Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2020, Side 57

Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2020, Side 57
ekki upp alneikvæða mynd af málefnum hinsegin fólks í þessum heimshluta. Þau væru ekki aðeins fórnarlömb heldur einnig baráttufólk, þó svo að baráttan væri oft og tíðum erfið. Þó svo að arabíska vorið 2010–2011 hefði orðið flestum vonbrigði hafði það ekki verið til einskis. Samhliða mótmælum og byltingum „vorsins“ varð í mörgum löndum sprenging í ýmiss konar starfsemi baráttu- og félagasamtaka. Allt í einu þorði fólk að tala um hlutina. Málefni samkynhneigðra, trans og hinsegin fólks þar á meðal. Einn samkynhneigður Egypti sagði í skýrslu HRW að á dögum mótmælanna á Tahrir-torgi í Kaíró hefði hann heyrt af stofnun sex eða sjö samtaka hinsegin fólks. „Arabíska vorið bjó mig til,“ sagði viðmælandinn líka. „Upp úr 2011 var eins og það væri ekkert sem kalla mætti fjall, það var ekkert sem ekki var hægt að sigra.“ 11. maí 2001 voru 52 egypskir karlar handteknir eftir gleðskap um borð í ferjunni Queen Boat sem lá við Nílarbakka. Allir voru ákærðir fyrir „siðspillingu“ — samkynhneigð — og tæpur helmingur þeirra á endanum dæmdur í þriggja til fimm ára fangelsi og þrælkunarvinnu. Queen Boat- málið vakti athygli í egypsku pressunni — en aðallega hneykslan. Alls engin samtök eða einstaklingar stigu fram og töluðu máli hinna handteknu „siðspilla“. Nú er öldin önnur. Samtök hinsegin fólks eru starfrækt í velflestum Arabalöndum. Þau eru misformleg, misopinská, mishávær. En þau eru til og þau vinna mörg saman þvert á landamæri og eru sömuleiðis í tengslum við önnur baráttusamtök í heimalöndum sínum, sem styrkir stöðu þeirra. Ekki löngu eftir að herferð egypskra yfirvalda gegn hinsegin fólki í kjölfar Mashrou’ Leila-tónleikana hófst haustið 2017 tóku 50 samtök víðs vegar að sig saman og gáfu út yfirlýsingu sem fordæmdi aðgerðirnar. Slíkt hefði verið óhugsandi árið 2001. Víðar en í Egyptalandi hefur einhver árangur náðst. Árið 2015 mættu, til dæmis, 56 marokkóskir lögfræðingar í dómssal þar í landi til að styðja málstað trans konu sem múgur fólks hafði ráðist á og gengið í skrokk á. Vissulega er langt í land. En ekki eintómt svartnætti. Enn föst í fangelsinu „Það verður gleðiganga í Egyptalandi. Á endanum. Það tekur bara tíma.“ Þetta sagði Ahmed Alaa við útsendara Buzzfeed News sem mætti með honum í gleðigönguna í Toronto í Kanada 2018. Þar gat Alaa aftur veifað regnbogafánanum, óttalaus. Hann og Sarah Hegazi flúðu bæði heimalandið eftir fangelsisdvölina og fengu hæli í Kanada, Alaa með hjálp samtakanna Rainbow Railroad, sem hjálpa hinsegin fólki að flýja lönd þar sem það sætir ofsóknum. Sarah Hegazi hélt áfram baráttu úr útlegðinni. Hún skrifaði reglulega greinar í arabísk rit — ekki bara um málefni hinsegin fólks, heldur um kvenréttindi og stéttabaráttu, gegn kapítalisma og heimsvaldastefnu, hún skrifaði um mannréttindi og samfélagsmál á víðum grundvelli, og hún orti ljóð og var að skrifa bók. En hún átti erfitt með að finna sig í kanadísku samfélagi. Þar hún gat lifað lífi sínu óttalaust en minningar úr fangelsinu ásóttu hana, hún glímdi við þunglyndi, kvíða og martraðir. Hún var greind með áfallastreituröskun. Meðferð bar lítinn árangur. „Ég vil komast yfir þetta og ég vil gleyma,“ sagði hún í viðtali við kanadíska ríkisútvarpið CBC árið 2018. „En nei, ég er enn föst í fangelsinu“. Rúmu ári eftir tónleikana í Kaíró skrifaði hún um líðan sína í arabískt vefrit: „Ég stamaði — ég var hrædd. Ég gat ekki farið út úr herberginu mínu, ég forðaðist mannamót, forðaðist að koma fram í fjölmiðlum, því ég missti svo oft fókus og fannst ég týnd, yfirkomin af löngun í þögn. Þetta var ofbeldið sem ríkisvaldið beitti mig, með blessun hins „náttúrulega trúaða“ samfélags.“ Og hún var einmana. Saknaði fjölskyldu og vina heima í Egyptalandi. Móðir hennar lést og hún gat ekki farið heim. „Heima er ekki land eða landamæri. Það er fólkið sem þú elskar. Hér í Kanada hef ég engan, enga fjölskyldu, enga vini. Svo ég er ekki hamingjusöm hér,“ játaði hún í viðtalinu við CBC. Hana dreymdi um að snúa á endanum aftur og halda baráttunni áfram, verða samfélaginu til góðs, en treysti sér ekki til þess. „Hvernig á ég að komast af í samfélagi sem er byggt á hatri á öllum sem eru ekki karlkyns, gagnkynhneigður Súnní-múslimi eða stuðningsmaður stjórnvalda? Allir aðrir eru kúgaðir,“ sagði hún. „Ég hef ekki gleymt misréttinu sem gróf svarta holu í sál mína og skildi hana eftir blæðandi — holu sem læknum hefur ekki tekist að græða.“ Hún reyndi tvisvar að svipta sig lífi, og í þriðja sinn tókst henni það. Þrettánda júní 2020 fannst Sarah Hegazi látin á heimili sínu í Toronto. Hún var þrítug. Vinur hennar Ahmed Alaa býr enn í Kanada og hefur heitið því að halda áfram að berjast í hennar nafni. Eins og margir hafa raunar gert eftir andlát hennar. Haldnar voru minningarathafnir um Söruh Hegazi víða um heim — í Lundúnum, Berlín, New York, Beirút. Hamed Sinno, söngvari Mashrou’ Leila, tók þátt í athöfninni í New York — hann ákvað nýlega að flytja frá Líbanon — og fór þar með nokkrar ljóðlínur eftir Hegazi. „Himinninn er sætari en jörðin. Ég vel himininn, ekki jörðina.“ Svo skrifaði Sarah Hegazi með síðustu myndinni sem hún birti á Instagram, nokkrum klukkustundum fyrir andlátið. Í stílabók hripaði hún svo einhverju síðar þrjár stuttar orðsendingar að skilnaði. Eina til systkina sinna og aðra til vina. Og þriðju sem hún stílaði einfaldlega á heiminn: „Þú varst andskoti grimmur. En ég fyrirgef þér.“ English translation of this article can be found on www. reykjavikpride.is 57

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.