Skessuhorn


Skessuhorn - 15.04.2020, Blaðsíða 16

Skessuhorn - 15.04.2020, Blaðsíða 16
MIÐVIKUDAGUR 15. ApRÍL 202016 Styrmir Már Ólafsson í Borgarnesi Vonar að fólk minnki óþarfa neyslu Styrmir vinnur hjá Bókhalds- og rekstrarþjónustunni í Borg- arnesi og hefur því nóg að gera í vinnunni á þessum árstíma. „Þessi faraldur kemur í skattframtalsskilum hjá mér svo ég hef þurft að vinna mikið og finn því ekki mikið fyrir þessu ástandi öllu. Konan mín aftur á móti finnur töluvert meira fyrir þessu. Hún er heima með börnin á meðan ég er í vinnu en það greindist smit á leikskólanum svo hún þurfti að fara í sóttkví,“ segir Styrmir og bætir við að einu breytingarnar í hans vinnu séu þær að hann hittir ekki fólk í persónu. „Við höfum bara lokað fyrir heimsóknir og tölum við fólk í síma frekar. Það hefur sem betur fer enginn smitast í okkar nán- ustu fjölskyldu, svo enn sem komið er hefur þetta ástand allt haft lítil áhrif á okkur,“ segir hann. Spurður hvort hann sjái eitthvað jákvætt geta komið úr þessu segist hann vona að fólk minnki óþarfa neyslu. „Ég finn bara með okkur að við nýtum betur það sem við eigum og verslum minna. Ég vona að þetta kenni okkur öllum að hætta óþarfa innkaupum og minnka neysluna,“ segir Styrmir. Anna Sólrún Kolbeinsdóttir í Borgarnesi „En það styttir upp um síðir og þetta er allt bara tímabundið ástand“ Anna segist fyrst og fremst finna fyrir ástandinu þegar kemur að vinnunni en hún vinnur bara annan hvern dag núna. „Ég hef líka tekið börnin úr leikskólanum og mesta áskorunin fyrir okkur hefur verið að halda rútínu og reglu hjá þeim, svo það sé nú ekki alltaf bara sunnudagur,“ segir Anna og hlær. „Við reynum að finna eitthvað nýtt til að hafa fyrir stafni og það getur stundum verið erfitt þegar þessi afþreying sem maður er vanur er ekki lengur í boði, eins og að fara í sund og svoleið- is,“ bætir hún við. Eins og flestir aðrir hefur Anna og henn- ar fjölskylda haldið sig að mestu heima og ekki tekið á móti gestum síðustu vikur. „Þetta er sérstakt og það er leiðinlegt að geta ekki hitt fólk eins og áður. Maður þarf bara að læra að vera sjálfum sér nægur. En það styttir upp um síðir og þetta er allt bara tímabundið ástand,“ segir hún jákvæð og bætir við að með hækkandi sól og betra veðri vonist hún til að þetta verði auðveldara. „Þá er hægt að fara meira út og það getur gert mikið fyrir okkur öll. Við förum daglega út og þegar veðrið er svona gott getum við alveg verið út í marga klukkutíma. Ég viðurkenni alveg að fyrst byrjaði ég voða jákvæð í þessu öllu en á fjórðu viku heima var ég alveg að fara í þrot og þá hjálp- aði ekki að hugsa um að maður gæti ekki gert það sem mað- ur ætlaði sér um páskana og svona og það kom smá uppgjöf. En þá bara verður maður að kýla sig í gang aftur á jákvæðn- inni, það er ekkert annað í boði. Við erum ekkert ein í þessu, það eru allir í þessari stöðu,“ segir Anna. Aðspurð segist hún vona að þetta ástand kenni fólki að treysta ekki alltaf á aðra til að skemmta sér. „Ég vona að við lærum að hafa ofan af fyrir okkur sjálf í stað þess að vera alltaf að borga fyrir að láta aðra skemmta sér. Þó vissulega sé ekkert að því að gera það ann- að slagið og eftir þetta held ég að við komum til með að meta alla afþreyingu betur. Ég hvet bara alla til að nýta þetta tæki- færi til að finna sér nýtt áhugamál eða gefa sér tíma til að sinna áhugamáli sem það sinnir kannski alla jafna ekki nógu mikið,“ segir Anna að endingu. Birkir Snær Guðlaugsson í Hvalfjarðarsveit Veitingageirinn í frjálsu falli Birkir var á leið erlendis þegar samkomubann var sett á og fór þess í stað heim í fæðingarorlof. „Ég er búinn að vera heima í tvær vikur og var að mæta aftur í vinnu núna,“ segir Birkir sem sér um rekstur á Food station í Borgarnesi. „Það er væg- ast sagt mikil breyting í minni vinnu, enda er ég að reka ferða- mannastað. Staðan er einfaldlega ekki góð verð ég að segja en það er mjög lítið að gera og við þurftum að breyta opnunar- tímanum. Það er ágætt í hádeginu samt, þá eru iðnaðarmenn að koma til okkar. En þetta er stór staður og við megum ekki vera með fleiri en 20 inni í einu, sem er ekki svo frábært,“ segir Birkir en bætir við að hann reyni að halda í jákvæðnina. „Maður reynir auðvitað bara að vera bjartsýnn og ekki hafa áhyggjur en fjárhagslega er þetta slæmt fyrir veitingageirann og það er ekkert hægt að skafa af því. Allir veitingastaðir eru bara í frjálsu falli eins og er og við vitum ekkert hversu lengi,“ segir Birkir en auk þess að reka Food station er hann einn af eigendum Gamla kaupfélagsins á Akranesi. „Á Akranesi er sama staðan bara. Við erum búin að loka staðnum en erum með opið fyrir heimsendingar eða til að sækja. En við vorum búin að ákveða að fara í breytingar á Gamla kaupfélaginu og gátum því notað þetta tækifæri til að loka fyrr en áætlað var og ráðast í breytingarnar, svo getum við vonandi opnað bara fyrr en áætlað var. Í Borgarnesi er allt nýtt og engin þörf á að breyta eða bæta svo það er ekki hægt að nota tímann í neitt slíkt,“ segir Birkir. Heima fyrir segir hann faraldurinn ekki hafa haft mikil áhrif en konan hans er heima í fæðingarorlofi með sex mán- aða stelpu og fjögurra ára sonur þeirra hefur verið heima með þeim mæðgum. „Við búum í Hvalfjarðarsveit og þar hefur tekist að halda skólahaldi þannig að sex ára dóttir okkar fer í skólann alla daga, en er styttra í skólanum en áður, en það gerir samt mikið. Svo erum við heppin að vera með hesta á húsum og getum farið á bak og svo er bara stutt í alls konar skemmtilegt svona í sveitinni og það styttir dagana töluvert,“ segir Birkir og bætir við að sjálfur reyni hann að einblína á jákvæðnina. „Maður er óneitanlega að eyða meiri tíma með fjölskyldunni núna og að gera hluti sem við vorum kannski ekkert vön að gera. Ég held að þetta ástand komi til með að styrkja fjölskylduböndin og gefa okkur fleiri gæðastundir saman,“ segir Birkir. arg Lífið í Covid 19

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.