Fréttablaðið - 28.08.2021, Page 58
Vilborg Arna Gissurar-
dóttir fjallgöngukona er nú
á landinu til þess að taka á
móti fyrirmynd sinni, Arlene
Bloom, og sýna henni landið.
Vilborg elti ástina til Slóveníu
og hefur enn mörg járn í
eldinum.
Vilborg býr með manni sínum Ales og tveimur sonum hans í heima-landi þeirra Slóveníu. Nánar tiltekið í litlum
bæ við austustu Alpafjöllin, sem
hentar þeim báðum vel sem
atvinnufjallafólki. Vilborg og Ales
kynntust í gegnum sameiginlega
vini og höfðu spjallað saman á
netinu áður en þau hittust fyrir um
tveimur og hálfu ári.
„Þetta var ást við fyrstu sýn,“ segir
Vilborg og brosir breitt. „Ég hef nú
búið í Slóveníu í eitt ár og fyrir mig
er það breyting að vera allt í einu
komin með fjölskyldu. Fyrir mig
er þetta algjör draumur og ég svíf á
bleiku skýi.“
Einn helsti kosturinn við að búa
þarna segir Vilborg vera rólegheitin.
Þá er mjög stutt að keyra í tæknileg
og góð fjöll.
Vilborg og Ales klífa töluvert
mikið saman en þar sem Vilborg
hefur verið að ná sér eftir erfið
meiðsli hefur hún ekki farið í jafn
krefjandi verkefni og hann undan-
farið.
„Nú er ég allt í einu komin beggja
vegna borðsins. Áður fyrr var ég
alltaf sú sem fór,“ segir hún. „En ég
þekki það sem hann er að ganga
í gegnum á fjöllunum og get sýnt
honum stuðning.“
Þegar drengirnir, Rok og Lovro,
eru heima fara Vilborg og Ales
mikið með þá í göngur, skíði og
krakkavænt klifur. „Þeir sækjast
mjög í þetta.“
Erfið endurhæfing
Fyrir um ári síðan féll Vilborg á skíð-
um í Bláfjöllum og sleit krossband
og liðþófa í hné. Við tók aðgerð og
erfið endurhæfing.
„Fóturinn sofnaði og ég missti
alveg máttinn,“ segir Vilborg en hún
var á hækjum í átta vikur. „Þegar ég
loksins losnaði við hækjurnar var
vöðvaminnið farið og ég þurfti að
fara í gönguþjálfun. Skrokkurinn
mundi ekki lengur hvernig átti að
athafna sig í þeim íþróttum sem ég
stunda.“
Vilborg fann hvernig þessi erfiða
endurhæfing reyndi á þolinmæðina,
en hún tók tæpt ár. „Ég fann hvað
það var mikilvægt að hafa ástríð-
una. Eitthvað til að keyra mann í
gang. Þegar ég var komin á ról gat
ég aðeins farið upp fjöll, en þá kom
Ales og sótti mig til að fara niður,“
segir hún og brosir. „Ég er enn þá að
fínpússa þetta og ekki komin á fullt
skrið þó ég sé farin að gera allt það
sama og áður.“
Safna fyrir krabbameinsveika
Snjódrífurnar eru félagsskapur
kvenna í útivist sem Vilborg hefur
tekið virkan þátt í. Þær hafa safnað
22 milljónum króna fyrir krabba-
meinsdeildir Landspítalans með
svokölluðum Lífskraftsverkefnum.
Annars vegar að ganga yfir Vatna-
jökul á skíðum og hins vegar að
ganga á „Kvennadalshnjúk“ eins og
þær kalla hann.
Vilborg gekk í félagsskapinn
vegna vinkonu sinnar og stofnanda,
Guðrúnar Sigríðar Ágústsdóttur,
sem hefur tvisvar greinst og sigrast
á krabbameini. Fleiri í hópnum hafa
annaðhvort greinst með krabba-
mein eða eru aðstandendur. Konur
sem þekktust margar lítillega í
gegnum útivist en aðrar höfðu ekki
stundað hana af krafti.
„Mér finnst frábært að geta nýtt
þennan kraft til þess að láta gott af
sér leiða. Maður er oft máttlaus sem
Sér loftslagsbreytingarnar í rauntíma
einstaklingur en öflugt teymi eins
og þetta getur áorkað miklu,“ segir
Vilborg. Snjódrífurnar eru nú að
safna fyrir bættri aðstöðu krabba-
meinsdeildanna sem fyrirhuguð er.
Sér breytingarnar gerast hratt
Annað verkefni sem Vilborgu er
umhugað um kallast Loftslagsleið-
toginn, sem hún hefur unnið með
Salóme Hallfreðsdóttur og Hafdísi
Hönnu Ægisdóttur. Það er fræðsla
og leiðtogaþjálfun miðuð að ungu
fólki, 18 til 25 ára, til að taka afstöðu
í loftslagsmálum.
„Við fórum með þau í loftslags-
leiðangur, alvöru útivistarferð í erf-
iðum aðstæðum. Þar mátuðu þau
aðstæðurnar við það sem við fáumst
við í raunveruleikanum,“ segir Vil-
borg og nefnir dæmi. „Að klífa
klettavegg er langt út fyrir þæginda-
rammann hjá mörgum sem virkjar
fólk til að gera það á öðrum sviðum
líka. Á miðjum Skeiðarárjökli er
völundarhús ísf jalla er nefnist
Svartiskógur. Þar þarf maður að
finna leiðina í gegn og oft að bakka
rétt eins og í lífinu.“
Ungmennin skila svo af sér verk-
efni í tengslum við ferðina. Næst fer
Loftslagsleiðtoginn til Grænlands
og verður útvíkkaður til breiðari
aldurshóps.
Það er eigin reynsla Vilborgar
og návígið við náttúruna sem fékk
hana til að hafa áhuga á loftslags-
málum. „Ég hef séð hluti sem ég hélt
að væri ekki hægt að sjá á manns-
ævi,“ segir hún. „Í fjallamennsku
er oft keppt að því að verða fyrstur
til þess að komast þessa eða hina
leiðina. Nú gætum við farið að sjá
fjallgöngumenn verða þá síðustu
til að gera það því sumar leiðir eru
að hverfa.“
Vilborg minnist þess þegar hún
gekk yfir Grænlandsjökul árið 2012
og lenti þá í miklum vanda bein-
tengdum loftslagsbreytingum.
„Þegar við vorum að klára gönguna
komumst við ekki niður af jökl-
inum vegna bráðnunar. Jökullinn
var sundurskorinn af ám og við
vorum allt í einu lent í mjög hættu-
legum aðstæðum og þurftum að
kalla á þyrlu,“ segir hún. „Þegar ég
kom niður öskurgrenjaði ég af því
að þetta var prófraunin mín fyrir
suðurpólinn og mér fannst mér
hafa mistekist. En þegar vatnið á
jöklinum brast og tók með sér brú
í bænum sem við gistum í fór ég að
hugsa um hvað væri í raun að gerast
þarna.“
Hún sér veðrið breytast, tímabilin
styttast og hrun aukast í fjöllunum.
„Á hápunkti Vatnajökuls er farið
að rigna í fyrsta skipti. Ég sé mun á
jöklinum á hverju einasta ári,“ segir
hún en meðal þess sem þau í Lofts-
lagsleiðtoganum hafa gert er að búa
til reiknivél þar sem útivistarfólk
getur reiknað út kolefnisspor ferða
sinna.
Erfitt að horfa á eftir fjallafólki
Eins og annað fjallgöngufólk sló
sviplegt fráfall Johns Snorra Sigur-
jónssonar á K2 í vetur Vilborgu
mjög hart. Þetta er lítill hópur þar
sem hver fylgist vel með öðrum.
Rif jast upp annar sviplegur
atburður, það er árið 1988 þegar
tveir fjallgöngumenn, Kristinn Rún-
arsson og Þorsteinn Guðjónsson,
létust á fjallinu Pumo Ri í Nepal.
Sá atburður hafði lamandi áhrif á
fjallgöngufólk hér heima og margir
hættu að klífa erfið fjöll.
Aðspurð hvort fráfall Johns
Snorra dragi úr fólki að reyna slíkt
hið sama segir Vilborg svo ekki
þurfa að vera. „Fjallgöngufólk er
sífellt að vega og meta aðstæður og
áhættu í hverju verkefni. Það eru
hins vegar fáir sem geta speglað sig
í þessu gríðarlega erfiða verkefni, að
klífa K2 að vetrarlagi, en vissulega
eru menn sorgmæddir yfir því sem
gerðist,“ segir hún.
„Það situr alltaf með manni þegar
einhver sem maður þekkir týnir
lífi í fjöllunum,“ segir Vilborg um
John Snorra en þau höfðu kynnst
í gegnum ýmis verkefni. Til dæmis
árið 2017 þegar Vilborg kleif Eve-
rest og John Snorri Lhotse, sem eru
samliggjandi fjöll með sömu búðir.
„Þetta var rosalega sorglegt og hugur
minn er hjá fjölskyldu hans. John
Snorri var ötull í háfjallamennsk-
unni og fór víða á skömmum tíma.“
Aðspurð segist Vilborg sjálf ekki
hafa haft þennan tind, K2, á sínum
sjóndeildarhring þrátt fyrir að vera
einn af þeim þekktustu. Tengda-
faðir hennar hafi hins vegar frum-
farið leið á fjallinu á níunda ára-
tugnum.
„Í fjallamennsku löðumst við að
mismunandi fjöllum, svolítið eins
og að vera hrifin af manneskju,“
segir Vilborg. „Fjall sem mig langar
að klífa hefur Ales kannski engan
áhuga á og öfugt. Kannski er það
formið á fjallinu sem hrífur mig,
leiðin að því, saga eða menningar-
heimurinn í tilteknu landi.“
Ekki södd
Vilborg var bæði fyrst íslenskra
kvenna til að ganga á suðurpólinn
og klífa Everestfjall, auk fjölda
annarra stórra tinda inn á milli.
Aðspurð hvort hún sé orðin södd
af viðlíka verkefnum segir hún svo
ekki endilega vera en að hún taki
lífinu með meiri ró en áður. Hún
hafi meðal annars einbeitt sér að
því að gera viðtalsþætti í hlaðvarpi,
Fjallaspjallið.
„Ég er ekkert á leiðinni neitt
alveg strax en ég er alltaf á leiðinni
eitthvað,“ segir hún. „Nú horfi ég
frekar tíu ár fram í tímann en eitt.“
Hún segir ástríðuna enn þá til
staðar og forvitnina ekki síður.
Enn þá heilli hana tilhugsunin um
að koma á staði, til dæmis á Græn-
landi, þar sem enginn hafi stigið
niður fæti áður.
Næst á dagskrá sé hins vegar
að taka á móti fyrirmynd hennar,
Arlene Bloom. En Bloom, sem er
doktor í efnafræði, leiddi stóran
kvennaleiðangur á Annapurna í
Nepal árið 1978.
„Ferðir hennar eru kveikjan að
svo mörgu sem ég hef gert,“ segir
Vilborg. „Ég er svo mikill aðdáandi
að ég skrifaði henni og bauð henni
að koma. Ég ætla að bjóða henni að
hitta margar ungar íslenskar fjalla-
konur og skoða landið.“ ■
Kristinn Haukur
Guðnason
kristinnhaukur
@frettabladid.is
Það situr
alltaf með
manni
þegar
einhver
sem maður
þekkir
týnir lífi í
fjöllunum.
26 Helgin 28. ágúst 2021 LAUGARDAGURFRÉTTABLAÐIÐ