Morgunblaðið - 07.08.2020, Blaðsíða 10
Útsýni Fyrir utan húsin er heitur pottur þar sem hægt er að slaka á og njóta útsýnisins.
BAKSVIÐ
Aron Þórður Albertsson
aronthordur@mbl.is
„Þetta leit ekki vel út þegar afbókanir
byrjuðu að hrúgast inn en við
ákváðum strax að fara í markaðs-
setningu gagnvart Íslendingum. Við
vorum auðvitað með afslætti en lands-
menn tóku ágætlega við sér og það
hefur haldið okkur á floti,“ segir Signý
Eiríksdóttir, sem ásamt systur sinni
Sigyn rekur Iceland Luxury Lodges
(ILL). Fyrirtækið leigir út þrjá lúxus-
bústaði í Grímsnesi, en þeir hafa notið
gríðarlegra vinsælda meðal erlendra
ferðamanna. Allir eru bústaðirnir inn-
an sama svæðis,
tveir eru staðsettir
við Álfavatn og
bera þeir heitin
Álftavík og Ás-
lundur. Segir
Signý að þar sé
hægt að taka á
móti átta gestum í
fjórum svefn-
herbergjum sem
öllu eru hin glæsi-
legustu. Mikið hef-
ur verið lagt í innréttingar og er öll að-
staða eins og best verður á kosið.
Þriðji bústaðurinn er stærri en húsin
við Álfavatn og ber heitið Úlfljótsskáli.
Er hann 690 fermetrar að stærð með
tíu herbergjum og jafnmörgum bað-
herbergjum. Auk þess er gufubað,
leikjaherbergi og íþróttaaðstaða svo
fáeitt sé nefnt. Í skálanum er tekið á
móti efnuðum einstaklingum eða hóp-
um. „Þetta eru allt fullbúin hús með
öllu. Aukaþjónustan fer svo eftir hvað
fólk vill leyfa sér; drykkur við komuna
í húsið, kokkur sem sér um kvöldmat-
inn, dagleg þrif og svo framvegis,“
segir Signý.
Spurð hvað herlegheitin kosta segir
hún að það sé á breiðu bili. „Það er
nánast ómögulegt að festa fingur á það
í bili, en þetta fer eftir dögum og fjölda
gesta, eins lengd dvalar. Grunnverðið
á helgarpökkum er í kringum 250 þús-
und kr. til 600 þúsund kr. Fer það jafn-
framt eftir húsi, fjölda nátta og gesta.
Við gerum tilboð fyrir þá sem sýna
áhuga,“ segir Signý.
Stefndi í frábært rekstrarár
Líkt og önnur ferðaþjónustu-
fyrirtæki varð ILL fyrir gríðarlegum
tekjumissi í kjölfar heimsfaraldurs
kórónuveiru. Fjölmörg sambærileg
fyrirtæki hafa þurft að leggja upp
laupana þar sem tekjur hafa orðið að
nær engu. Signý segir að faraldurinn
hafi verið mikið högg fyrir ILL enda
stefndi í mjög gott rekstrarár. „Við
vorum að sigla inn í okkar besta ár
miðað við bókunarstöðu og þetta var
því mikið áfall. Sérstaklega í ljósi þess
að við fórum í framkvæmdir í janúar
þar sem við vorum súper bjartsýnar á
þeim tíma. Strax í kjölfarið skall þetta
á,“ segir Signý og bætir við að hún sé
ánægð með gestina sem þó hafa kom-
ið. Þannig hefur fyrirtækinu tekist vel
til með að bregðast við erfiðri stöðu.
„Það er jákvætt að Íslendingar hafi
fyllt skarð erlendra ferðamanna að
einhverju leyti. Við erum mjög ánægð
með þá gesti sem hafa komið. Ég held
að við Íslendingar höfum bara ákveðið
að vera jákvæðir í ár, ekki síður gagn-
vart veðrinu. Svona svipað og útlend-
ingarnir gera á Íslandi. Ég fór sjálf
hringinn í stað Ítalíuferðar í sumar og
það var bara yndislegt, maður bara
klæðir sig vel og brosir framan í veðr-
ið.“
Skoða að ráða inn fólk
Hjá ILL voru tveir fastir starfs-
menn sem sáu um þrif í húsum fyrir-
tækisins. Þeir héldu hins vegar af
landi brott þegar farsóttarinnar fór að
verða vart hér á landi. Þær eru nú
staddar í heimalandinu, en Signý segir
að verið sé að skoða að bæta við starfs-
mönnum. „Við erum tvær systurnar
að reka fyrirtækið. Við höfum svo ver-
ið með tvo fasta starfsmenn í þrifum
en þær fóru aftur heim til Grikklands
vegna ástandsins. Þannig að núna er-
um við bara að skoða stöðuna varðandi
það að ráða til okkar fólk, óvissan er
bara mikil og maður veit ekkert hvað
gerist á næstu vikum eða mánuðum.
Þetta er svona einn dagur í einu
ástand,“ segir Signý sem hefur í nógu
að snúast þrátt fyrir takmarkaðan
fjölda ferðamanna hér á landi. Hún
hefur séð um rekstur nokkurra íbúða í
miðbænum. „Við erum líka að leigja út
nokkrar íbúðir í miðbænum við Aust-
urvöll sem pabbi okkar á. Hann er
listaverkasafnari þannig að þær íbúðir
eru allar fullar af listaverkum eftir
bæði íslenska og erlenda listamenn,“
segir Signý.
Margir sýna áhuga
Eins og áður hefur komið fram
veitti opnun landamæranna í byrjun
júlímánaðar ferðaþjónustu-
fyrirtækjum ákveðið andrými. Þannig
fengu þau inn nauðsynlegt fjármagn
og gátu þar af leiðandi haldið opnu
áfram. Ljóst er að róðurinn kann að
þyngjast þegar líða tekur á veturinn.
Hjá ILL hefur aftur á móti borist tals-
verður fjöldi fyrirspurna. „Núna eftir
síðustu fréttir og takmarkanir þá finn-
um við mikið fyrir því að Íslendingar
eru að breyta plönum vegna stóraf-
mæla, brúðkaupa og fyrirtækjaferða.
Nú fáum við mikið af helgar-
fyrirspurnum fyrir haustið og veturinn
þar sem minni hópar eða fjölskyldur
ætla að hafa það huggulegt saman í
stað þess að fara utan eða halda veisl-
ur.“
Veiran setti stórt strik í reikninginn
Systur leigja út þrjá lúxusbústaði í Grímsnesi Heimsfaraldur kórónuveiru var gríðarlega mikið
áfall Stefndi í besta rekstrarár í sögu fyrirtækisins Helgin kostar allt að 600 þúsund krónur
Stofa Eins og sjá má á myndinni er mikið lagt upp úr því að húsgögn og aðrar innréttingar séu glæsilegar. Signý Eiríksdóttir
Svíta Vel fer um þá sem koma hingað til lands og gista í bústöðum Iceland Luxury Lodges.
10 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 7. ÁGÚST 2020