Morgunblaðið - 26.09.2020, Blaðsíða 20
SVIÐSLJÓS
Hallur Már Hallsson
hallurmar@mbl.is
Fyrsta verkefni ofurgreindarinnar
var að afla þróunarteyminu tekna.
Eins mikilla og hægt var að afla á
sem skemmstum tíma. Fyrstu millj-
arðarnir, í dollurum talið, urðu til í
efnisveitu sem byggðist á flóknu neti
gerviframleiðenda sem sköpuðu
tölvugerðar bíómyndir og sjónvarps-
þætti, ekki ósvipað því sem hefur
malað gull fyrir Disney-samstæðuna.
Með því að stúdera allar kvikmyndir
og allt það sjónvarpsefni sem skipt
hefur máli í gegnum tíðina ásamt
lestri og greiningu á því sem hefur
verið skrifað um efnið náði ofur-
greindin fullkomnum tökum á listinni
á einungis nokkrum dögum. Í hvik-
ulum bransa þar sem framleiðsla er
bæði mannfrek og dýr höfðu hefð-
bundnar framleiðsluaðferðir mann-
fólksins ekki roð við skilvirkni ofur-
greindarinnar sem þróaði nú eigin
hugbúnað og vélbúnað. Stærsta
vandamálið var að fela slóð tölvu-
framleiðslunnar með flóknu neti
framleiðslufyrirtækja um allan heim.
Vissulega voru þau mönnuð fólki sem
hélt þó að það léki hlutverk í gang-
virki þessa ört vaxandi efnahagsrisa.
Svona hefst dæmisaga um ofur-
greindina Prómóþeus í inngangi bók-
arinnar Life 3.0 eftir sænsk-
bandaríska eðlisfræðinginn Max
Tegmark sem gegnir stöðu við MIT.
Í bókinni veltir hann fyrir sér hvaða
áhrif gervigreind komi til með að
hafa á mannkyn og þróun lífs á jörð-
inni. Hvað gerist þegar gervigreind
öðlast sjálfstæða færni til að þróa
sjálfa sig og vélbúnaðinn sem hún
byggist á?
Bókin er á köflum stórfurðulegt
torf en á köflum mjög áhugaverð.
Sérstaklega greip þessi hugmynd um
streymisveituna mig. Bókin er gefin
út árið 2017 og þótt hlutirnir gerist
hratt í þessum geira væri varla hægt
að kalla hana gamla.
Tilbúnir „listamenn“
Árið 2016, um það leyti sem bókin
hefur verið skrifuð, byrjuðu blaða-
menn að rýna í nokkra „listamenn“
sem voru að gera það gott á mörgum
spilunarlistum tónlistarveitunnar
Spotify sem á undanförnum áratug
hefur náð hálfgerðri einokunarstöðu
í að streyma tónum í eyru heims-
byggðarinnar. Þar er sænska
athafnaskáldið Daniel Ek við völd en
í ljós kom að fjölmargir listamenn á
Spotify eru tilbúningur. Oddur
Klemenzson og Sigríður, sem maður
myndi ætla að væru jafn íslensk og
haglél í september, eru þar á meðal.
Svo er þó ekki eins og fjallað hefur
verið um. Þegar rýnt er í upplýsingar
um lagið „Foreign Fields“ með Sig-
ríði kemur í ljós að þar er fram-
leiðsluteymið Quiz & Larossi að baki,
höfundur er Robin Bennich. Quiz &
Larossi, sem heita Andreas Romd-
hane og Josef Svedlund, eru áber-
andi í umfjöllun Music Business
Worldwide um málið. Blaðamönnum
MBW taldist til að tvíeykið hefði
samið tónlistina fyrir um átta lista-
menn sem eru áberandi á spilunar-
listum eins og Peaceful Piano, Piano
In The Bacground, Deep Focus
o.s.frv. Listum þar sem tónlistinni er
ætlað að vera í bakgrunni, hálfgerð
lyftutónlist sem á að vera til staðar
en ekki trufla.
Þetta eitt og sér er auðvitað ekkert
athugavert út af fyrir sig. Höfund-
arverk hafa alla tíð verið gefin út
undir fölskum forsendum. Stað-
reyndin er þó sú að umræddir spil-
unarlistar eru afar vinsælir og starfs-
menn Spotify velja sjálfir tónlistina
inn á þá. Að ná lagi inn á Peaceful
Piano-listann mætti líkja við að vinna
í happdrætti, tekjurnar af spilun
bara inni á þeim lista eru umtals-
verðar. Smellirnir „Landmannalaug-
ar“ og „Seljalandsfoss“ eftir Odd
okkar hafa fengið um tólf milljón
spilanir á veitunni. Sumir „lista-
mennirnir“ eru með tugi milljóna
spilana, þegar allt er lagt saman er
ljóst að um háar fjárhæðir er að
ræða, líklega taldar í hundruðum
milljóna.
Reglulega spretta upp umræður á
meðal tónlistarfólks hér á landi um
fyrirkomulagið. Margir tónlistar-
menn hafa lagt mikið á sig til að fram-
leiða tónlist sem þeir sjá fyrir sér að
geti átt heima á listunum. Vonbrigðin
eru umtalsverð þegar svo reynist úti-
lokað að koma tónlistinni þar fyrir á
meðan gervilistamenn græða á tá og
fingri, tja í það minnsta ná upp í
kostnað! Tortryggnin er líka talsverð.
Tónlistarmaður sem ég hafði sam-
band við þegar ég var að vinna grein-
ina var alveg til í að fara yfir málin en
vildi alls ekki láta nafns getið þar sem
hann stefnir á útgáfu fljótlega og vildi
ekki styggja báknið.
Veröld ný og góð
Í sögunni um Prómóþeus var fólkið
að baki gervigreindinni, Omega-
hópurinn, sem betur fer býsna vel
innrætt. Þegar skemmtanaiðnaður-
inn var sigraður var næsta skref að
byggja upp fjölda tæknifyrirtækja
um allan heim sem komu með nýjar
tæknilausnir (hannaðar af Prómó-
þeusi) á markað sem breyttu lifn-
aðarháttum mannfólks til hins betra.
Næst var að leggja undir sig fjöl-
miðlun. Það reyndist frekar auðvelt
þar sem fjármögnunin byggðist á
sterkum grunni. Fréttastöðvar
spruttu upp á öllum mörkuðum þar
sem áður óséðum upphæðum var eytt
í að skapa skynsamlega umræðu þar
sem ábyrg og öfgalaus umfjöllun var í
fyrirrúmi án nokkurrar kröfu um að
skapa tekjur.
Þannig skapaðist mikið traust al-
mennings á öllu sem Omega-veldið
kom nálægt. Fréttir og umfjöllun
náðu að minnka tortryggni á milli
ólíkra hópa og þjóða. Allt var reiknað
út af Prómóþeusi um hvernig hægt
væri að gera samfélagið skilvirkara
og réttlátara. Fjallað var með raun-
sönnum hætti um hvernig vopnuð
átök gögnuðust fáum og ógnuðu sak-
lausu fólki. Að lokum kom að yfirtöku
á hinum pólitíska vettvangi þar sem
mannúðleg markmið réðu för. Í stað
hernaðarútgjalda var fjármunum
frekar beint í þarfari farveg. Þið sjáið
hvert þetta er að fara; valdahlutföllin
skekktust og Omega-hópurinn náði
völdum á jörðinni í krafti ofurgreind-
ar Prómóþeusar sem reiknaði út
hvernig hægt væri að hámarka ham-
ingju allra sem hana byggja. Tryggja
friðsælt líf á jörðinni og næstu heim-
kynnum mannkyns inn í eilífðina.
Ég er nú ekki að ýja að því að Ek
og félagar hafi svona háleit markmið,
en … er það mögulegt að við séum
byrjuð að hlusta á tónlist sem er búin
til af gervigreind? Og ef svo er skiptir
það einhverju máli?
Hlustar þú á gervigreind?
Fjöldi listamanna á tónlistarveitunni Spotify er gervimenn en ekki til í raunveruleikanum
Smellirnir „Landmannalaugar“ og „Seljalandsfoss“ hafa fengið um tólf milljón spilanir á veitunni
AFP
Gervimaður Róbotinn Sophie ræðir við gesti á gervigreindarráðstefnu á Indlandi. Sophie er hönnuð hjá fyrirtækinu Hanson Robotics í Hong Kong.
Lög Oddur flækir ekki málin, lögin bera nöfn þekktra ferðamannastaða.
Ítarlegri grein með mynd- og
tóndæmum er að finna á mbl.is.
mbl.is
20 FRÉTTIRTækni
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 26. SEPTEMBER 2020
Draghálsi 14 -16 · Sími 4 12 12 00 · www.isleifur.is
Þú finnur
gæðin!
Skoðaðu úrvalið
í netverslun
isleifur.is