Börn og menning - 2018, Side 39
… aldur vera afstæður – að minnsta
kosti þegar kemur að bóklestri. Ég hef
allavega hvað eftir annað rekið mig á
að það virðist oft vera lítil fylgni milli
þess fyrir hvaða aldurshóp bækur eru
markaðssettar og hverjir lesa þær í raun
og veru.
Þegar ég var barn las ég auðvitað
mikið af barnabókum en ég las líka
heilu fjöllin af fullorðinsbókum. Ef
mig vantaði eitthvað að lesa fór ég
iðulega í bókahillurnar heima og las
skáldsögur sem mamma átti og svo tók ég líka alls
konar bækur á bókasafninu. Ég man sérstaklega eftir
því að bókasafnsvörðurinn í Melaskóla var stundum
að segja mér að vera ekkert að lesa sumt af því sem ég
fékk lánað en ég hlustaði ekkert á hana og hélt mínu
striki, enda þótti mér heimur hinna fullorðnu miklu
meira spennandi áður en ég varð fullorðin og hafði að-
gang að honum sjálf. Fyrir vikið uppgötvaði ég margar
gersemar sem lifa með mér enn í dag en auðvitað fóru
sumar bækurnar fyrir ofan garð og neðan eins og geng-
ur. Minnisstæðast er smásagnasafn eftir Milan Kundera
sem fjallaði um vínsmakkara og konur sem voru berar
að neðan í matarboðum sem ég skildi lítið í, níu ára
gömul.
Þannig að ég las sem sagt „fullorðinsbækur“ þegar ég
var barn en núna þegar ég er orðin fullorðin er stór hluti
þess sem ég les mér til ánægju bækur sem eru markaðs-
settar fyrir börn og unglinga. Og ég er ekkert einsdæmi.
Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að meirihluti lesenda
svokallaðra YA-bóka (eða Young Adult bóka) er eldri en
átján ára. Einhvers staðar las ég meira að segja að stærsti
lesendahópur þeirra séu miðaldra konur.
Ég hef svo líka skrifað nokkrar bækur. Þegar ég byrj-
aði að skrifa var ég ekki með neinn
ákveðinn markhóp í huga nema sjálfa
mig. Mig langaði að skrifa bækur sem
ég myndi sjálf vilja lesa. Og svo var
mér sagt að þær væru ungmennabæk-
ur og þær hafa flestar verið markaðs-
settar sem slíkar. En eitt af því fallega
við að búa í litlu samfélagi/nettengdu
samfélagi er að við rithöfundar heyr-
um töluvert í lesendum okkar. Og ég
get ljóstrað því upp hér að það eru alls
ekki bara ungmenni eða unglingar
sem lesa bækurnar mínar. Og þar að auki er eina bókin
sem ég hef skrifað sem var gefin út sem „fullorðinsbók“
nokkuð víða lesin í fyrstu bekkjum menntaskóla – af
unglingum.
Ég skil hvers vegna mörgum finnst hentugt að flokka
bækur í alls konar flokka. Það einfaldar vissulega lífið
fyrir markaðsdeildir forlaga, bókasafnsverði og starfs-
fólk bókabúða. Og þegar ömmur og afar koma og
ætla að kaupa jólagjafir fyrir 14 ára barnabarn getur
auðvitað verið gott að fá einhver viðmið og það getur
stundum auðveldað lesendum að finna efni við hæfi.
Hættan er hins vegar sú að um leið og við setjum bók
í tiltekinn aldursflokk þá útilokum við stóran hóp af
mögulegum lesendum. Það er til dæmis ekkert rosalega
spennandi fyrir sextán ára ungling að lesa bók sem er
merkt fyrir 12–14 ára á kápunni, þótt þessi bók myndi
samt kannski hitta beint í mark og sé akkúrat bókin
sem unglingurinn er að leita að. Og það er vandamálið
við flokkunina. Við erum svo ólík. Aldur er afstæður.
Börn þroskast í stökkum og það gera fullorðnir líka.
Sumir lesa „fullorðinsbækur“, aðrir „barnabækur“, enn
aðrir „ungmennabækur“ – og sumir lesa þetta allt til
skiptis, alveg sama hvað þeir eru gamlir.
Hildur Knútsdóttir
„Mér finnst …“ lýsir skoðunum höfunda fremur en ritstjórnar eða stjórnar IBBY samtakanna.
Mér finnst …
Höfundur er rithöfundur