Fréttablaðið - 28.08.2021, Side 20

Fréttablaðið - 28.08.2021, Side 20
Mikill RÚV-ari Sigmar telur sennilegt að velgengni hans í ræðuliði FG hafi valdið því að hann fékk tækifæri í útvarpi hjá Aðalstöðinni og síðar X-inu. Skömmu síðar var hann ráðinn til RÚV þar sem hann hefur verið allar götur síðan, ef frá er talið tveggja ára stopp hjá Stöð 2. „Ég er mikill RÚV-ari. Þarna er stór hluti af mínu vinamengi og ég tek það inn á mig ef við fáum gagn- rýni sem ég tel ósanngjarna,“ segir Sigmar. „En þar sem ég hef starfað á einkamiðlum líka þekki ég það sjónarmið að erfitt sé að keppa við Ríkisútvarpið. Það er erfitt að keppa við Ríkisútvarpið og fólk á Ríkis- útvarpinu veit hversu mikil yfir- burðastaða þetta er.“ Ríkisútvarpið var dregið inn í umræðu um fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur á liðnu þingi og sitt sýnist hverjum um veru þess á auglýsingamarkaði. Sigmar segist ætla að taka fullan þátt í umræðum á þingi um fjölmiðla, tjáningarfrelsi og stöðu RÚV verði hann kjörinn. „Það þarf að styrkja einkarekna miðla en ég tel ekki rétt að veikja RÚV. Þá veikjum við samfélagið allt,“ segir hann. Á f jölmiðlaferli sínum hefur Sigmar farið um víðan völl. Hann hefur stýrt fréttaskýringaþáttum, spurningaþáttum, viðtalsþáttum, vísindaþáttum og meira að segja lýst Eurovision. „Að prófa eitthvað nýtt er það sem hefur haldið mér gangandi í öll þessi ár,“ segir Sigmar. „Ég hef sagt nei við verkefnum, en almennt reyni ég að hafa opinn huga þegar verkefnin bjóðast.“ Rakst á vegg Sigmar hefur háð sína baráttu við alkóhólisma og farið í nokkrar áfengismeðferðir. Þegar hann lítur til baka sér hann að áfengið fór aldr- ei vel í hann, ekki einu sinni til að byrja með. „Upp úr tvítugu fann ég fyrir því að þetta var orðið eitthvað meira en ásókn í hefðbundið djamm. Helgarnar voru farnar að lengjast og vanlíðanin að aukast,“ segir Sig- mar um það hvenær hann áttaði sig á því að áfengi gæti verið vanda- mál. „Áfengið var farið að stjórna mér og hafa áhrif á frammistöðu mína í vinnu og skóla. Í kringum 25 ára aldurinn rakst ég á vegg og fór í meðferð inn á Vog. Síðan þá hef ég vitað að ég sé alkóhólisti.“ Inni á Vogi fékk Sigmar fræðslu um sjúkdóminn og hann gat strax speglað alla sína hegðun í honum. Hann sá í fyrsta sinn að hann væri ekki einn að burðast með þær erfiðu tilfinningar sem fylgja alkóhólisma heldur var hann staddur í fullum sal af fólki sem var að glíma við það sama. „Flest árin síðan hef ég verið edrú en það hafa komið föll og hliðar- skref, en sem betur fer staðið stutt yfir,“ segir Sigmar. „Sjúkdómurinn hjá mér er þó þannig að þegar ég hef fallið er það alvarlegt mál og kallar á inngrip.“ Síðasta fall kom fyrir sjö árum og reyndist Sigmari nokkuð erfitt að komast á lappir aftur. En fyrir það hafði hann verið edrú í átta ár. „Mér leið mjög illa og fannst ég vera að bregðast bæði sjálfum mér og fólki í kringum mig. Ég bar mikla ábyrgð í vinnunni og var með ungt barn í nýju sambandi, auk eldri barna úr fyrra sambandi,“ segir Sig- mar. „Mér var bent á að ég ætti þá að kafa svolítið dýpra en ég hafði gert. Og það reyndist eitt mesta gæfuspor lífs míns.“ Misnotkun markaði djúp spor Við tók sálfræðimeðferð hjá þerap- ista sem kafaði með Sigmari ofan í æsku hans. Hófst þá verkefnið að vinna úr þeim áföllum sem Sigmar varð fyrir sem barn og hefur áður greint opinberlega frá. En þegar hann var tíu ára gamall varð hann fyrir misnotkun af hálfu manns sem tengdist skólastarfinu. Síðasta fall Sigmars kom fyrir sjö árum og þá fór hann í sálfræðimeð- ferð til þess að kafa dýpra ofan í rætur vanda síns. FRÉTTABLAÐIÐ/ HEIÐA „Allt í einu fór ég að skilja sam- hengið í lífinu mínu,“ segir Sigmar um afrakstur þessarar sálfræðimeð- ferðar. „Það er skrítið að vera orðinn miðaldra maður og hafa ekki tengt þetta tvennt saman fyrr. Að áfall sem maður verður fyrir sem barn og býr til sársauka, reiði og tilfinningar sem maður skilur ekki geti gert mann móttækilegan fyrir slökun- inni sem fylgir því að drekka. Áfeng- ið verður lausn á þeim óróleika sem heilinn er í. En sú lausn er vitaskuld aðeins tímabundin og hleður ofan á sig vanlíðan. Og maður festist í ein- hverjum vítahring og kann ekki að díla við hlutina öðruvísi en að deyfa sig.“ Sigmar sagði engum frá mis- notkuninni fyrr en löngu síðar. Hann býst þó við að foreldrar og f leiri hafi strax tekið eftir hegð- unarbreytingum hjá honum því hann varð mjög ringlaður, dró sig inn í skelina og síðar braust út reiði og alls kyns mótþrói. „Ég sagði fyrst frá þessu í með- ferð. Mér fannst ég fá svo skrýtin viðbrögð og leið svo illa að tala um þetta að ég ákvað að gera það ekki meir,“ segir Sigmar. Sem fréttamaður hefur Sigmar ítrekað fjallað um kynferðisof- beldi og eðlilega reikaði hugurinn að hans eigin reynslu þá. Taldi hann þá ranglega að þessi reynsla hefði ekki markað djúp spor og hann þyrfti ekki að tala um hana sjálfur. „Sennilega var það varnar- mekanismi. Sem er svo skrýtið þar sem ég veit, sem fjölmiðlamaður, hversu gott það er fyrir þolendur að opna sig um of beldi, fá góð við- brögð og hreyfa við umræðunni. Ég hélt ég væri sterkari en aðrir í sömu stöðu sem var auðvitað bara sjálfs- blekking.“ Sigmar segist ekki hengja alla þá ógæfu sem hann hefur orðið fyrir eingöngu á misnotkunina. Föllin hafa komið þegar hann hefur misst augun af boltanum og ekki sinnt þeim einföldu hlutum sem óvirkir alkar þurfa að gera. En við ofbeldið brast engu að síður eitthvað í lífi hans sem hefur haft mikil áhrif á hann allar götur síðan. Undanfarin ár hefur hann hins vegar unnið markvisst í þessu áfalli. Eitt hentar ekki öllum Að mati Sigmars eru áfengis- og fíknisjúkdómar alvarlegasta heil- brigðisógnin sem blasir við þjóð- inni. Þó að skilningur á þeim hafi aukist sé enn þá á brattann að sækja. „Við sáum það í umræðunni um afglæpavæðingarfrumvarpið að hluti þjóðarinnar skilur ekki að þetta sé sjúkdómur. Telja frekar að besta lausnin sé að beita refsistefnu og gera fólk að glæpamönnum frem- ur en að mæta þeim með faðminn opinn og hjálpa,“ segir hann nokkuð heitt í hamsi. Í hvert sinn sem einhver falli fyrir áfengi eða fíkniefnum hafi það mikil áhrif á maka, börn, for- eldra, systkini, vinnufélaga og jafn- vel f leiri. Heilt samfélag í kringum einstaklinginn verði sjúkt. Þessu fylgi einnig mikill kostnaður í heil- brigðiskerfinu, félagslega kerfinu og dómskerfinu. Þá eru ótalin dauðs- föll eða örkuml, annað hvort vegna slysa, ofneyslu eða sjálfsvíga. „Það er enginn sjúkdómur sem hefur jafn eyðandi áhrif. Þegar einhver greinist með krabbamein leggjast allir á eitt. En þegar ein- hver greinist með alkóhólisma getur verið að hann hafi brennt allar brýr að baki sér,“ segir Sigmar. „Þá getur reynst erfitt að biðja um og fá hjálp, oft með skelfilegum afleiðingum. Ég tel að meðferðarúrræði þurfi að vera mörg og mismunandi því að eitt hentar ekki öllum. Veikur alki getur verið svo forskrúfaður að hann er búinn að bíta það í sig að fara ekki inn á Vog til dæmis. Sú leið hentaði mér mjög vel, en maður verður að bera virðingu fyrir því að það hentar ekki öllum.“ Verðum að hlusta Umræðan um kynferðisof beldi hefur einnig sjaldan verið jafn hávær og nú og telja margir að dómskerfið hafi í gegnum tíðina brugðist þolendum. Sönnunar- byrðin sé of þung. „Kerfin okkar geta ekki komist hjá því að hlusta þegar það er svona mikið ákall um breytingar. Ákæru- valdið hefur stigið skref í þessa átt með því að taka mark á annars konar sönnunargögnum en áður var gert,“ segir Sigmar, sem þekkir málaf lokkinn vel sem fjölmiðla- maður. „Umræðan er vitaskuld erfið þar sem við viljum líka að reglur réttarríkisins haldi. En það er alveg ljóst að þetta kerfi þarf að vera manneskjulegra og einn liður í því gæti verið að stytta málsmeð- ferðartímann.“ Nefnir hann dæmi úr störfum sínum þegar fjallað var um mál barnaníðingsins Karls Vignis Þor- steinssonar. „Eftir umfjöllunina fengum við hundruð símtala frá þolendu m k y n ferðisof beld is héðan og þaðan. Þetta sýndi mér hversu vandinn er stór og hversu margir hafa lent í of beldi,“ segir hann. „Þegar svona stór hluti telur að kerfið hafi brugðist verðum við að hlusta.“ Hleypur til heilbrigðara lífs Sigmar er giftur Júlíönu Einars- dóttur og eiga þau saman tvö ung börn. Þrjú á hann úr fyrra sam- bandi. Ferðalög með fjölskyldunni og útivist er það sem Sigmar elskar að gera í frítímum og ekki síst að hlaupa löng víðavangshlaup. „Ég hef sennilega alltaf verið nátt- úrubarn en kannski ekki alltaf gefið því séns,“ segir hann. „Við gerum sífellt meira af þessu. Júlíana skipu- leggur ferðir fyrir okkur, hvort sem það er upp í sumarbústað, í Þórs- mörk eða annað, því það er svo sterkt í henni að öll fjölskyldan geri eitthvað saman. Það er ekki nóg að foreldrarnir séu með áhugamál og börnin séu fylgihlutir. Ég komst til dæmis nýlega að því að átta ára barn getur léttilega gengið yfir Fimm- vörðuhálsinn og haft gaman af.“ Sigmar hefur ávallt stundað hreyfingu en víðavangshlaupin byrjuðu fyrir alvöru fyrir tveimur árum. Segist hann heltekinn af þessu sporti og lengst hafa hlaupið 50 kílómetra. Ísland, og ekki síst svæðið í kringum höfuðborgar- svæðið, bjóði upp á óþrjótandi góðar og fallegar hlaupaleiðir. „Það er fátt betra en að finna gróðurlyktina á sumrin og berj- ast aðeins við vindinn á veturna. Félagsskapurinn í kringum þetta sport er æðislegur og eftir hvert hlaup finnur maður sælutilfinn- ingu í öllum líkamanum,“ segir Sig- mar og brosir. „Þegar ég hleyp verð ég mjög meðvitaður um hvað ég er kominn langt frá flöskunni. Hvað ég er kominn langt á leiðinni til heil- brigðara lífs.“ n Upp úr tvítugu fann ég fyrir því að þetta var orðið eitthvað meira en ásókn í hefðbundið djamm. 20 Helgin 28. ágúst 2021 LAUGARDAGURFRÉTTABLAÐIÐ

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.