Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2020, Side 81
ÖRVIÐTAL
Nafn, fornafn, aldur
Þorvaldur Kristinsson, hann, 70 ára.
Hvenær fórstu fyrst í gleðigöngu?
Ég var formaður Hinsegin daga í
Reykjavík á árunum 2000–2012 og í
hópi þeirra sem stóðu að undirbúningi
fyrstu gleðigöngunnar árið 2000.
Síðan gekk ég þar alltaf á meðan ég
lagði undirbúningi hátíðarinnar lið.
Enn geng ég í gleðigöngu í Reykjavík
en hef þó stöku sinnum boðað forföll
og þykir miður því að ég lít á þátttöku
mína sem þegnskyldu.
Hefur þú farið í gleðigöngu annars
staðar en á Íslandi?
Já, ég gekk fyrst í hópi lesbía
og homma í Kaupmannahöfn á
Christopher Street deginum, 27. júní
1981. Næst gekk ég í voldugri göngu
á Frigörelsesveckan í Stokkhólmi 1983
og hér og þar í Evrópu síðar, t.d. í
Ljubljana 2013 og París 2018. Fyrstu
göngurnar sem ég tók þátt í voru
annars konar en þær sem við þekkjum
í dag, meira í ætt við dæmigerðar
kröfugöngur, stilltari og lágværari
en um margt pólitískari en göngur
nútímans. Þær voru af svipuðum toga
og göngurnar sem Samtökin ’78 efndu
til 1993 og 1994 og ég tók þátt í.
Hver er þín uppáhaldsminning
tengd Gleðigöngunni og hvaða ár
var það?
Það var augnablikið þegar ég kom fyrir
hornið á Rauðarárstíg og Laugavegi við
upphaf göngunnar árið 2000. Vikurnar
á undan voru miklar efasemdir uppi
um það hvort fyrsta gleðiganga
Hinsegin daga stæði undir nafni, hvort
við yrðum ekki bara að athlægi. En
handan við hornið á Hlemmi mættu
okkur þúsundir gesta á gangstéttinni,
komnar til að sýna samstöðu. Ég sem
aldrei felli tár á almannafæri, þarna
táraðist ég og skildi að strit fyrri ára
hafði þrátt fyrir allt skilað nokkrum
árangri.
Hvers vegna gengur þú?
Í nafni samstöðu og vináttu, með
málstað homma, lesbía, trans fólks
og annarra sem fylkja sér undir
regnbogafánann, gegn grimmdinni
og niðurlægingunni sem ekki sér fyrir
endann á víða um heim. Svo geng
ég auðvitað í von um að hitta unga
og aldraða vini sem komið hafa að
mannréttindabaráttu okkar.
Samfélagssáttmáli
– í okkar höndum
Sprittum hendur
Verum skilningsrík, tillitssöm,
ATH
viðburðir geta tekið
breytingum vegna
fjöldatakmarkana og
tilvísana landlæknis