Dagblaðið Vísir - DV - 05.03.2021, Blaðsíða 29

Dagblaðið Vísir - DV - 05.03.2021, Blaðsíða 29
B etsy Faria var veik. Brjóstakrabbamein sem hún hélt sig hafa haft betur gegn hafði dreift sér og var komið í lifrina. Út­ litið var ekki gott. Betsy átti að líkindum ekki langt eftir, en engu að síður barðist hún hvað hún gat og mætti sam­ viskusamlega í lyfjameðferð. Fimmtíu og fimm stungur Þann 28. desember 2011 barst Neyðarlínunni símtal frá eiginmanni Betsyar, Russ. Hann greindi í örvinglan frá því að eiginkona hans hefði framið sjálfsvíg. Um leið og viðbragðsaðila bar að garði gerðu þeir sér ljóst að hér var ekki um sjálfsvíg að ræða. Betsy lá í blóði sínu á stofu­ gólfinu og út úr hálsi hennar stóð eldhúshnífur. Hún hafði verið stungin fimmtíu og fimm sinnum víðs vegar um líkamann, stundum svo djúpt að hnífsblaðið nam við bein. Grunur beindist fljótlega að eiginmanninum, Russ. Blóð hafði fundist á inniskóm Russ sem voru faldir inni í fataskáp, auk þess greindi vinkona Betsyar, Pam Hupp, lögreglu frá því að erfiðleikar hefðu verið í hjónabandinu og hefði Betsy verið hrædd við eiginmann sinn. Við fyrstu sýn virtist um fjölskylduharmleik að ræða – heimilisofbeldi sem gekk of langt. En ýmislegt kom þó ekki heim og saman. Líftryggingunni breytt Lögmaður Russ átti bágt með að skilja hvers vegna lög­ regla hafði ekki skoðað vin­ konu Betsyar betur, því Pam Hupp virtist hafa ýmislegt óhreint í pokahorninu. Pam og Betsy kynntust þegar þær unnu saman á árum áður en höfðu verið í litlu sambandi áður en Betsy greindist með krabbameinið. Þá hafði Pam orðið óvenju­ lega mikil stuðningsmann­ eskja og varla vikið frá Betsy nema rétt yfir blánóttina. Hún fylgdi Betsy í lyfjameð­ ferðir og var í stöðugu sam­ bandi við hana. Nokkrum dögum áður en Betsy dó hafði hún gert breytingu á líftryggingu sinni og gert Pam að við­ takanda tryggingarinnar. Talið er að Betsy hafi óttast að unglingsdætur hennar tvær og eiginmaður kynnu illa með peninga að fara og myndu eyða fjárhæðinni allri á einu bretti. Pam átti að tryggja að peningarnir myndu duga fjölskyldunni í lengri tíma. Pam var einnig síðasta manneskjan sem sá Betsy á lífi. Hún hafði ekið Betsy heim úr lyfjameðferð og hjálpað henni inn í húsið. Hún Erla Dóra Magnúsdóttir erladora@dv.is hafði heldur enga fjarvistar­ sönnun og neitaði að gangast undir lygapróf. Vildu bara eiginmanninn Lögregla hafði engan áhuga á Pam, bara Russ. Engu að síður þurftu ákæruvald og lögregla að útskýra það að Russ væri með fjarvistar­ sönnun, en hann hafði verið á spilakvöldi hjá vinum og á heimleiðinni komið við í sjoppu og því ekki haft tíma til að myrða konu sína. Russ neitaði líka sök allan tímann á meðan framburður Pam Hupp breyttist í hvert sinn sem rætt var við hana. Því fór ákæruvaldið þá leið að mála stórfurðulega sviðs­ mynd af málinu. Samkvæmt þeirri atburðarás væru Russ og vinir hans með hlutverka­ leiki á heilanum og hefðu þessar fantasíur ágerst, þar til þeir gripu til þess að myrða Betsy í sameiningu. Því væru vinirnir að ljúga til um fjarvistarsönnun Russ og hefðu sjálfir farið í sjoppuna með kort hans til að styðja við fjarvistarsönnunina. Russ hefði svo farið heim, notið ásta með konu sinni, myrt hana svo, síðan klætt líkið og sjálfan sig, farið í inniskó og dýft þeim í blóðpoll, síðan sett inniskóna inn í skáp og svo hringt í Neyðarlínuna. Hirti peningana Enginn vinanna fjögurra var þó sóttur til saka fyrir neitt. Lögmanni Russ var þó bannað að haga málflutningi sínum með þeim hætti að grun yrði varpað á Pam. Meðal þeirra gagna voru símagögn sem sýndu fram á að Pam væri að ljúga – hún hefði ekki bara skutlað Betsy heim heldur dvalið á heimilinu í hálf­ tíma þetta kvöld. Síðan voru það peningarnir. Pam hafði reyndar sett meirihluta trygg­ ingarinnar í sjóð fyrir dætur Betsyar á meðan málið var rekið fyrir dómi, svo allt leit út fyrir að vera með felldu varðandi þá tilhögun. Hins vegar var sjóðurinn afturkallanlegur – enda beið Pam ekki lengi eftir að málinu lauk með að tæma sjóðinn að nýju – fjölskylda Betsyar hef­ ur aldrei fengið að sjá krónu af líftryggingunni. Móðir Pam deyr Undir rekstri málsins lést móðir Pam einnig. Sú hafði glímt við Alzheimer en engu að síður fallið til bana af þriðju hæð með áttfaldan skammt af sljóvgandi lyfjum í blóðinu. Pam dóttir hennar var síðust til að sjá hana á lífi og var jafnframt einn erfingja sem og viðtakenda líftryggingar móður sinnar. Russ var dæmdur í þrjátíu ára fangelsi. Eftir dóminn birti rannsóknarblaðamaður ítarlega frétt um málið þar sem fjallað var um hlut Pam að málinu, reikulan fram­ burð hennar, líftrygginguna og allt. Eins var sýnt fram á annmarka við rekstur málsins hjá ákæruvaldinu, en yfir­ rannsóknarlögreglumaðurinn og saksóknarinn áttu í ástar­ sambandi og svo virtist sem saksóknari hefði nýtt sér það samband til að fá lögreglu til að einbeita sér aðeins að Russ. Blóðugu inniskórnir Málinu var áfrýjað og þá mátti lögmaður Russ leggja fram sannanir sínar. Blóðugu inniskónum hans Russ hafði greinilega verið dýft í blóð, en ekki stigið í það. Það væri mjög undar­ legt. Hupp hafði sífellt breytt framburði sínum, neitað að gangast undir lygapróf og haldið því meðal annars fram að hún og Betsy ættu í kyn­ ferðislegu sambandi. Pam var síðust til að sjá Betsy á lífi, og svo var það líftrygg­ ingin. Russ var sýknaður og síðan þá hefur dómaranum í upprunalega málinu, sem og saksóknaranum báðum verið vikið úr starfi. En Pam var ekki sótt til saka og gekk því laus. Myrti fatlaðan mann Þann 6. ágúst árið 2016 hringdi Pam í Neyðarlínuna og óskaði eftir aðstoð. Þegar lögreglu bar að garði kom hún að 33 ára karlmanni, Louis Royse Gumpenberger, látnum á heimilli Pam. Hann hafði verið skotinn fimm sinnum. Pam sagði að Lo­ uis hefði reynt að ræna sig og neyða sig til að afhenda honum peningana úr líf­ tryggingu Betsyar. Hún hefði skotið hann í sjálfsvörn. Fundu lögreglumenn miða í vasa Louis sem virtist benda til að Russ hefði fyrirskipað morð á Pam. Lögregla tók þetta ekki trúanlegt. Louis þessi var fatlaður eftir bílslys, átti erfitt með gang og hafði skerta greind. Lögreglu þótti líklegra að Pam hefði platað hann heim til sín og síðan sett atburðarásina á svið til að láta Russ líta út fyrir að vera morðingja. Pam var því loksins hand­ tekin. Í haldi fór hún á sal­ ernið og reyndi að fyrir­ fara sér með kúlupenna. En lögreglumönnum þótti það benda til þess að hún hefði sitthvað óhreint á samvisk­ unni. Hún lifði þó af og var ákærð fyrir morð þar sem farið var fram á dauðarefs­ ingu. Hupp ákvað að reyna að bjarga lífi sínu og gerði því dómsátt þar sem hún gekkst við broti sínu og slapp í staðinn við dauðarefsingu. Hún er nú í lífstíðarfang­ elsi og á ekki möguleika á reynslulausn. Málið þykir hið ævintýra­ legasta og væri það efni í heila bók að greina frá hverju einasta smáatriði. Það verður þó reynt fljótlega því í bígerð eru sjónvarpsþættir sem byggja á sögu Pam Hupp og mun stórleikkonan Rénée Zellweger fara með aðal­ hlutverkið. Þættirnir kallast „The thing about Pam“ en eru framleiddir af sjónvarps­ stöðinni NBC. Ekki er komið á hreint hvenær þættirnir hefja göngu sína en ljóst er að söguþráðurinn verður æsispennandi og lyginni lík­ astur. n SAKAMÁL HVER DRAP BETSY FARIA? Betsy Faria var myrt, það fór ekki á milli mála. En hver myndi drepa konu sem átti að líkindum aðeins skamman tíma eftir ólifaðan og hvers vegna? Pam Hupp var tilbúin að gera ýmislegt fyrir pening- ana – mögu- lega jafnvel að myrða sína eigin móður. MYND/SKJÁSKOT FÓKUS 29DV 5. MARS 2021

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.