Morgunblaðið - 24.09.2020, Qupperneq 52
52 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 24. SEPTEMBER 2020
Fæst í öllum apótekum
Kvefuð
augu?
Dauðhreinsaðar
og góðar
augnþurrkur
til meðferðar
við sýkingu
í augum
Blephaclean klútarnir eru dauðhreinsaðir klútar sem eru auðveldir
og þægilegir í notkun við hreinsun á viðkvæmri húð í kringum
augnsvæðið ef um sýkingar er að ræða.
Blautklútarnir hjálpa til við að fjarlægja sýkingu og skánmyndanir
án þess að erta augun og henta því vel börnum frá 3ja ára aldri.
Blephaclean er hægt að nota óháð því hvort um bakteríu- eða
veirusýkingu er að ræða og henta því einnig með lyfjameðferð.
Skáldsögur og ljóð eru áberandi á útgáfulista bókaútgáf-
unnar Benedikts. Fyrst er að telja skáldsöguna Dýralíf
eftir Auði Övu. Sú gerist í vetrarmyrkri, rétt fyrir jól,
þegar áður óþekkt lægð er í aðsigi. Á þriðju hæð við
Ljósvallagötu býr ljósmóðir í íbúð sem hún erfði eftir
einhleypa og barnlausa ömmusystur sína. Upp úr kassa
undan Chiquita-banönum koma þrjú handrit sem ömmu-
systirin vann að, Dýralíf, rannsókn á því sem mann-
skepnan er fær um, Sannleikurinn um ljósið og Tilvilj-
unin.
Auður Ava hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2016
og bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2018 fyrir
skáldsöguna Ör og hin Médicis-verðlaunin frönsku fyrir
Ungfrú Ísland sem kom út 2018. Skáldsögur Auðar Övu
hafa verið þýddar á 33 tungumál.
Fjarvera þín er myrkur heitir væntanleg skáldsaga
eftir Jón Kalman Stefánsson. Sögusviðið spannar staði
og tíma, frá Hólmavík suður eftir Evrópu, kynslóð fram
af kynslóð, líf sem kannski eru jafn tíðindalítil og girð-
ingarstaurar en halda þó öllu uppi. Kornabarn sem rétt
er yfir eldhúsborð, löngu dáið þýskt skáld, trillusjómað-
ur sem er sérfræðingur í Kierkegaard, döpur rokk-
stjarna, stúdína úr MR, dánir hvolpar og hver er þessi
prestlærði rútubílstjóri?
Í skáldsögunni Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir seg-
ir Sigríður Hagalín frá því er jarðskjálftar skekja
Reykjanesskaga og eldfjöll vakna til lífsins eftir 800 ára
hlé. Enginn þekkir þau betur en eldfjallafræðingurinn
Anna Arnardóttir, forstöðumaður Jarðvísindastofnunar,
sem þarf að takast á við stærsta verkefni ferilsins við
stjórn almannavarna. En áferðarfallegt og fullkomið líf
hennar lætur ekki lengur að stjórn. Eldarnir eru þriðja
skáldsaga Sigríðar Hagalín Björnsdóttur. Fyrri bækur
hennar, Eyland og Hið heilaga orð, hafa verið þýddar á
fjölda tungumála.
Benedikt gefur líka út fjórar ljóðabækur. Þagnarbind-
indi Höllu Þórlaugar Óskarsdóttur geymir ljóðsögu af
hugarheimi konu sem reynir að ná tökum á minningum
um missi og ótta, um samskipti við konurnar sem hafa
verið henni nánastar og henda reiður á svo mörgu sem
hún hefur aldrei sagt. Á yfirborðinu hafa ljóðin lág-
stemmt yfirbragð hversdagsraunsæis en markvisst
myndmál og athuganir undirstrika sársaukann í þögn-
inni og tilfinningalega dýpt undir kyrrlátu yfirborðinu.
Einnig er væntanleg ljóðabók Kristínar Svövu Tóm-
asdóttur sem hún nefnir Hetjusögur. Ljóðin í bókinni
eru ort upp úr ritinu Íslenskar ljósmæður I-III sem séra
Sveinn Víkingur bjó til prentunar og kom út hjá Kvöld-
vökuútgáfunni á Akureyri 1962-1964. Þar eru prentaðir
æviþættir og endurminningar 100 ljósmæðra. Kristín
Svava hefur sent frá sér þrjár ljóðabækur, síðast Storm-
viðvörun árið 2015, og sagnfræðiritið Stund klámsins.
Tunglið er diskókúla heitir ljóðabók Loka. Þetta er
fyrsta ljóðabók Loka, en hann fæddist í Reykjavík 1993
og ólst upp þar og í Leicester á Englandi. Hann hefur
starfað við jafningjafræðslu, uppvask, glasabernsku,
sölustjórnun og þjálfun, ruslatínslu, fatahönnun, kvik-
myndagerð, leikhús, rekstur menningarsamtaka og
skrif.
Fjórða ljóðabók Benedikts fyrir þessi jól geymir ljóða-
safn Þórdísar Gísladóttur og heitir Ljóð 2010-2015. Í
bókinni eru þrjár fyrstu ljóðabækur Þórdísar Gísladótt-
ur, sem hafa lengi verið ófáanlegar. Þetta eru bækurnar
Leyndarmál annarra, sem hlaut bókmenntaverðlaun
Tómasar Guðmundssonar, Velúr, sem var tilnefnd til Ís-
lensku bókmenntaverðlaunanna, og Tilfinningarök. Úlf-
hildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur ritar formála.
Vatnaleiðin heitir bók Óskars Árna Óskarssonar sem
prýdd er ljósmyndum Einars Fals Ingólfssonar. Árið
2009 dvaldi Óskar Árni Óskarsson um sex mánaða skeið
sem gestalistamaður í Vatnasafninu í Stykkishólmi.
Hann hélt dagbók flesta daga sem hér birtist nú á prenti
í endurskoðaðri útgáfu. Bókin hefur að geyma lýsingar á
því sem fyrir augu bar þessa mánuði, hugleiðingar og
ljóð og ljósmyndir sem Einar Falur tók af söguslóðunum
á vordögum 2018.
Af þýddum bókum sem Benedikt gefur út á árinu ná
nefna Álabókina eftir Patrik Svenson sem fjallar um
leyndardómsfyllsta fisk veraldar, sem er í mikilli útrým-
ingarhættu. Álabókin fjallar líka um tengsl höfundar við
föður sinn og hvernig állinn sameinaði þá. Þetta er bók
um sögu vísinda, þekkingarleit, lífið sjálft og hvernig á
að lifa því. Og um áskorunina sem bíður okkar allra; að
deyja. arnim@mbl.is
Nýjar skáldsögur vænt-
anlegar frá Auði Övu, Jóni
Kalman og Sigríði Hagalín
Kristín Svava
Tómasdóttir
Óskar Árni
Óskarsson
Þórdís
Gísladóttir
Auður Ava
Ólafsdóttir
Sigríður Hagalín
Björnsdóttir
Jón Kalman
Stefánsson
Skáldsögur og ljóð Benedikts
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Þessi bók er sprottin af vanlíðan yfir
því hvað við hvítir Vesturlandabúar
höfum það gott en restin af heiminum
hefur það skítt. Við gerum lítið annað
í því en að skjóta þessum títuprjón-
um,“ segir Hallgrímur Helgason og
vísar þar í titil nýrrar ljóðabókar
sinnar, Við skjótum títuprjónum.
Ljóðin í bókinni eru hörð ádeila á lífs-
stíl okkar forréttindafólksins í veröld-
inni sem er á kostnað þeirra fátæku
og jarðarinnar allrar. Við fáum það
óþvegið og fölsku góðmennskunni,
sjálfhverfunni og neysluhyggjunni er
skellt framan í lesanda með þeim
hætti að svíður undan. Fyrir koma
orð eins vestræningjar, hámarks til-
gerðargeta, gámhorf á gleymisveitu,
fangelsi frelsis og lækbjört lík þeirra
sem fastir eru við ljómandi síma.
„Þetta kviknaði í jólaferð sem við
konan mín fórum til Porto fyrir fjór-
um árum. Við ætluðum að hafa það
huggulegt og njóta lífsins, en þau
sömu jól var vinkona hennar, Þórunn
Ólafsdóttir, að vinna við að hjálpa
flóttamönnum á Lesbos. Mér fannst
nett erfitt að við værum þarna nálægt
Miðjarðarhafinu að velja veitinga-
staði og lifa í einhverjum lúxus á með-
an hún var að sinna deyjandi fólki á
eyju ekki svo langt frá. Þetta hafði
verið erfitt ár á margan hátt, þrátt
fyrir frábæra Evrópumótið okkar í
Frakklandi. En það voru Panama-
skjölin, ríkisstjórnin féll og önnur
leiðinleg var mynduð, svo voru það
Brexit, Trump og Erdogan. Þetta var
líka árið sem David Bowie, Prince og
Leonard Cohen dóu. Á aðaltorginu í
Porto, á jóladagskvöld, heyrðum við
svo að George Michael væri dáinn og
kór Rauða hersins hefði farist í
Svartahafi. Maður var orðinn nett
frústreraður yfir öllum þessum
ósköpum og uppi á hótelherbergi
lagðist ég í rúmið og sá allt í einu ský
af títuprjónum skjótast upp í loftið yf-
ir mér. Þá kviknaði þessi lína sem
varð upphafið að bókinni,“ segir Hall-
grímur sem hélt áfram að vinna bók-
ina næstu ár, mest í útlöndum. „Ljóð-
in eru að mestu ort á hótelum og
flugvöllum þar sem ég var að fylgjast
með fólki, en líka feisa sjálfan mig í
spegli. Þetta lýsir lífinu fyrir kófið,
þegar við vorum öll að fljúga út mörg-
um sinnum á ári og hálfur heimurinn
var mættur hingað til að taka mynd
af Hallgrímskirkju. Þetta er eigin-
lega orðinn sögulegur tími í dag, nú
er allt breytt.“
Við lestur ljóðanna má ljóst vera að
Hallgrímur leggur mikið upp úr
orðanna hljóðan, hljómfallinu.
„Þetta er þannig bók að línurnar
verða að dansa, annars virka þær
ekki, þetta þarf að vera í ákveðnum
takti. Þó bókin flakki á milli forma,
fari yfir í stuðla og rím og svo aftur út
úr því yfir í talmál og næstum rapp,
þá er ákveðin kveðandi alltaf til stað-
ar,“ segir Hallgrímur og bætir við að
hann hafi farið að heyra í trommum
undir textanum þegar hann var að
yrkja ljóðin.
„Mér datt þá í hug að búa til úr
þessu eitthvað annað líka, eitthvað
sem færi lengra en hljóðbókin gerir,
og ég vildi hafa það einfalt, aðeins ég
að lesa ljóðin og trommari að leika
undir. Ég leitaði að góðum trommara
sem gæti gert fjölbreyttan takt og
tónlistarmaðurinn Auður benti mér á
Dodda, Þorvald Þór Þorvaldsson,
sem hann sagði vera hinn sanna
„Vibemaster“. Samvinna okkar
Dodda var mjög gefandi, hann var já-
kvæður og til í allt og þetta spratt
fram á milli okkar. Þetta er í raun
einhverskonar ljóðadjamm, tónverk
fyrir trommur og ljóð.“
Hann segir að það hafi verið mjög
gaman fyrir hann sem myndlistar-
mann að hafa trommusett fyrir fram-
an trönurnar í stúdíóinu hjá sér í heil-
an mánuð.
„Það var alltaf ákveðið stuð að
mæta í vinnuna á morgnana þar sem
trommusettið geislaði einhverjum
dillanda frá sér. Svo kom hugmyndin
um að gera myndband, af því miðlar
dagsins kalla jú á slíkt, og þá kom
fjöllistamaðurinn Krassasig inn í
myndina, en hann leikstýrir vídeóinu.
Það er eitthvert opið svæði þarna á
milli strangrar ljóðlistar og rapp-
heimsins sem mig langaði til að
kanna.
Ljóðlistarmyndbandið er líka ein
leið til að koma ljóðinu út úr bóka-
skápnum og út á götu, og prófa þann-
ig önnur form en bók og upplestur.“
Myndbandið verður frumsýnt í dag
í útgáfuteitinu í Listasafni Reykjavík-
ur frá kl. 17 til 19, en það mun rúlla
áfram til 22 í kvöld og verður í lúppu
alla helgina.
„Við erum að þreifa fyrir okkur
hvað við getum gert við þetta, en
draumurinn er að flytja þetta „live“
og ferðast með ljóðin og trommurnar
út fyrir borg, en ég veit ei hvað
Covid-Guðinn leyfir,“ segir Hall-
grímur og bætir við að síðasta erindið
sé ort eftir að Covid skall á.
„Mér finnst alveg hressandi til-
breyting í því að geta ekki flogið út
um allan heim. Þetta var komið út í
hreina dellu, fólk var farið að nota
flugið eins og strætó, búa í einu landi
og vinna í öðru, og mikill æðibunu-
gangur sem fylgdi en lítill tími til að
hugsa málin. Ég var sjálfur spenntur
fyrir því að sjá aðra menningarheima,
ritstörfin kalla stundum á ferðalög,
en á sama tíma hugsaði ég hvað mað-
ur væri að gera með slíkum lífsstíl.
Svo situr maður í tveimur tonnum af
stáli til að koma sér í vinnuna hér
heima, það er klikk mikil eyðsla á
orku og efni. Bókin er líka um það.“
„Línurnar verða að dansa“
Morgunblaðið/Einar Falur
Heimsádeila í nýrri ljóðabók Hallgríms Kannar svæðið milli strangrar ljóðlistar og rappheimsins
Hallgrímur Ljóðlistar-
myndbandið er ein leið
til að koma ljóðinu út
úr bókaskápnum.