Dagfari - des. 2020, Blaðsíða 22

Dagfari - des. 2020, Blaðsíða 22
22 DAGFARI Íshella Grænlands bráðnar nú hratt og þar gæti ýmislegt komið undan. Iceworm-áætlunin, sem íslenska Wikipedia kýs að kalla „Ísmaðkinn“, lítur við fyrstu sýn út eins og höfuðstöðvar sturlaðs illmennis með heimsyfirráðadrauma í slappri James Bond-mynd. Samkvæmt henni átti að grafa þúsundir kílómetra af göngum innan í Grænlandsjökli, þar sem þúsundir hermanna hefðust við og gætu með skömmum fyrirvara flutt hundruð kjarnorkusprengja milli færanlegra skotpalla um svæði sem samsvaraði liðlega einu og hálfu Íslandi að flatarmáli! Hér, eins og svo oft áður, tekur veruleikinn þó öllum vísindaskáldskap fram. Um er að ræða raunveruleg áform Bandaríkjahers á sjötta áratugnum og sem reynt var að hrinda í framkvæmd að hluta. Hinn hernaðarlegi ávinningur þessara stórkarlalegu áætlanna var augljós. Frá norðanverðu Grænlandi mátti skjóta langdrægum kjarnaflaugum til allra helstu skotmarka í Sovétríkjunum. Með því að fela vopnin undir þykkri íshellu og færa þau til í sífellu var talið útilokað fyrir óvininn að granda þeim. Jafnvel þrátt fyrir meiri- háttar kjarnorkuárás Sovétmanna á jökulinn mætti ætla að nógu margar flaugar yrðu eftir til að gjöreyða stórborgum mótherjans. Staðið í stórræðum Áætlunin var vissulega tröllaukin, en Banda- ríkjamenn voru ekki óvanir stórframkvæmd- um á Grænlandi. Upphaf bandarískrar her- setu í landinu má rekja til vorsins 1941, þegar danski sendiherrann í Washington undirritaði samkomulag við Bandaríkjastjórn um hernaðaraðstöðu á Grænlandi. Danmörk var þá hersetin af Þjóðverjum og var samkomu- lagið gert án samráðs og í óþökk stjórnar- innar í Kaupmannahöfn. Á grunni samningsins tóku Bandaríkjamenn að koma sér upp hernaðaraðstöðu á Græn- landi. Árið 1943 hófust svo framkvæmdir við Thule-herstöðina, langnyrstu herstöð Banda- ríkjamanna sem staðsett er nánast miðja vegu milli heimskautsbaugs og Norðurpólsins. Um 12 þúsund verkamenn voru sendir til að reisa herflugvöll þarna á norðurhjaranum, en til samanburðar voru innfæddir íbúar Grænlands um 18 þúsund um þær mundir. Jafnframt var útbúin hafskipahöfn og aðstaða fyrir fjölmennt lið. Flugvallargerðin var óhemju dýr og ljóst Bandaríkjamenn voru ekki að tjalda til einnar nætur. Í stríðslok fór danska stjórnin fram á brottför Bandaríkjahers frá Grænlandi, en eftir að Danir urðu stofnaðilar að Nató árið 1949 var horfið frá þeim kröfum og árið 1951 var undirritað samkomulag um bandarískar herstöðvar í landinu. Þar, líkt og á Íslandi, var styrjöldin í Kóreu notuð sem réttlæting fyrir hersetu. Enn í dag eru umsvif Bandaríkjahers í Thule-stöðinni mikil. Þögn er samþykki Eflaust hefur Thule-herstöðin orðið til að kveikja hugmyndina um Iceworm-verkefnið. Árið 1958 freistaði sendiherra Bandaríkjanna þess að kynna áformin fyrir danska forsætis- ráðherranum H. C. Hansen gaf ráðherrann skýrt til kynna að hann vildi sem minnst af þeim vita. Túlkuðu Bandaríkjamenn þau viðbrögð sem þegjandi samþykki. Eitraður ormur á hjara veraldar Í stað þess að ráðast strax í risaframkvæmd- irnar var byrjað á tilraunaverkefni. Það nefndist Camp Century og var um 250 kíló- metra austan af Thule-stöðinni. Þar voru grafin 21 ísgöng, alls um þriggja kílómetra löng. Göngin höfðu að geyma lítið þorp með íbúðarhúsnæði og ýmis konar þjónustu, svo sem kirkju, kvikmyndahúsi og rakarastofu fyrir þá 200 hermenn og tæknimenn sem þar höfðust við. Samfélagið fékk orku sína frá litlu kjarnorkuveri, sem hafði meðal annars að geyma fyrsta færanlega kjarnakljúfinn. Erfitt hefði verið að halda svo umfangs- miklum framkvæmdum leyndum og gripu Bandaríkjamenn því til þess ráðs að auglýsa þær rækilega, en láta eins og um stöð til vísindarannsókna væri að ræða. Vissulega fóru þar fram jöklarannsóknir sem áttu meðal annars eftir að leggja grunn að borkjarnarannsóknum þeim er komið hafa að miklu gagni við rannsóknir á þróun veðurfars, en þær voru þó hreint yfirvarp til að fela hinn raunverulega tilgang.

x

Dagfari

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagfari
https://timarit.is/publication/968

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.