Dagfari - des. 2020, Blaðsíða 19

Dagfari - des. 2020, Blaðsíða 19
19 DESEMBER 2020 Snákar um borð! Snákategundin sem herjar á Gúam. Gúam – náttúruperla í hættu? Bíómyndin „Snakes on a Plane“ frá árinu 2006 með Samuel L. Jackson í aðalhlut- verki hefur sérstakan sess í hugum hasar- myndaunnenda. Myndin öðlaðist harðan hóp aðdáanda löngu áður en hún var frum- sýnd, þar sem titillinn og efniviðurinn: eitraðir snákar um borð í flugvél, þótti svo vitleysislegt að útkoman hlyti að verða frábær! En það er ekkert gamanmál, eins og persóna Samuel L. Jackson getur vottað um, þegar snákar komast um borð í fljúgandi farartæki. Eitt af ótalmörgum vistfræðilegum slysum sem tengjast Bandaríkjaher á liðinni öld tengist einmitt slíkum flutningum. Kyrrahafseyjan Gúam komst óvænt í heims- fréttirnar fyrir nokkrum misserum þegar Norður-Kóreustjórn gaf í skyn að hún kynni að skjóta eldflaugum að eyjunni til að sýna mátt kjarnorkuvopnabúrs síns. Innan við 200 þúsund manns búa á þessu 550 ferkílómetra landsvæði sem er eitt af fjórum skilgreindum yfirráðasvæðum Bandaríkjanna, sem þýðir að íbúarnir eru bandarískir ríkisborgarar frá fæðingu. Bandarískum herstöðvum var komið upp á Gúam eftir seinni heimsstyrjöldina og gegndu þær m.a. mikilvægu hlutverki fyrir liðs- og birgðaflutninga á tímum Víetnamstríðsins. En það var fleira en hermenn og vopn sem fékk far til flugvallarins á Gúam, snákar voru einnig hluti farmsins og þá einkum skaðvaldurinn brúni trjásnákurinn. Átvögl Snákategund þessi kunni þegar vel við sig í hinum nýju heimkynnum, með gnótt matar en enga náttúrulega óvini. Snákarnir átu jöfnum höndum lítil spendýr, eðlur og fugla. Hinir gráðugu landnemar breiddu úr sér út um allt og hefur verið áætlað að um fjögur- þúsund snákar séu nú að jafnaði á hverjum ferkílómetra lands. Tíu af tólf fuglategundum sem telja má innfæddar eru nánast horfnar í maga snákanna. Hrun fuglastofnsins hefur haft hörmulegar afleiðingar fyrir aðra þætti vistkerfisins. Fuglarnir gegndu mikilvægu hlutverki við að dreifa trjáfræjum og fyrir vikið hefur nýgengi trjáa nánast hrunið. Köngulær voru ein helsta fæða fuglanna, svo nú er allt morandi í köngulóm í ofanálag og erfitt að fara sinna ferða án þess að flækjast í köngulóarvef. Ekki stoðar að kalla til Samuel L. Jackson til að slást við þessa óværu, en yfirvöld hafa af veikum mætti reynt að dreifa óhemjumagni af eitruðum músahræjum í von um að ná að fækka snákunum. Sú meindýraeyðing hefur til þessa borið lítinn árangur. Umhverfisböðlar Einstök náttúra Gúam er ekki svipur hjá sjón vegna þessara aðskotakvikinda og sambýlið við herinn heldur áfram að leika umhverfið grátt. Um 30% af Gúam telst til skilgreindra herstöðvasvæða og áform um að færa stóran hluta af búnaði og mannskap Bandaríkja- manna sem nú er í Japan til eyjarinnar mun enn auka á þau umsvif. Strangar reglur gilda um framkvæmdir almennra borgara á Gúam sem miða að því að vernda lífríkið, en aðrar og miklu mildari reglur snúa að hernum. Mikil skógaeyðing hefur fylgt herstöðvaupp- byggingunni. Umhverfisverndarsinnar eru í erfiðri stöðu á Gúam. Þjónusta við herinn er veigamesti þátturinn í efnahagslífinu og öll gagnrýni á þennan stærsta vinnuveitanda samfélagsins er því illa séð. Á sama tíma er hernum umhugað að draga upp glansmynd af starfsemi sinni og gerir mikið úr stuðningi sínum við hvers konar verndarverkefni og dýravernd.

x

Dagfari

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagfari
https://timarit.is/publication/968

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.