Börn og menning - 2018, Síða 25
25
kvikmyndum, heldur er hann ropandi og raupsamur og
nennir varla að sinna hlutverki sínu.
Guðirnir eru flestir tvívíðar persónur og breyskleikar
þeirra og eiginleikar eru ýktir til að gera þá hlægilegri.
Fullorðna fólkinu í raunheimum er lýst á sama hátt,
foreldrar Úlfs og Eddu eru kómískar aukapersónur,
pabbinn Brynjólfur hefur óraunhæfa drauma um að
verða meistarakokkur og mamman Unnur er leiðsögu-
maður en gjörn á að villast. Eins og oft vill verða um
foreldra í slíkum bókum eru þeir að mestu óafvitandi
um ævintýri barna sinna og þeirra helsta hlutverk er
að vera efni í brandara og að hafa áhyggjur af afdrifum
barnanna. Hið sama gildir um lögreglumenn sem koma
fyrir í annarri bókinni, þeir eru hjákátlegir og virðast
ekki ráða við verkefni sín.
Sjónarhornið liggur hjá börnunum tveimur og því
verður Edda, sem er ellefu ára í fyrstu bókinni, þroskað-
asta persónan. Úlfur, sem er sjö ára, lítur mjög upp til
hennar og vill líkjast henni. Amma Edda er eina full-
orðna manneskjan sem virðist tala við þau eins og jafn-
ingja og taka tillit til þeirra og verður því sú eina sem fær
að vita um ævintýri þeirra. Hið sama gildir um guðina
sem líta flestir á börnin sem verur sem þeir geti ráðskast
með en þurfi ekki að hlusta á. Úlfur og Edda vingast því
við jaðarverur, sem ekki fá mikið rými í hefðbundnum
goðsögum og eiga að lúta boðum guðanna, en eru börn-
unum velviljaðar og kunna vel að meta athygli og vin-
áttu þeirra. Úlfur vingast við Fenrisúlf, sem hann kallar
Fúffa, hjálpar honum að losna við sverðið sem er í kjafti
hans og kallar hann besta vin sinn. Aðrar verur launa
börnunum vel vinargreiða, eins og drekinn Níðhöggur,
en þau losa hann við ónýta tönn, Miðgarðsormur, sem
þau losa við öngulinn sem verið hefur í munni hans frá
því í veiðiferð Þórs, og jötunninn Mímir sem gleðst yfir
því að geta loks talað við einhvern um sorgir sínar.
Sá guð sem leikur stærsta hlutverkið í bókunum
þremur er Loki, sem verður aðalandstæðingur Úlfs og
Eddu. Loki er þjófurinn sem börnin elta til Ásgarðs.
Hann vill öðlast völd og virðingu meðal guðanna en
gengur það illa og Úlfur og Edda reynast hafa roð við
honum. Þótt Loki sé illgjarn og börnin óttist hann, þá
er ógn hans minnkuð með því að gera hann spaugi-
legan, til að mynda hefur hann ekki fullt vald á öllum
þeim göldrum sem hann reynir að fremja. Tilraunir
Loka til að öðlast virðingu í goðheimum ganga illa.
Edda veltir fyrir sér af hverju hann haldi ekki fremur til
í raunheimum, þar sem hann var í mannlegu dulargervi
sínu mjög virtur og allt í öllu í Skálholti.
Goðsögur eru fléttaðar lipurlega inn í frásögnina.
Sjaldnast er um beinar endursagnir að ræða heldur er
úrvinnslan og nálgunin oft frumleg og þær verða hluti
sögunnar, en ekki augljós tilraun til uppfræðslu. Ein
athyglisverðasta nálgunin er í lýsingum á Iðunni, sem
var rænt af jötninum Þjassa sem brá sér í arnarham og
flaug með hana til heimkynna sinna. Henni var svo
bjargað af Loka í fálkaham, en er eftir þessa lífsreynslu
þjökuð af miklum ótta við fugla sem háir henni mjög
í daglegu lífi. Hér er bætt við þá frásögn sem birtist í
Snorra-Eddu og afleiðingar atburðanna á gyðjuna rann-
sakaðir. Á svipaðan hátt er fjallað um systkinin Þjálfa
Úlfur og Edda í goðheimum