Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2020, Side 77

Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2020, Side 77
að nefna réttindi intersex fólks og trans fólks. Einnig þeirra sem sæta fjölþættri mismunun vegna þess að þau tilheyra fleiri en einum jaðarsettum hópi. Eftir Hrunið 2008 fór fram fallegt ferli þar sem skrifuð var ný stjórnarskrá fyrir Ísland. Það hófst með 950 manna þjóðfundi í Laugardalshöll þar sem fólk af öllum aldri, kynjum og víðs vegar að af landinu hittist í heilan dag til að ræða þau gildi sem ættu að liggja nýju stjórnarskránni til grundvallar. Ferlið sem við tók var gegnsætt og opið og almennir borgarar gátu tekið þátt í því. Að lokum var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um nýju stjórnarskrána árið 2012 og þar sögðu 2/3 kjósanda að hún ætti að vera lögð til grundvallar sem stjórnarskrá Íslands. Alþingi hefur ekki orðið við vilja kjósenda í þessu máli enn sem komið er og það er mjög alvarlegt mál því nýja stjórnarskráin tekur meðal annars á ýmsum málum sem tengjast mannréttindum og baráttu okkar allra til þess að fá raunverulega að sitja við sama borð. Í nýju stjórnarskránni, samfélagssáttmálanum sem fulltrúar ólíkra hópa íslensku þjóðarinnar sömdu sem leikreglur fyrir valdhafana og grunnlögin okkar, er lögð áhersla á náttúruvernd, mannréttindi og temprun valds. Þar kemur fram að óheimilt sé að mismuna á grundvelli kynhneigðar og fötlunar en þessi orð eru ekki talin upp í jafnræðisreglu gildandi stjórnarskrár. Þá er kveðið á um það að öllum skuli tryggður réttur til að lifa með mannlegri reisn og að margbreytileiki mannlífs skuli virtur í hvívetna. Einnig er fjallað um ofbeldi með orðunum: „Öllum skal tryggð mannhelgi og vernd gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan.“ Sú gamla danska stjórnarskrá sem við burðumst nú með nefnir ekkert af ofangreindu. Við komumst ekki lengur upp með að leyfa eiginhagsmunum að valta yfir hagsmuni heildarinnar. Mannréttindi mega sín lítils ef við förum ekki að hlúa að náttúrunni og umhverfinu þannig að réttindi komandi kynslóða til lífs séu tryggð til framtíðar. Þess vegna verndar nýja stjórnarskráin náttúruna og kveður á um að auðlindirnar okkar séu þjóðareign og eðlilegt gjald beri að greiða fyrir nýtingu þeirra. Við þurfum nýja stjórnarskrá og því leyfum við aðgangsorðum hennar að vera síðustu orðin: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu. Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum. Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis. Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni. Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“ Katrín Oddsdóttir mannréttindalögfræðingur Helga Baldvins Bjargardóttir, lögfræðiráðgjafi Samtakanna ’78 ÖRVIÐTAL Nafn, fornafn, aldur Alda Villiljós, hán, 32 ára. Hvenær fórstu fyrst í gleðigöngu? Löngu áður en ég kom út fyrir sjálfu mér, hvað þá öðrum – ég man að í síðustu bekkjum grunnskóla fórum ég og vinkona mín og gengum á eftir göngunni niður Laugaveginn því okkur fannst það svo gaman og fórum alltaf til að sýna stuðning. Ég tók svo þátt í göngunni sjálfri í fyrsta skipti 2014, en þá sótti ég um löngu eftir að fresturinn rann út og fékk pínulítið pláss á milli atriða til þess að dreifa litlum miðum með upplýsingum um það hvað kynsegin væri. Við prentuðum allt of fáa út, svo eftir að við kláruðum þá gekk ég restina af göngunni með Intersex Íslandi. Hefur þú farið í gleðigöngu annars staðar en á Íslandi? Ég fór einu sinni sem áhorfandi í London, og það var svo yfirþyrmandi mikið af fólki og mikið kraðak að ég gafst eiginlega upp strax, enda gat ég ekki séð neitt af göngunni sjálfri! Ég bjó í nokkur ár erlendis en kom eiginlega alltaf heim til Íslands í júní, svo ég missti alltaf af göngunum úti – og var oft farið út aftur í ágúst og missti þá af göngunni hér. Hver er þín uppáhaldsminning tengd Gleðigöngunni og hvaða ár var það? Það er erfitt að velja, því í hvert skipti er það svo magnað og töfrum líkast að ganga, sama með hverjum það er! Ætli eftirminnilegasta atriðið sé samt ekki þegar Trans Ísland gekk með líkkistu og stóran borða sem stóð á „Þögnin drepur“. Bæði fannst mér það ótrúlega áhrifamikið, en að auki var ótrúlega erfitt að ganga alla leið án þess að vera skælbrosandi allan tímann! Við vildum öll vera alvarleg eins og við værum við alvöru útför. Fyrir undirbúninginn fyrir atriðið var líka fyndið að nálgast bróður minn, sem hafði smíðað líkkistu nokkrum árum áður fyrir myndlistarverkefni, og spyrja hvort hann ætti hana ennþá, og hvort Trans Ísland mætti fá hana lánaða! Hvers vegna gengur þú? Eitt af aðalmarkmiðunum mínum í lífinu núna er að vera sú manneskja sem ég hefði sjálft þurft á að halda á yngri árum, og fyrir það markmið finnst mér ótrúlega mikilvægt að geta verið sýnilegt og opið varðandi mína kynímynd og upplifun af kyni. Svo að stórum hluta geng ég til að auka sýnileika fólks sem brýtur hefðbundnar ímyndir fólks varðandi kyn og til að styðja við það félag sem ég geng með í þeirra atriði og skilaboðum. Annar stór hluti er sá að mér finnst gleðigangan ótrúlega mikilvæg kröfuganga, enda eigum við ennþá langt í land með að ná fullum réttindum hinsegin fólks, bæði hérlendis og annars staðar. En auðvitað er hluti af því líka af því að það er svo stórkostleg upplifun að ganga með hinsegin stórfjölskyldunni minni og sjá allt fólkið koma til þess að fagna okkur og með okkur. Það tók mig rosalega mörg ár að sætta mig við eigin hinseginleika og það er ólýsanleg upplifun fyrir bæði mig og barnið innra með mér að taka þátt í þessari ótrúlega mikilvægu göngu. 77

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.