Þjóðmál - 01.09.2017, Blaðsíða 7
ÞJÓÐMÁL Hausthefti 2017 5
En þá að öðru, en þó í samhengi við slæmar
kerfisbreytingar. Nú hefur vinstrimeirihlutinn
í Reykjavík samþykkt að borgarfulltrúum
verði fjölgað um helming, úr 15 í 23. Hingað
til hefur verið nógu erfitt að finna nefndir
og önnur störf fyrir þá 15 sem nú sitja.
Þegar núverandi meirihluti var myndaður
var búin til sérstök nefnd, sem er með öllu
tilgangslaus, til að borgarfulltrúi Pírata hefði
eitthvað að gera á kjörtímabilinu.
Kostnaður við stjórnsýslu borgarinnar er nú
þegar um fimm milljarðar króna á ári, þar af
um þrír vegna miðlægrar stjórnsýslu. Þessi
kostnaður á eftir að aukast um hundruð
milljóna króna á ári hverju með átta borgar-
fulltrúum til viðbótar. Það er ekki aðeins
vegna launakostnaðar og annars kostnaðar
sem fylgir hverjum borgarfulltrúa. Miðlægum
verkefnum á eftir að fjölga, til verða fleiri ráð
og nefndir, utanlandsferðum á eftir að fjölga
og þannig mætti áfram telja. Það er algjör
barnaskapur að halda öðru fram. Það hefur
enginn innan borgarstjórnar viðrað hug-
myndir um að minnka kerfið í borginni.
Til upprifjunar er vert að taka fram að ný lög
um sveitarstjórnir voru samþykkt í tíð vinstri-
stjórnarinnar sem var við völd frá 2009-13,
m.a. vegna þrýstings frá samflokksmönnum
hennar í borgarstjórn. Það var því hjákátlegt
að heyra meirihluta borgarstjórnar, þ.m.t.
Dag B. Eggertsson borgarstjóra, bera því
við að borgarstjórn væri einungis að fylgja
lögum – svona eins og hún hefði bara ekkert
með málið að gera.
Reykjavíkurborg er illa stödd fjárhagslega,
skuldar mikið og nær ekki að sinna því hlut-
verki sem henni er ætlað. Fyrir utan hrokann
og yfirlætið í borgarfulltrúum meirihlutans
er almennur skortur á þjónustuvilja gagn-
vart íbúum borgarinnar. Báknið er mikið og
kostnaðurinn við það er gífurlegur. Það lagast
ekki með fleiri borgarfulltrúum, þvert á móti.
Það hafa gefist tækifæri til að snúa þessari
vitleysu við. Sigríður Á. Andersen, sem þá var
óbreyttur þingmaður Sjálfstæðisflokksins,
mælti í febrúar 2016 fyrir frumvarpi sem átti
að afnema fjölgun borgarfulltrúa. Það fékk
ekki afgreiðslu á þingi. Jón Gunnarsson,
ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála,
lagði fram sambærilegt frumvarp fyrr á þessu
ári (sem fékk heldur ekki afgreiðslu) og til
stóð að leggja fram aftur nú á haustþingi.
Sjálfstæðisflokkurinn var eini flokkurinn sem
studdi frumvarpið; aðrir flokkar voru fylgjandi
því að stækka báknið í Reykjavík.
Þeir flokkar sem hafa á síðustu árum notað
frasa um sérhagsmuni sýndu það að orð
þeirra hafa enga alvöru merkingu.
Viðreisn, Samfylkingin, Vinstri græn, Píratar
og Framsóknarflokkurinn eru öll flokkar sem
hafa hagsmuni af því að stækka báknið og
fjölga borgarfulltrúum. Með því að setja sig
upp á móti fyrrnefndum frumvörpum um
afnám á fjölgun borgarfulltrúa, eins og þeir
gerðu, gættu þeir eigin hagsmuna. Með
öðrum orðum; í þessu tiltekna máli ákváðu
allir þessir flokkar að stunda sérhagsmuna-
gæslu á kostnað útsvarsgreiðenda í Reykjavík
– sem fá reikninginn sendan síðar.
Frábær kerfisbreyting það.
Gísli Freyr Valdórsson