Spássían - 2013, Side 24
24
vel, auk þess að styðja tímabilstilfinninguna), hér er
ekkert vídeó, hljóðmynd ekki uppáþrengjandi, leikmynd
sáraeinföld og fyrst og fremst þjónandi. Hér er kominn
hópur leikara að segja sögu og leggja út af henni. Ég
er búinn að nefna Birnu, og svo mæðir mikið á hennar
helstu mótleikurum, Árna Pétri Guðjónssyni og Friðrik
Friðrikssyni sem gera löggunum sínum mjög sannfærandi
skil. Fyrir minn smekk hefði rúnar kannski mátt setjast
aðeins fastar ofan á „deklamasjóns-tilhneigingar“ Arnars
Jónssonar í hlutverki þýska eftirlaunaspæjarans – en
á móti kom vissulega sú ánægja að heyra hann leika á
hristurnar.
Í öðru lagi liggur galdurinn í handritinu, og því
að þar er líka leikið meðvitað með ólíkan stíl.
yfirheyrslusenurnar rosalegu, þar sem engu er
líkara en verið sé að skrúfa tungumálið í sundur
til að fá þá niðurstöðu sem þarf, eru óhugsandi án
absúrdleikhússins. Sviðsetningarsenurnar þar sem
stílsmáti kvikmyndahandrita kallast á við kaldhömruð
tilsvör í hreinum Íslendingasagnastíl. Innskot
blaðamannsins, hans Stefáns Halls, sem í hreinum
raunsæisstíl virka eins og þau séu samin á staðnum.
Meira að segja afbyggingartilraunir Anthony Burgess fá
að vera með. reyndar þykir mér handrit þeirra rúnars,
Stefáns, Sjóns og hópsins með betri íslenskum leikritum
sem ég hef séð um nokkra hríð.
Og síðast en ekki síst er öllum þessum brögðum beitt
af nákvæmni og áreynsluleysi – það er galdurinn. Þetta
er einfaldlega alveg ógurlega vel gert. Höfundum og hópi
er mikið niðri fyrir, og það skilar sér, en ástríðan tekur
aldrei völdin.
„Þú ferð ekki héðan fyrr en þú manst þetta“ segir
annar lögregluböðlanna við Guðrúnu. Þar er þessi
setning kjarninn í martröðinni sem réttvísisvélin tilreiðir
fórnarlömbum sínum. En kannski má snúa henni við og
beina henni að okkur. Við losnum ekki við þetta mál fyrr
en við skiljum hvað gerðist og lærum af því.
Hráslagaleg og
hrollvekjandi saga
Eftir Helgu Birgisdóttur
yrsa Sigurðardóttir.
Kuldi. Veröld. 2012.
Í KuLDA heldur yrsa Sigurðardóttir
áfram að leika sér með draugagang og
myrkfælni, líkt og hún gerir í bókinni
Ég man þig (2010). Hér spila saman
nútíð og fortíð, líf og dauði og svo
gæska og mannvonska. Annars vegar
birtist heimurinn eins og við þekkjum
hann og skiljum og hins vegar drauga-
gangur eða yfirnáttúrulegir hlutir.
útkoman er kuldaleg, hráslagaleg og
hrollvekjandi saga en það eru ekki
endilega draugarnir sem fá lesandann
til að súpa hveljur heldur gjörðir ósköp
venjulegs fólks.
Í Kulda fer fram tveimur megin-
sögum sem fléttast saman í lokin.
Fyrst er það saga Óðins sem starfar
hjá opinberri eftirlitsstofnun og er
fenginn til að rannsaka starfsemi
upptökuheimilis fyrir unglinga á
áttunda áratug síðustu aldar, en fyrri
rannsakandi lést stuttu áður en sagan
hefst. rannsóknin reynir á Óðin en
hann hefur líka nóg að hugsa um
heima. Hálfu ári áður en atburðirnir
sem sagan greinir frá eiga sér stað
hafði barnsmóðir hans, Lára, látist
með sviplegum hætti og við það
snerist tilvera Óðins í heilan hring,
að minnsta kosti. Í stað þess að vera
skemmtilegur helgarpabbi er hann
nú orðinn einstæður faðir einrænnar
stúlku sem bersýnilega líður ekki vel.
Hin aðalsagan gerist á upptöku-
heimilinu, á því tímabili sem
rannsókn Óðins tekur til. Aldís, ung
og ansi óheppin stúlka, hefur ráðið
sig þar til vinnu eftir að hafa lent
saman við móður sína og rokið að
heiman. Hún afræður að láta sig hafa
leiðinlegt umhverfi, fúla yfirmenn og
þreytandi starfsmenn svo lengi sem
bankainnistæðan hækkar um hver
mánaðamót, en hún á sér þann draum
að leigja herbergi í reykjavík og gerast
flugfreyja. Dauði tveggja ungra pilta á
heimilinu tengir saman sögu Aldísar og
Óðins sem reynast eiga ýmislegt fleira
sameiginlegt. Fráfall barnsmóður
Óðins er líka óuppgert og inn í þetta
fléttast magnaður draugagangur og
meira og minna tengist allt börnum,
ýmist dánum eða lifandi, saklausum
og sekum.
yrsu tekst mun betur upp með Kulda
en síðustu draugasögu sína, Ég man
þig, bæði hvað varðar sviðsetningu
og persónusköpun auk þess sem Kuldi
er hreinlega betur skrifuð. Þræðirnir
koma saman, hver á fætur öðrum,
eftir því sem líður á söguna; sumt fer
eins og maður bjóst við en annað ekki.
Örlög sumra persóna eru verðskulduð,
aðrar eiga eitthvað annað, og kannski
betra skilið og það er ekki laust við að
lesandinn sitji eftir með svolítinn hroll
og jafnvel óbragð í munninum – en
ætli Kulda sé ekki einmitt ætlað að
vera þannig saga.