Sjómannadagsblaðið - 07.06.2020, Qupperneq 40
40 s j ó m a n n a d a g s b l a ð i ð j ú n í 2 0 2 0
M aður hefur eiginlega bara gleymt því að maður eldist og er ekki alveg tilbúinn
að fara að kyngja því,“ segir
Þorbergur Þórhallsson kíminn, en
hann hefur stundað sjóinn á sjötta
áratug.
„Ég fór á sjóinn þegar ég var
hvað, sautján ára gamall og ætlaði
nú aldrei að vera þar nema rétt á
meðan ég væri að koma undir mig
fótunum. En svo bara leið tíminn
og nú er maður orðinn þetta gamall,
rétt orðinn sjötíu og eins árs og
ekki alveg tilbúinn að hætta enn.“
Þorbergur segist njóta þess að ekki
sé þrýst á hann að hætta af hálfu
vinnuveitanda og er því feginn,
þótt um leið sé hann með það á bak
við eyrað að betra sé að vera fyrri
til að átta sig á því þegar komið er
nóg, heldur en að láta segja sér að
hætta. „Þannig að maður reynir nú
líklega að skynja það þegar sá tími
nálgast. En það er þannig að maður
gleymir því hvað maður eldist. Ég
er enn bara rúmlega fertugur í eigin
huga, þótt fólk sjái það kannski
ekki á mér.“
Þorbergur er fæddur og uppalinn
á Kópaskeri. „Þar bjó ég þar til ég
varð 17 ára þegar fjölskyldan flutti á
höfuðborgarsvæðið og ég fór beint í
Vélskólann,“ segir hann, en í slíkar
áttir hafði hann lengi stefnt. „Ég
var ekki beinlínis alinn upp við
sjómennsku þótt við byggjum við
sjó, en hjá mér bjó alltaf löngun til
slíkra starfa. Svo var maður talsvert
að sýsla í véladóti.“
Eignaðist bíl 14 ára
Áhuginn á vélum segir hann að
hafi vaknað snemma. Fyrsta bílinn
eignaðist Þorbergur 14 ára gamall.
„Það var gamall Austin-10, árgerð
1934, sem eldri bróðir minn gaf mér.
Þessum bíl ók maður um þorpið
og sveitirnar í kring fram undir
bílprófsaldurinn.“ Á Kópaskeri var
lítil umferð á vetrum og svæðið lokað
af og því gat hann farið um þótt ekki
hafi hann enn verið kominn með
aldur til akstursins. „Maður reyndi
svona að forðast þessa sjálfskipuðu
löggæslumenn,“ segir hann og hlær
við.
En á sjónum tók Þorbergur fyrstu
skrefin upp úr miðjum sjöunda ára-
tug síðustu aldar. „Á námsárunum
byrjaði maður á þessum fiskibátum
og síldarbátum. Svo var ég eitthvað
lítilsháttar í fraktsiglingum meðfram
skóla og fyrstu tvö til þrjú árin að
loknum Vélskólanum,“ segir hann
en játar um leið að þær hafi ekki átt
vel við hann. „Mér fannst sú vinna
svolítið líflaus.“
Fjórða stigi vélskóla lauk hann
vorið 1970, þá nýorðinn tuttugu
og eins árs gamall. „Og þá hóf ég
sjómennsku svona fyrir alvöru þó að
ég hafi tekið mér smáhlé til að ljúka
vélvirkjanámi sem þurfti til þess að
öðlast full réttindi. Um leið var ég
alltaf í afleysingum á sjónum. Maður
átti mjög erfitt með að slíta sig frá
þessu og ég kunni strax afskaplega
vel við mig á sjó.“
Nálgast vélar á ákveðinn hátt
Þrátt fyrir þetta minnist Þorbergur þess
að hafa þarna fljótlega upp úr tvítugu
haft ákveðnar efasemdir um að rétt
væri að eyða starfsævinni á sjónum,
enda var þá fjölskyldulíf að taka við.
„En svo bara teygist tíminn. Maður var
alltaf að huga að því að breyta til en
það varð erfiðara og erfiðara eftir því
sem tíminn leið.“ Hann bætir við að
eiginkona hans, Sigurborg Þórarins-
dóttir, sé af sjómönnum og útvegs-
bændum komin, ættuð frá Tálknafirði.
„Þannig að hún vissi að hverju hún
gekk, þótt hún vildi auðvitað gjarnan
að ég væri meira heima.“
Þorbergur valdist ungur til
ábyrgðarstarfa á sjónum og var fljótt
farinn að ráða sér nokkuð mikið
sjálfur í störfum sínum.
„Það átti afskaplega vel við mig að
njóta ákveðins frjálsræðis. Starfsfer-
illinn hefur líka gengið vel. Ég hef
alltaf reynt að umgangast vélbún-
aðinn sem mannlegur væri, hef litið
svo á að vélarnar þurfi aðhlynningu
og persónulegt viðmót ekki síður
en við mennirnir og að þannig
skili þær manni bestum árangri.
Ég hef verið afskaplega lánsamur
hvað varðar bæði samstarfsfólk
og vinnuveitendur. Auðvitað hafa
þeir verið misjafnir en ég hef verið
fremur íhaldssamur og starfað lengi
hjá sömu útgerðum og sjaldan skipt
um skipsrúm, alla jafna ekki skipt
um nema viðkomandi útgerð hafi
annaðhvort hætt eða verið seld og
ég þá fylgt með í kaupunum.“
Er hjá útgerð í Litháen
Þorbergur segir að eftir að hann hóf
störf á togurunum hafi hann verið í
13 ár hjá fyrstu útgerðinni, Karlsefni
hf., yfirvélstjóri frá 25 ára aldri á
samnefndu skipi, sem var einn af
fyrstu stóru skuttogurum landsins,
keyptur notaður frá Þýskalandi.
Hann fylgdi svo með í kaupunum
þegar Sjólaskip keyptu skipið
til að úrelda fyrir smíði á nýjum
frystitogara.
„Ég annaðist eftirlit með smíði á
nýju skipi, Haraldi Kristjánssyni
HF-2, sem síðar hlaut nafnið Helga
María. Þar var ég svo yfirvélstjóri í
ein átta eða níu ár áður en ég svo fór
til annarra starfa hjá sama aðila.“
Leiðin lá þá í útgerð á erlendri
grundu á verksmiðjutogaranum
Heinaste, fyrstu 12 árin í eigu Sjóla-
skipa og síðan næstu fimm árin var
það í eigu Samherja. „Fór ég þá að
starfa fyrir erlenda aðila í sams konar
starfi og ég hafði verið í þarna,“ bætir
hann við. Útgerðin sem Þorbergur
starfar hjá núna er í Litháen og er
hann á verksmiðjutogara sem gerir
út undir litháísku flaggi. „Samherji
seldi hluta af starfsemi þarna úti og
út úr því spratt þessi angi.“
Getur engum gefið slæmt orð
Á verksmiðjutogaranum er Þorbergur
ekki beinlínis í hefðbundnu hlutverki
vélstjóra og er umhverfið um margt
ólíkt því sem menn þekkja af minni
skipum. „Þetta er miklu meira
fjölmenni og nálægt því að vera 100
manna áhöfn. Hlutverk mitt er til
dæmis að sjá um og vera ábyrgur fyrir
öllu tæknilegu um borð, skipulagn-
ingu viðhalds- og endurbótaverkefna,
eftirliti og verkstjórn varðandi vinnu
vélstjóra og annara tæknimanna, svo
og að annast innkaup og aðdrætti
fyrir þetta batterí. Svo hefur maður
gripið í að standsetja skip þegar keypt
hafa verið ný eða notuð skip eða skip
endurgerð.“
En þótt vinnan hafi ekki bara
verið þetta hefðbundna vélstjórastarf
viðurkennir Þorbergur að alltaf hafi
hann nú kunnað best við sig hjá
smærri útgerðum þar sem yfirbygging
var minni. „Það voru bestu ár mín
í þessari sjómennsku, hérna heima
hjá litlum útgerðum. En ég hef verið
afskaplega lánsamur og ekki kynnst
öðru en góðu samstarfsfólki og
yfirmönnum. Ég get engum gefið
slæmt orð.“
Minningarnar frá ferlinum segir
Þorbergur að séu fjölbreyttar og góðar.
Þannig hafi verið mikil breyting að
koma yfir á skip þar sem um borð var
hundrað manna samfélag og taka
Þorbergur Þórhallsson vélstjóri hefur verið sjómaður í rúm 50
ár. og þótt aldurstalan sé orðin virðuleg finnur hann lítið fyrir
aldrinum og hefur ekki enn gert upp við sig hvenær hann ætlar
að hætta störfum. áhugi á vélum vaknaði snemma.
ílengdist
á sjónum
Ég hef náttúrlega verið
líklega þrjá fjórðu af
tímanum að heiman frá
mér síðan ég stofnaði
heimili. Það er ekki fyrr en
núna seinni árin sem fríin
hafa verið meiri.
Þorbergur Þórhallsson vél-
stjóri er fæddur og uppalinn á
Kópaskeri, en þar naut hann
ákveðins frelsis í uppvextinum
og gat ræktað með sér áhuga
á vélum sem kviknaði snemma.
Eftir nám og flutning með fjöl-
skyldunni til Hafnarfjarðar lá
leiðin á sjóinn, sem hann hefur
stundað í ríflega hálfa öld.
Mynd/Hreinn Magnússon