Morgunblaðið - 05.12.2020, Page 56
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Því fyrr á æviskeiðinu sem við töl-
um við börn um fjölbreytileikann,
því auðveldara gerum við börnum
sem eru á einhvern hátt utan við
normið að líða ekki eins og þau séu
ein í sínum aðstæðum. Okkar
draumur er að öll börn, hvort sem
þau eru í hinsegin fjölskyldum, fötl-
uð eða af erlendum uppruna, geti
speglað sig og sinn veruleika með
einhverjum hætti í þessari bók,“
segja þær Ingileif Friðriksdóttir og
María Rut Kristinsdóttir, höfundar
nýrrar barnabókar sem heitir
Vertu þú!, en bókin sú geymir lit-
ríkar sögur af fjölbreytileikanum og
hvetur til fordómaleysis og víðsýni.
„Þessi hugmynd að bók hefur
velkst með okkur allan þann tíma
sem við höfum verið foreldrar. Ingi-
leif kom inn í líf mitt og eldri
stráksins okkar þegar hann var
fimm ára og við áttuðum okkur
fljótlega á hversu lítill fjölbreyti-
leiki er í barnabókum. Þar eru per-
sónur oft mjög einsleitar og strák-
urinn okkar spurði hvers vegna það
væri aldrei neinn í bókunum sem
átti fjölskyldu eins og hann, með
tveimur mömmum,“ segir María
Rut og bætir við að þegar þær
Ingileif stofnuðu fyrir fjórum árum
fræðsluvettvang á samfélags-
miðlum, Hinseginleikann, þá hafi
þær ákveðið að skrifa barnabók
sem væri af sama meiði.
„Þar fáum við allskonar fólk til
okkar sem segir sína sögu og við
erum svo heppnar að nokkrir
þeirra einstaklinga hafi leyft okkur
að nota sínar sögur í bókinni. Allar
sögurnar eru sannar en í nokkrum
þeirra höfum við breytt nöfnum.
Okkur finnst mikilvægt að börn
geti séð að það er raunveruleg
manneskja af holdi og blóði þarna
úti sem er eins og þau. Þetta er
ekki skáldskapur og því geta börnin
horft til einstaklinga sem eru að
spjara sig úti í samfélaginu, einmitt
af því að þeir eru þeir sjálfir.“
Börn eru ekki fordómafull
„Útgangspunkturinn í bókinni er
að við erum öll einstök, eigum öll
ólíka drauma, ólík áhugamál og við
lítum ólíkt út, en við erum öll
manneskjur sem búa saman í sam-
félagi. Það að einhver sé ólíkur okk-
ur þýðir ekki að okkur geti ekki lík-
að vel við viðkomandi. Við
samtvinnum allan fjölbreytileikann
í þeim skilaboðum sem felast í titli
bókarinnar: Vertu þú. Um leið og
við fengum hugmyndina að bókinni
þá vissum við að við vildum ekki að-
eins fókusera á hinsegin, heldur
líka á aðra sem eru á jaðrinum.
Ekki einvörðungu börn í hinsegin
fjölskyldum upplifa að þau séu ein í
sínum aðstæðum, líka börn sem
finna til dæmis fyrir kvíða og vita
ekki hvaða tilfinning það er og
kunna ekki að tækla það af því að
þau halda að engum öðrum líði
þannig. Börn sem á einhvern hátt
eru utan við normið mæta líka oft
fordómum, en okkar reynsla af
börnum er sú að þau eru ekki
manneskjurnar sem eru fordóma-
fullar, það er fullorðna fólkið, en
börnin bergmála stundum viðhorf
þeirra. Fordómar, stríðni og einelti
byggist mikið á fáfræði en líka
menningarvanda. Sérstaklega í
miðstigi grunnskóla og unglinga-
stigi, þá er ákveðinn húmor í gangi
sem er oft mjög niðrandi fyrir
minnihlutahópa. Okkar von með
þessari bók er að hægt sé að taka
samtalið strax og börnin eru lítil, til
að koma í veg fyrir að krökkum sé
strítt eða þau séu útilokuð af því
þau eru á einhvern hátt öðruvísi en
fjöldinn.“
Nokkur tár féllu hjá okkur
Þær Ingileif og María segja að
foreldrar í hefðbundnu fjölskyldu-
formi hafi haft orð á því við þær
hversu erfitt þeim finnist að byrja
samtöl við börnin sín um fjölbreyti-
leikann.
„Við viljum með bókinni gefa
þeim tækifæri til að byrja slíkt
samtal við börnin. Þess vegna
spyrjum við börnin spurninga í
bókinni og út frá þeim geta skapast
ótrúlega skemmtilegar umræður
milli barns og foreldris, eða þess
einstaklings sem er að lesa með
þeim, afa eða ömmu, frænku eða
frænda,“ segja þær stöllur og bæta
við að þær hafi nú þegar fengið
fyrirspurnir frá kennurum sem
nota bókina í lestri hjá krökkum í
fyrstu bekkjum grunnskóla.
„Bókin okkar er líka notuð á leik-
skólum til að skapa þessa umræðu
og við erum afar ánægðar með. Við
finnum hversu mikil þörf er í raun
fyrir svona bók, líka fyrir trans-
börn, en við segjum söguna af
Ronju í bókinni, transstelpu sem
við kynntumst á Hinseginleikanum.
Hennar saga er nú þegar farin að
hjálpa öðrum transbörnum og við
höfum fengið ótrúlega falleg skila-
boð þar um. Meðal annars frá einni
lítilli transstelpu sem hefur verið að
reyna að fikra sig áfram og ekki
vitað hvernig hún ætti að koma út
fyrir öðrum í fjölskyldunni. Eftir að
hún las bókina þá ákvað hún að
stíga fram sem transbarn og
breytti nafni sínu í Ronja. Nokkur
tár féllu hjá okkur við þessi tíðindi
og yndislegt að bókin hafi auðveld-
að barni að þora að vera eins og
það er.“
Bókin er líka fyrir fullorðna
Ingileif og María Rut segjast
sannfærðar um að allt fullorðið fólk
í dag, sem er að ala upp börn, muni
mæta þeirri áskorun að þurfa að
taka þessa umræðu við börnin sín,
því sýnileikinn sé orðinn það mikill,
sem betur fer.
„Okkur þykir mjög vænt um
skilaboð sem við höfum fengið frá
fullorðnu fólki sem segir að það hafi
ekki síst sjálft lært mikið á því að
lesa bókina okkar. Þetta er nefni-
lega líka bók fyrir fullorðna, fyrir
alla sem koma að uppeldi barna,
líka ömmur og afa, því það er
kannski helst eldra fólk sem er að
kljást við öll þessi nýju hugtök.
Þetta fólk talar um að það hafi við
lestur bókarinnar fengið innsýn í
fjölbreytileikann, hvað hann sé
„allskonar“.“
Allar sögurnar eru sannar
Við erum öll einstök, eigum ólíka drauma, ólík áhugamál og lítum ólíkt út Ingileif og María Rut
hafa sent frá sér bókina Vertu þú! Bókin geymir litríkar sögur af fjölbreytileikanum
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Fjölskylda Mömmur tvær, María Rut og Ingileif með hundinn Míló og son sinn Rökkva. Eldri sonur þeirra, Þorgeir,
var vant við látinn. María Rut og Ingileif segja skipta miklu máli að fræða börn snemma um fjölbreytileikann.
56 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 5. DESEMBER 2020
Ævintýraheimur, önnurvídd eða jafnvel plán-eta er sögusvið Skóg-arins, lokabindis í
þríleik Hildar Knútsdóttur. Skóg-
urinn leynist handan skápsins í ris-
herberginu við Skólastræti og nú
fær Kría loks svör við ótal spurn-
ingum sem hafa ásótt hana frá
menntaskólaárunum í MR.
Skógurinn gefur fyrri bókunum,
Ljóninu og Norninni, lítið eftir en
undirrituð verður að viðurkenna að
hún taldi það fullvíst að von væri á
Skápnum í lokabindinu. Hildur
heldur hins vegar áfram að koma á
óvart og verður því vísunin í Nar-
níubækur C.S. Lewis ekki full-
komnuð, að minnsta kosti ekki um
sinn.
Líkt og í
fyrstu bókinni er
Kría í aðal-
hlutverki, nú sem
gömul kona (eða
hvað?) og hefst
sagan þar sem
Norninni lauk;
Kría fórnar sér
fyrir dóttur-
dóttur sína Ölmu
sem lesendur þekkja svo vel úr
annarri bókinni og fær þá loks að
sjá hvað býr handan skápsins. Án
þess að segja of mikið endurnýjar
hún kynnin við hinn dularfulla Dav-
íð í skóginum ásamt fleiri persónum
frá æskuárunum.
Þríleikurinn er fyrst og fremst
ungmennabókmenntir en á meðan
Nornina má einnig flokka sem lofts-
lagsbókmenntir má alveg flokka
Skóginn sem vísindaskáldskap þar
sem Hildur fer nú alla leið í sköp-
uninni. Heimurinn handan skápsins
er framandi og þó svo að þar sé að
finna fólk, vatn og gróður líkt og í
raunheimum, er samt eins og raun-
veruleikinn sé bjagaður. Það á Kría
erfitt með, vísindakonan sem hún
er. „Kannski er ekkert ómögulegt,“
skrifar Alma í bréfi til ömmu Kríu
og það er ekki fyrr en þá sem Kría
virðist sætta sig við hlutskipti sitt í
þessu nýja lífi í nýja heiminum og
þá loks hefst atburðarás sem heldur
lesandanum við efnið.
Skógurinn er gríðarlega fram-
andi og ef til vill þess vegna grípur
hún lesandann ekki jafn snemma og
Ljónið og Nornin gerðu. Kannski er
það óþreyjan að fá loks svör við öll-
um spurningunum sem veldur eða
kannski er það hið óþekkta handan
skápsins sem flækir málin. Hildi
tekst engu að síður að lýsa heim-
inum sem hún skapar með heillandi
hætti og enn á ný sýnir hún að
frumlegri höfund er líklega ekki að
finna hér á landi. Lýsingin á því
sem fyrir augu ber er afar mynd-
ræn og væri gaman að sjá á hvíta
tjaldinu, það væri að minnsta kosti
ekki amalegt að sjá Jennifer Law-
rence í hlutverki Kríu.
Skógurinn er lokabindi þríleiks-
ins líkt og áður segir en tilfinningin
þegar lestrinum lýkur er samt sem
áður ekki sú að komið sé að leiðar-
lokum. Það er ekki öllum spurn-
ingum svarað. Kemur kannski
Skápurinn eftir allt saman?
Morgunblaðið/Hari
Höfundurinn „Skógurinn gefur fyrri bókunum, Ljóninu og Norninni, lítið
eftir,“ skrifar gagnrýnandi um nýja og heillandi sögu Hildar Knútsdóttir.
Ævintýri
Skógurinn bbbbn
Eftir Hildi Knútsdóttur.
JPV, 2020. Innb., 311 bls.
ERLA MARÍA
MARKÚSDÓTTIR
BÆKUR
„Kannski er ekkert ómögulegt“