Fjölrit RALA - 15.02.1995, Blaðsíða 31
Áhrif sláttar
29
Endurvöxtur í sláttureitum
Aðferðir
Gerðar voru athuganir á endurvexti lúpínu á akrinum á Korpu, sem áður var lýst í 1.
kafla þessa rits. Fylgst var með lúpínureitum sem slegnir voru á þriggja vikna fresti
sumurin 1987 og 1988 (sjá 1. kafla). Þann 20. september 1988 og þann 21. júní 1989
var þekja, hæðarvöxtur og blómgun lúpínunnar endurmetin í reitunum. Greint var á
milli ungplantna og eldri plantna sem höfðu náð sér eftir slátt. Þekja var metin með
sjónmati og verður að skoðast sem gróft mat. Þann 23. ágúst 1989 var síðan slegin
1x5 m rönd úr öllum sláttureitunum frá 1987 og 1988. Uppskera hvers reits fyrir sig
var vegin á staðnum og votvigt fundin. Þurrefnisinnihald hlutsýna af uppskerureitum
var fundið með þurrkun í ofni við 60 °C. Þurrvigt uppskeru var síðan áætluð eftir því.
Niðurstöður
Áhrif af slætti fóru mjög eftir hvenær slegið var. Við endurmat í september 1988 kom
í ljós að þegar slegið var um mánaðarmótin maí-júní náði lúpínan að vaxa upp aftur
og jafnvel blómstra á sama sumri. í reitum sem slegnir voru á þessum tíma, eða í
ágústlok, hafði lúpínan náð aftur 90-100% þekju ári eftir slátt. Þegar slegið var í
júnílok eða í júlí var þekjan hins vegar innan við 5% að ári. Öfugt samband var hins
vegar á milli sláttutíma og þekju ungra lúpínuplantna, sem höfðu vaxið upp af fræi
eftir sláttinn. Ári eftir slátt höfðu þær 20-25% þekju í reitum sem slegnir voru í
júnílok og júlí, en einungis tæplega 5% þekju er slegið var á fyrsta eða síðasta
sláttutíma (3. tafla).
Annað endurmat var gert í júní 1989. Niðurstöður þess voru á sömu lund og áður
(12. mynd, c og d; sjá einnig 10.-14. ljósmynd). Reitir sem slegnir voru á fyrsta og
síðasta sláttutíma 1987 sýndu mestan endurvöxt. Þekja eldri plantna var 70-80% og
hæð um 65 cm. Rýrastur var endurvöxtur á reitum sem slegnir voru í júnílok og um
miðjan júlí. Þekja eldri plantna var þar innan við 5% og hæð um 45 cm. Reitir sem
slegnir voru í ágústbyrjun lágu mitt á milli með um 35% þekju og hæð um 60 cm.
Lúpínan náði að blómstra í öllum reitum nema tveimur sem slegnir voru um miðjan
júlí. Þekja ungplantna var sem fyrr mest í reitum þar sem eldri plöntumar höfðu látið
undan síga. Þær höfðu 10-20% þekju og um 20 cm á hæð. Var þar einkum um að
ræða ungplöntur á 2. ári. Hafa ber í huga að endurmatið 1989 fór fram í júní en
endurmatið 1988 fór fram í september. Ekki er því hægt að bera þekju beint saman á
milli ára.