vestrænum
ríkjum. Töluvert hefur áunnist í
þessum efnum síðan þá. Munar
þar mest um tilkomu Sorpu 1991,
byggðasamlags sveitarfélaganna sex
á höfuðborgarsvæðinu um móttöku
og förgun sorps með kerfisbundnum
og umhverfisvænni hætti en áður.
Evrópusambandið samþykkti
nýlega tilskipun (9. júní 2016)
sem gerir ráð fyrir, að 2030
megi sveitarfélög á Evrópska
efnahagssvæðinu ekki urða meira
en sem nemur 10% af tilfallandi
úrgangi. Jafnframt er gert ráð fyrir,
að um 65% sorps skuli endurunnið.
Samkvæmt upplýsingum frá
Umhverfisstofnun mun þessi
tilskipun brátt fá ígildi reglugerðar
á öllu evrópska efnahagssvæðinu
og taka því gildi á Íslandi.
Sveitarfélögin fá þannig einhvern
frest, ekki mjög langan, til þess að
urða ekki meira en sem nemur 10%
af úrgangi.
Tillögur til úrbóta
Mörg sveitarfélög ásamt Fjórðungs-
sambandi Vestfjarða hafa um
nokkurt skeið verið að athuga
tillögur um allsherjarlausn sorp-
hirðumála landsmanna, sem Bragi
Már Valgeirsson, vélfræðingur,
Stefán Guðsteinsson, skipatækni-
fræðingur og Júlíus Sólnes, pró-
fessor emerítus, settu fram í skýrslu
snemma árs 2017. Verkfræðistofan
Verkís hefur einnig komið að þessu
verkefni. Í skýrslunni er lagt til, að
byggð verði fullkomin sorporku-
stöð við Ísafjarðardjúp, hugsan-
lega í Bolungarvík, sem taki á móti
80—100 þúsund tonnum af brenn-
anlegum úrgangi frá öllum sveitar-
félögum landsins.
Sorporkustöð
Stöðin yrði mjög tæknilega
fullkomin, byggð skv. ströngustu
reglum Evrópusambandsins í
líkingu við þær stöðvar, sem
nýlega hafa verið teknar í notkun
á Norðurlöndunum, m.a. á Amager
nærri miðborg Kaupmannahafnar
(sjá mynd). Um er að ræða
háhitabrennslu (um 1100 til
1200°C) með mjög fullkomnum
mengunarvarnabúnaði, þannig að
loftmengun er nánast engin.
80 þúsund tonna stöð á
Vestfjörðum mun framleiða um 7,5
MW af raforku og 23 MW af hita-
orku, eða um 260 gígavattstundir af
orku á ári. Með henni færi raforku-
þörf Vestfirðinga um Vestfjarðalínu
úr 150 MW/klst í u.þ.b. 15 MW/
klst á ári miðað við óbreytt ástand,
en næg hitaorka yrði til húshitun-
ar í byggðarlögum við Djúp, og
til margs konar atvinnustarfsemi.
Stöðin kæmi til með að veita um 15
manns atvinnu, og að auki yrði um
önnur afleidd störf að ræða. Talið er
að stöðin muni kosta um 10 milljarða
króna með tengdum mannvirkjum,
skip og hafnaraðstaða um 6 milljarða
króna, þannig að heildarkostnaður
þessa verkefnis gæti numið 16 millj-
örðum króna. Næsta skref verður að
gera nákvæmar rekstrar- og kostnað-
aráætlanir, þannig að hægt verði að
taka ákvörðun um þessa framkvæmd
á traustum grunni.
Við brennslu á sorpi í
háhitaofnum, þar sem hitastig
er um og yfir 1100°C, eyðast öll
lífræn efni. Úrgangur sem venjulega
er ekki gott eldsneyti, eins og
t.d. hræ og sláturhúsaúrgangur,
verður nothæft brennsluefni við
þessar aðstæður, þegar mesta
vatnsefnið er farið, en í honum er
mikil fita og trefjar sem brenna
vel. Annar brennanlegur úrgangur
skilur eftir sig skaðlaus steinefni
sem liggja eftir á brunaristinni
og nota má sem fyllingarefni við
byggingarframkvæmdir. Nokkuð
magn af fínösku verður til við
brennsluna. Hafa Norðmenn viljað
taka á móti henni. Það sem fer upp
með reykgasinu er leitt gegnum
margs konar hreinsisíur, sem skilja
frá efni eins og þungmálma og önnur
eiturefni. Þess ber að geta, að ekkert
„díoxín“ lifir af brennslu við hitastig
sem er yfir 800°C.
Það sem eftir verður á
brunaristinni, eru að langmestu leyti
skaðlaus steinefni sem geta nýst í
uppfyllingar hvar sem er, til dæmis
í vegagerð eða húsagrunna. Það
sem kemur frá hreinsibúnaðinum,
sem fjarlægir fínöskuna og
önnur óæskileg mengandi efni úr
reykgasinu, er sekkjað sérstaklega
og sent úr landi (til Noregs). Þessi
búnaður notar mikið af kalki við
hreinsunina, en úrganginn frá honum
er hægt að nota í allskonar iðnaði,
til dæmis til að eyða sýrum, lækka
sýrustig og einnig sem bindiefni í
malbik.
Sumir halda að sorporkuver þurfi
olíu, rafmagn eða gas, til þess að
halda sér gangandi. Svo er ekki.
Ofninn brennir sorpið án utanað-
komandi eldsneytis, þ.e. hann geng-
ur eingöngu á því sorpi, sem lagt
er á brunaristina. Þegar ofninn er
ræstur í upphafi og síðan einu sinni
á ári vegna viðhalds og þjónustu
(þá er slökkt á þeim), eru sérstakir
brennarar notaðir til að hita ofninn
upp aftur, sem getur tekið 15–24klst.
Þegar ofninn er orðinn 800 gráðu
heitur, er slökkt á brennurunum, og
ofninn hitar sig síðan sjálfur (með
sorpbrennslunni) upp í kjörhita,
u.þ.b. 1100°C.
Sorpflutningar
Allt sorp og allur úrgangur fyrir
utan gler og steinefni, sem nota
má í uppfyllingar, yrði flutt frá
flokkunarstöðvum sveitarfélaga í
gámum til næstu hafnar. Gámarnir
yrðu síðan fluttir með tveimur
sérútbúnum gámaskipum frá
öllum aðgengilegum höfnum
umhverfis landið (25–30 talsins) til
áfangastaðar, brennanlegur úrgangur
til sorporkustöðvar, en annað til
móttökustöðva fyrir t.d. málma og
endurvinnslu. Skipin gætu einnig
flutt hvers konar annan varning í
gámum milli hafna, meðal annars
olíu og benzín ásamt frystigámum
(fiskafurðir).
Skipin þurfa að vera frekar
grunnrist til að geta lagst að bryggju
á minni stöðum, þar sem aðdýpi er
lítið. Þau verða útbúin með stórum
krana, þannig að ekki sé þörf fyrir
mikla landaðstöðu (krana) til að
umskipa gámum í hverri höfn.
Skipin geta því komið og farið
hvenær sem er sólarhringsins og
áhöfn þeirra afgreitt sig að mestu
sjálf. Skipin er hægt að gera mjög
umhverfisvæn. Þau verða knúin með
þremur aflvélum, sem gætu notað
lífrænt gas, t.d. metan að hluta eða
öllu leyti. Til fróðleiks má geta þess,
að öll fyrirhuguð metanframleiðsla
Sorpu í Álfsnesi mun rétt nægja til
þess að knýja eina vél í hvoru skipi.
Með skipunum mætti taka upp
almenna strandflutninga á nýjan
leik. Það myndi hafa veruleg jákvæð
umhverfisáhrif, þar sem t.d. losun
koltvíoxíðs er talin sjö sinnum minni
við að flytja eitt tonn af varningi einn
kílómetra sjóleiðina en landleiðina
með flutningabílum. Einnig myndi
slit á þjóðvegum landsins minnka
verulega, en einn stór flutningabíll
er talinn valda sambærilegu sliti á
vegum landsins og 9000 einkabílar.
Að lokum er rétt að nefna aðrar
helstu mögulegar lausnir á förgun
á þeim úrgangi, er ekki verður
endurnýttur eða telst nothæfur til
endurvinnslu. Það er vart raunhæft,
að endurvinna 65% af úrgangi á
Íslandi. Svo fámenn þjóð getur ekki
ráðist í mikinn endurvinnsluiðnað.
Í lögum um meðhöndlun úrgangs
frá 2003 með áorðnum breytingum
er eftirfarandi forgangsröðun
um förgun hans: 1) Dregið skal
úr myndun úrgangs (með öllum
tiltækum ráðum), 2) endurvinnsla,
3) lífræn vinnsla, 4) endurnýting,
m.a. með orkuvinnslu, og að síðustu
5) urðun. Að lokum er í þessari
lagagrein ákvæði, sem segir, að
víkja megi frá þessari forgangsröðun
út frá hagkvæmnisjónarmiðum
(endurvinnsla óhagkvæm!).
Moltugerð (3) er alltaf möguleg
eftir vandaða flokkun. Moltugerð
er frekar viðkvæmt ferli, og verður
að vanda til verks, en rétt er að taka
fram, að moltugerð getur verið
æskileg aðferð samhliða öðrum
lausnum.
Lífræn orkuvinnsla (3). Það
að vinna lífrænt eldsneyti eins og
metan úr lífrænum úrgangi, t.d. úr
heimilissorpi og sláturhúsaúrgangi,
hefur sýnt sig vera góð lausn, þar
sem næg aðföng eru af úrgangi sem
henta til vinnslunnar. Þó er bannað að
nota margvíslegan lífrænan úrgang
til slíkrar vinnslu. Ber þar helst að
nefna alla taugavefi úr klaufdýrum,
og öll sýkt dýr sem hefur verið
slátrað. Hér sem fyrr er spurning
um hagkvæmni. Metanvinnsla í
fámennum byggðarlögum getur
varla verið raunhæf.
Að þessum aðferðum ólöstuðum
hefur fullkomin sorpbrennsla náð
hvað mestri útbreiðslu í flestum
ríkjum Evrópusambandsins og
raunar mjög víða um heim allan.
Ástæðan er sú mikla varmaorka
sem skapast í brunaferlinu og
hægt er að nýta. Þá er umtalsverð
raforka framleidd í slíkum stöðvum.
Nútíma sorporkuver eru hvað minnst
mengandi miðað við allar aðferðir
við að eyða eða farga sorpi. Og
skipaflutningar á sorpgámum hafa
umtalsvert minni mengun í för með
sér en flutningar á þeim landleiðina.
Það sem kemur upp um reykháfinn
frá slíkum orkuverum eru einungis
vatnsgufur og koltvíoxíð (CO2). Þess
ber að geta, að allar aðferðir við
eyðingu lífrænna efna, sem innihalda
koltvíoxíð, skila frá sér sama magni
af því við eyðingu. Einnig er vert
að nefna, að umframhitaorku í
slíkum orkuverum er hægt að nýta
til þess að safna saman CO2 frá
útblæstrinum, koma því á fljótandi
form, setja það á þrýstikúta og nota
til dæmis í gróðurhúsum.
Evrópusambandið gerir þá kröfu,
að sé sorpi eytt með brennslu í
sorporkuverum, verður að selja
75% af þeirri orku sem framleidd
er, til þess að starfsemin falli undir
flokkinn endurnýting. Ef ekki fer
sorporkuverið í flokk 5, þ.e. verður
lægst í forgangsröðuninni.
Það er nokkuð ljóst, að erfitt
verður að bregðast við hinum
nýju reglum ESB, um að aðeins
10% úrgangs verði urðaðir eftir
2030. Gera má ráð fyrir, að margir
urðunarstaðir muni verða notaðir
áfram einhver ár fram yfir 2030,
þar sem víðast hvar er ekki farið
að vinna að öðrum viðurkenndum
lausnum.
Að byggja fullkomna sorporku-
stöð á Vestfjörðum, þar sem
orkuskortur hefur verið viðvarandi
og leysa sorphirðuvandamál
landsmanna í leiðinni, svo
að ekki sé talað um að koma
strandflutningum á að nýju og losa
vegakerfið við talsverðan hluta af
þungaflutningunum, hlýtur að vera
áhugaverður kostur.
Bragi Már Valgeirsson,
Júlíus Sólnes
Stefán Guðsteinsson
Bonito ehf. • Praxis • Faxafen 10 • 108 Reykjavík • sími 568 2870 • www.praxis.is
Nýr vörulisti
kominn í hús
Mikið úrval af fatnaði sem þolir hátt
hitastig í þvotti, ótrúlega góð efni.
...Þegar þú vilt þægindi
Við sendum vörulistann heim
þér að kostnaðarlausu
Sorporkustöðin á Amager, ekki langt frá óperuhúsinu í Kaupmannahöfn. Hún var tekin í notkun í apríl 2017 og þykir
ein fullkomnasta stöð sinnar tegundar í Evrópu. Á veturna er skíðabrekka ofan á þaki stöðvarinnar til ánægju fyrir
Kaupmannahafnarbúa. Mynd / B&W Vølund.