Lögmannablaðið - 2020, Qupperneq 33

Lögmannablaðið - 2020, Qupperneq 33
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/20 33 Ekið upp Arnarhól með ráðuneytisstjóra Einhvern tímann var dr. Gunnlaugur á Land Rover jeppanum á ferð í miðbænum og ók fram á Baldur Möller ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins þar sem hann var að ganga í vinnuna. Dr. Gunnlaugur bauð Baldri far en þegar hann var að aka framhjá Arnarhóli þá tók hann sig til og fór beint yfir hólinn. Lögregluþjónn varð vitni að athæfinu, stoppaði dr. Gunnlaug sem skrúfaði niður rúðuna og spurði: „Veistu hver situr hér við hliðina á mér? Sjálfur ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins!“ Það urðu ekki meiri eftirmálar af þessu. Dr. Gunnlaugur kaupir Austin mini Dr. Gunnlaugur ók alltaf um á Land Rover. Einn daginn þegar dr. Gunnlaugur var að aka upp Hverfisgötuna, að flýta sér í sakadóm, bilaði jeppinn. Hann lét hann renna upp á gangstétt, fór og keypti næsta bíl sem var til í umboðinu. Það var Austin mini. „Hvor mange born har du?“ Í formannstíð Jóns Steinars Gunnlaugssonar fór Lögmannafélagið í ferð til Kaupmannahafnar. Dr. Gunnlaugur Þórðarson var með í för og var þá nýbúinn að frétta af, og gangast við, stúlkubarni sem hann hafði eignast einum eða tveimur áratugum fyrr. Einn morguninn fóru lögmennirnir að skoða tölvufyrirtæki og voru allir frekar ryðgaðir og illa til hafðir eftir slark næturinnar. Þar flutti maður fyrirlestur um tæknimál framtíðar og gaf að því loknu kost á fyrirspurnum. Dr. Gunnlaugur spurði þá: „Hvor mange born har du?“ Maðurinn svaraði, dálítið hissa á spurningunni: „Jeg har tre.“ Þá spurði dr. Gunnlaugur: „Har du de alle med den samme kvinde?“ Bílnum gleymt í Hafnarfirði Dr. Gunnlaugur var eitt sinn að reka erindi við sýslumanninn í Hafnarfirði og skildi bílinn eftir í gangi fyrir utan á meðan hann hljóp inn. Þegar hann kom aftur út var Hafnarfjarðarstrætó að renna að og dr. Gunnlaugur stökk upp í hann, án þess að muna eftir bílnum í gangi fyrir utan embættið. Flug til Húsavíkur eins og gróðurhús Dr. Gunnlaugur var mjög úrræðagóður. Hann fór til Snædísar dóttur sinnar reglulega þar sem hún bjó í Húsavík og tók þá með trjáplöntur. Eitt sinn ætlaði hann að senda plöntur með flugi norður en bíllinn var of seinn þannig að það var búið að loka fraktinni. Hann fór í Húsavíkurröðina og bað farþega að taka fyrir sig tvær plöntur í handfarangur. Vélin til Húsavíkur þennan dag var eins og lítið gróðurhús. Listaverkasala Dr. Gunnlaugur leigði húsnæði til listamanna og tók oft málverk upp í leigu þegar þeir voru blankir. Einn daginn kom dr. Gunnlaugur í Lögmannafélagið með stærðar málverk og spurði hvort hann mætti geyma það í stjórnarherberginu. Hann fékk að hengja málverkið upp en kom svo tveimur mánuðum síðar með reikninginn og þá var auðvitað ekkert hægt að gera annað en að borga. Eyrún Ingadóttir tók saman

x

Lögmannablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.