Hinsegin dagar í Reykjavík - ágú. 2020, Blaðsíða 67
Tíminn breytist og
mennirnir með
ÖRVIÐTAL
Nafn, fornafn, aldur
Birna Hrönn Björnsdóttir, hún, 35 ára.
Hvenær fórstu fyrst í gleðigöngu?
Ætli það séu ekki að verða 19 ár. Fyrsta skiptið
var ég ennþá inni í skápnum og fannst það
ofsalega óþægilegt, leið eins og allir vissu að
ég væri lesbía af því að ég var þarna og vildi
helst bara drífa mig heim. Eftir að ég var komin
út úr skápnum hlakkaði ég svo til að ég hélt
ég myndi springa. Síðan þá hef ég gengið
á hverju ári og gleðigöngudagur er alltaf
uppáhaldsdagurinn minn á hverju ári.
Hefur þú farið í gleðigöngu annars staðar en
á Íslandi?
Já, ég hef gengið í pride-göngunum í Osló
og Kaupmannahöfn og svo gerðum við
heiðarlega tilraun til að taka þátt í göngunni í
Barcelona þar sem Weather Girls áttu að koma
fram á stóra sviðinu. En í stað þess að rigna
mönnum, þá rigndi bara eldi og brennisteini,
þátttakendur í göngunni leituðu skjóls á börum
og kaffihúsum og Weather Girls stigu ekki á
stokk. Mér fannst eilítil kaldhæðni í því.
Hver er þín uppáhaldsminning tengd
Gleðigöngunni og hvaða ár var það?
Það eru nýjar minningar á hverju ári sem eru
uppáhalds, að sjá fjölskyldu og vini flykkjast
í bæinn og taka þátt í hátíðahöldunum.
Vinahópurinn minn tók þátt saman í nokkur ár
og þá gengu foreldrar mínir, bróðir og amma
með vagninum, það bætti heldur betur á
gleðina að ganga með þeim.
Önnur er þegar ég var í forsvari fyrir
Ungliðahóp Samtakanna '78 um árabil, ég var
mjög ákveðin í að hópurinn tæki alltaf þátt í
göngunni og skipulagði pride-atriðið okkar á
hverju ári. Eitt árið vorum við frægir hinsegin
einstaklingar og það voru tveir í hópnum sem
voru ekki alveg komnir út en vildu ganga með,
þeir voru því í búningum þar sem sást ekki
í andlit þeirra. Það kom okkur öllum í opna
skjöldu þegar í miðri göngu á Laugavegi þeir
sviptu hulunni af andlitinu og voru sýnilegir.
Gleðin og stoltið sem lá í loftinu veitti þeim
styrk og löngun til að taka þetta skref og
fagnaðarlætin sem brutust út í hópnum voru
rosaleg.
Hvers vegna gengur þú?
Þetta er ólýsanleg tilfinning, að taka þátt í
þessari göngu, ég held að það kristallist í
slagorði hátíðarinnar í ár, stolt í hverju skrefi.
Ég fagna því hver ég er, að ég fái að vera eins
og ég er og fyrir sýnileikann. Það skipti mig
svo miklu máli þegar ég sá gönguna eftir að ég
kom út úr skápnum að sjá og upplifa gleðina
og stoltið sem einkenndi þátttakendur, ég vissi
að ég vildi upplifa það sama.
Þegar skyggnst er til baka þá er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið
tækifæri til að taka þátt í Hinsegin dögum þó svo að sá beiski bikar, að halda utan
um budduna, hafi orðið minn. Fundirnir í samstarfsnefnd um Hinsegin daga í
árdaga voru oft langir og stundum erfiðir, ólík sjónarmið voru uppi og fundað
var vikulega. Fjármögnun hátíðarinnar var í upphafi erfið. Fyrirtækin stóðu ekki í
biðröð eftir að auglýsa en ekki leið þó á löngu uns tryggingafélag og banki styrktu
Hinsegin daga með rausnarlegu framlagi.
Verslunar- og veitingahúsaeigendur í miðbænum reyndust fyrstu árin mikilvægt
hryggjarstykki við fjármögnun hátíðarinnar. Þeir keyptu auglýsingar og
regnbogafána af Hinsegin dögum og þekktir lista- og stjórnmálamenn lögðu sín lóð
á vogarskálarnar þegar kom að fánasölunni. Hér gafst þeim líka kjörið tækifæri til að
komast í beint og milliliðalaust samband við kjósendur sína og/eða aðdáendur.
Ólíkt því sem þekktist víða annars staðar í heiminum urðu Hinsegin dagar í
Reykjavík að fjölskylduhátíð þar sem ekki sást vín á nokkrum manni. Salan á
regnbogavarningnum var að mínu mati mikilvæg, sér í lagi fyrir manninn sem
hélt utan um budduna. Samþykki og stuðningur samfélagsins skiptu þó meiru
sem birtist skýrast í því að fjölskyldur þessa lands veifuðu nú regnbogafánum. Orð
Gunnars á Hlíðarenda við Njál á Bergþórshvoli ná vel utan um tilfinningar mínar,
gamla gjaldkerans, þegar hann rifjar upp veru sína í samstarfsnefnd Hinsegin daga:
„Góðar eru gjafir þínar, en meira þykir mér verð vinátta þín og sona þinn.“
67