Morgunblaðið - 28.05.2020, Blaðsíða 59
SELFOSS
Kristófer Kristjánsson
kristoferk@mbl.is
Draumur knattspyrnukonunnar
Önnu Maríu Friðgeirsdóttur, 28 ára,
varð að veruleika á síðasta ári þegar
hún lyfti bikarnum á Laugardalsvelli
sem fyrirliði uppeldisfélagsins Sel-
foss. Hún er leikjahæsti leikmaður
liðsins frá upphafi í efstu deild, enda
hefur hún spilað með sveitarfélaginu
frá því að deildin var stofnuð árið
2009. Hún er þó ekki hætt að láta sig
dreyma; „Maður hættir ekkert þótt
það sé búið að sækja eina dollu.
Næsta markmið hlýtur að vera að
sækja tvær,“ sagði Anna í samtali
við Morgunblaðið í gær, en hún tal-
aði tæpitungulaust um markmið og
metnað Selfyssinga á komandi Ís-
landsmóti.
Selfyssingar, sem og flest önnur
lið, bíða í ofvæni eftir að tímabilið
geti loks hafist eftir frestunina
vegna kórónuveirunnar. Íþróttalið
máttu byrja að æfa án takmarkana á
mánudaginn og nýttu Selfyssingar
sér það til fulls, spiluðu æfingaleik á
fyrsta degi. „Það er mikil spenna að
geta loksins verið saman aftur og við
tókum mánudaginn af krafti og spil-
uðum æfingaleik við Keflavík. Það
varð bara að henda sér í djúpu laug-
ina!“ sagði Anna. Þó að leikmenn
hafi vissulega lagt sitt af mörkum til
að halda sér í góðu standi jafnist
ekkert á við að spila fótbolta.
„Leikmenn voru auðvitað ryðg-
aðir, við vorum ekki búnar að spila
fótbolta í tíu vikur. Ég er búin að
hlaupa, gera styrktaræfingar heima
og nota allt sem ég hef til að halda í
einhverja vöðva en þetta er nátt-
úrulega tvennt ólíkt. Þú getur hlaup-
ið eins og brjálæðingur en þegar það
er kominn bolti í leikinn er þetta allt
annað.“
Ekkert leyndarmál
Selfoss hefur vakið mikla athygli
undanfarið vegna þeirra leikmanna
sem félagið hefur samið við. Þar ber
einna helst að nefna landsliðskon-
urnar Dagnýju Brynjarsdóttur og
Önnu Björk Kristjánsdóttur, sem
eru báðar nýkomnar heim úr at-
vinnumennsku. Báðar eru þær
margreyndar, með yfir 100 lands-
leiki sín á milli og hafa leikið í mörg-
um af sterkustu deildum Evrópu.
Það er því auðvelt að lesa á milli lín-
anna og átta sig á hver markmiðin
eru á Suðurlandinu. Anna er ekki
feiminn við að ítreka þau.
„Það er ekkert leyndarmál að við
ætlum okkur að verða Íslandsmeist-
arar og við ætlum að halda bikar-
meistaratitlinum. Það væri heimsku-
legt að fara inn í mótið með einhver
önnur markmið, sérstaklega miðað
við gæðin í hópnum. Það væri asna-
legt að ætlast til einhvers annars af
okkur. Við höfðum stefnt að þessum
bikartitli í mörg ár og loksins kom
hann. Nú er bara að setja markmiðið
á þann næsta,“ segir hún og bendir á
að það sé mikill happafengur fyrir
liðið að fá þessa sterku leikmenn
sem hafa komið inn.
„Þær koma inn í liðið með þvílík
gæði og reynslu. Við erum með
margar ungar stelpur sem eru að
stíga sín fyrstu skref, eins og í fyrra.
Þá reyndist það gríðarlega dýrmætt
að hafa Fríðu í hópnum og núna er-
um við með einn reynslubolta í
hverri línu. Það er eiginlega ekki
hægt að koma því í orð hvað það er
mikilvægt að hafa svona stóra kar-
aktera og flotta leikmenn. Þetta er
frábær viðbót í hópinn.“
Góðir leikmenn fara í önnur lið
Á síðustu leiktíð höfðu Íslands-
meistarar Vals og Breiðablik mikla
yfirburði í úrvalsdeildinni og þótt
þau lið séu áfram feykilega sterk eru
önnur lið að gera sig líkleg til að
blanda sér í baráttuna. Auk Selfyss-
inga hafa bæði KR og Fylkir styrkt
leikmannahópa sína og á Anna von á
spennandi tímabili.
„Síðustu ár hefur þetta svolítið
verið eitt eða tvö lið sem stinga af. Í
fyrra var þetta svolítið þægilegt í
þriðja sætinu, það var langt í bæði
liðin fyrir ofan og neðan okkur,“ seg-
ir Anna, en Selfoss endaði 16 stigum
á eftir Völsurum á toppnum og sex
stigum fyrir ofan Þór/KA í 4. sætinu.
„Við viljum minnka þetta bil og það
er frábært að sjá góða leikmenn fara
í önnur lið en bara Val og Breiðablik.
Það gerir öllum gott, sérstaklega
deildinni í heild sinni.“
Að lokum vék hún sér aftur að
Selfossi, heimabænum og uppeldis-
félaginu. „Það hefur verið draumur
síðan ég var lítil stelpa að fagna Ís-
landsmeistaratitlinum með Selfossi,
það yrði kirsuberið á toppinn. Þetta
er uppeldisfélagið og það sem ég hef
alltaf viljað spila fyrir, ég hef aldrei
haft áhuga á að spila annars staðar.
Selfosshjartað er bara það stórt og
það yrði draumur að koma með titil-
inn yfir brúna.“
Yrði kirsuberið á toppnum
Anna María segir Selfosshjartað stórt Ekkert leyndarmál að liðið stefnir á
Íslandsmeistaratitilinn Happafengur að fá öflugar landsliðskonur í Selfoss
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Bikarmeistari Anna Björk varð bikarmeistari með Selfossi á síðustu leiktíð eftir sigur gegn KR á Laugardalsvelli.
ÍÞRÓTTIR 59
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 28. MAÍ 2020
Helena Ólafsdóttir lét af
störfum sem þjálfari kvennaliðs
Fjölnis í knattspyrnu í vikunni.
Það ætlar ekki af Fjölnis-
mönnum að ganga því fyrirliði
karlaliðs félagsins, Bergsveinn
Ólafsson, hætti einnig óvænt í
fótbolta fyrir stuttu. Ástandið
er því ansi sérstakt í Grafarvog-
inum þessa dagana þótt það sé
reyndar ekki efni þessa bak-
varðar.
Alls eru 108 félög skráð til
leiks á Íslandsmótinu í knatt-
spyrnu í sumar. Í meistaraflokki
karla eru 79 félög skráð til leiks
en 29 í meistaraflokki kvenna.
Helena var eini kvenkyns þjálf-
arinn fyrir viku en það var vef-
miðillinn fótbolti.net sem vakti
fyrst athygli á þessu í febrúar á
þessu ári þegar teknar voru
saman skráningar í deildabik-
arinn, Lengjubikarinn, sem fer
iðulega af stað í byrjun febrúar.
Eftir því sem undirritaður
kemst næst starfar því engin
kona í dag sem aðalþjálfari þótt
það séu vissulega nokkrar sem
eru aðstoðarþjálfarar, kvenna-
megin í það minnsta. Kollegi
minn á Morgunblaðinu, Kristján
Jónsson, benti á skemmtilega
staðreynd í blaðinu í apríl síð-
astliðnum þegar hann taldi upp
átta leikmenn úr karlaliði KR
1991 sem hafa þjálfað lið í efstu
deild.
Af þessum átta þjálfurum
sem Kristján taldi upp þjálfa
fimm þeirra í efstu deild í dag.
Kvennalið KR árið 1999 er eitt
öflugasta lið sem spilað hefur í
efstu deild frá upphafi. Liðið
tapaði ekki leik allt sumarið,
vann tvöfalt það ár, en þó er
engin kona úr því liði að þjálfa í
dag. Edda Garðarsdóttir, Guð-
rún Jóna Kristjánsdóttir, Helena
Ólafsdóttir og Guðlaug Jóns-
dóttir hafa að vísu allar þjálfað
en gera það ekki í dag, sem er
ansi sorgleg þróun.
BAKVÖRÐUR
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Arnór Borg Guðjohnsen æfir þessa
dagana með úrvalsdeildarliði Fylk-
is í knattspyrnu en það var vefmið-
illinn fótbolti.net sem greindi fyrst
frá þessu. Arnór verður tvítugur í
september á þessu ári en hann er að
jafna sig á erfiðum meiðslum sem
héldu honum frá keppni í þrettán
mánuði. Arnór hefur verið á mála
hjá B-deildarliði Swansea á Eng-
landi og lék síðast með U23 ára liði
félagsins í febrúar. Hann er fram-
herji að upplagi og er sonur Arnórs
Guðjohnsen, fyrrverandi landsliðs-
manns í knattspyrnu.
Arnór Guðjohn-
sen æfir í Árbæ
Ljósmynd/Breiðablik
Feðgar Arnór Borg Guðjohnsen
ásamt föður sínum Arnóri eldri.
Handknattleiks-
markvörðurinn
Íris Björk Sím-
onardóttir hefur
ákeðið að leggja
skóna á hilluna en
þetta kom fram á
facebooksíðu
Valsara í gær.
Í apríl tilkynnti
Íris Björk, sem er
32 ára gömul, að
hún ætlaði að taka sér frí frá hand-
bolta í óákveðinn tíma en nú hefur
hún ákveðið að segja þetta gott.
Hún er uppalin hjá Gróttu á Sel-
tjarnarnesi og lék með liðinu á ár-
unum 2003 til ársins 2009. Hún gekk
svo til liðs við Fram og lék í Safa-
mýrinni til 2012. Þá fór hún aftur til
Gróttu og lék þar til 2018. Þá samdi
hún við Valskonur og spilaði með lið-
inu í tvö tímabil áður en hún ákvað
að leggja skóna á hilluna. Hún varð
tvívegis Íslandsmeistari með Gróttu
á ferlinum, 2015 og 2016, og einu
sinni Íslandsmeistari með Val árið
2019 en það ár unnu Valskonur þre-
falt.
Þá varð hún fjórum sinnum bik-
armeistari á ferlinum, með Fram
2010 og 2011, með Gróttu 2015 og
loks með Val 2019.
Þá lék hún 69 A-landsleiki fyrir
Ísland þar sem hún skoraði fjögur
mörk.
Íris Björk
leggur skóna
á hilluna
Íris Björk Sím-
onardóttir
Evrópska knattspyrnusambandið
hefur gefið út nýja leikdaga fyrir þá
leiki sem eftir eru í undankeppni
Evrópumeistaramóts kvenna sem
fram fer á þarnæsta ári. Ísland er í
F-riðli með Svíþjóð, Ungverjalandi,
Slóvakíu og Lettlandi en þeir leikir
sem eftir eru fara fram í haust, á
tímabilinu 17. september til 1. des-
ember.
Ísland er ásamt Svíþjóð á toppi
riðilsins með fullt hús stiga eftir
þrjár umferðir en liðin eiga eftir að
mætast innbyrðis. Ísland vann Ung-
verjaland í fyrstu umferðinni, 4:1, og
Slóvakíu næst 1:0 á Laugardalsvell-
inum í haust. Liðið vann svo 6:0 stór-
sigur á Lettlandi á útivelli. Ísland
átti að mæta Svíum í síðustu tveimur
umferðunum en nú hefur orðið
breyting á því.
Síðustu þrír leikir á útivöllum
Efsta liðið í hverjum riðli fer beint
á EM sem haldið verður í Englandi
eftir tvö ár en mótinu var frestað um
eitt ár vegna kórónuveirunnar. Þau
þrjú lið sem verða með besta árang-
urinn í 2. sæti í riðlunum níu fara
einnig beint á mótið en hin sex liðin
mætast í umspili sem fram fer á
næsta ári.
Vert er að taka fram að breyt-
ingar geta orðið á þessum leikdögum
eftir aðstæðum en sem stendur fara
leikirnir fram á eftirtöldum dögum
og mun Ísland leika síðustu þrjá
leiki sína á útivöllum.
Leikirnir sem Ísland á eftir
17. september: Ísland – Lettland
22. september: Ísland – Svíþjóð
27. október: Svíþjóð – Ísland
26. nóvember: Slóvakía – Ísland
1. desember: Ungverjaland – Ísland.
Nýir leikdagar fyrir undankeppni EM
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Undankeppnin Landsliðskonurnar
þurfa að spila landsleik í desember.
Knattspyrnumaðurinn Hörður Ingi
Gunnarsson er genginn í raðir úr-
valsdeildarliðs FH en þetta kom
fram á Twitter-síðu félagsins í gær.
Hörður Ingi, sem er 21 árs gamall
og uppalinn í Hafnarfirði, kemur til
félagsins frá ÍA á Akranesi þar sem
hann hefur leikið frá því árið 2018.
Hörður Ingi á að baki 28 leiki í
efstu deild með Víkingi Ólafsvík og
ÍA. Í þessum 28 leikjum hefur hann
skorað tvö mörk en hann getur spil-
að bæði sem vinstri og hægri bak-
vörður. Þá á hann að baki 23 leiki
með yngri landsliðum Íslands.
Frá Akranesi í
Hafnarfjörð
Morgunblaðið/Ómar
Mark Hörður Ingi Gunnarsson
fagnar marki með Skagamönnum.