Strandapósturinn - 01.06.1985, Page 23
virðinga en rækti bú sitt af dugnaði og alúð. Þó minnist ég þess að
hann sá um bókavörzlu hjá Lestrarfélagi Bæjarhrepps. Það var
annað sem Kristján var þekktur fyrir. Hann fékk sér hraðskyttuvef-
stól, sem þótti mikið þarfaþing og vakti undrun og aðdáun hjá
sveitungum hans. í þessum vefstól óf hann dúka úr tvisti, allavega
litum, rúðóttum og röndóttum. Þessir dúkar voru eftirsóttir í
millipils. Þótti sú ekki kona með konum sem ekki átti millipils ofið
af Kristjáni í Bæ. Þegar konur og yngismeyjar skálmuðu um sveit-
ina í Þorrastillum eða Góuþíðum gengu þær ávallt uppbrettar, svo
bændur og yngispiltar mættu augum líta millipilsið sem þær báru
innanklæða. Pilsglöggir menn gátu þekkt frá hvaða bæ millipilsið
var, jafnvel þó þeir þekktu ekki kvenmanninn sem innan í því
leyndist.
16. Klambrar Lýður vatnsfötur
Lýður Sæmundsson bjó allan sinn búskap í Bakkaseli. Eftir að
hann brá búi fluttist hann til Borðeyrar og byggði þar yfir sig.
Stundaði hann þar smíðar meðan honum entist starfsorka. Síð-
ustu ár sín dvaldist hann hjá dóttur sinni sem búsett var í Reykja-
vík.
En Lýður smíðaði fleira en vatnsfötur. Meðan hann bjó í Bakka-
seli smíðaði hann fjölmarga rokka og seldi víða um sveitir. Var þá
algengt að rokkapóstar úr fjarlægum sveitum kæmu að Bakkaseli
og færu þaðan aftur berandi rokk, oft þó tvo, annan í bak en hinn
fyrir. Að liðnum slætti og fram yfir veturnætur dvaldi Lýður á
Borðeyri og vann þar sem beykir hjá kaupfélaginu. Vann hann
þá af kappi miklu og taldi ekki tímana nákvæmlega.
Einu sinni sem oftar var haldið ball í sláturtíðinni. Einhver gár-
unginn sagði þá við Lýð: „Ætlar þú ekki að koma á ballið?“ Þá
svaraði Lýður: „Ég er búinn að dansa við tólf tunnur í dag og mér
finnst það alveg nóg.“ Krókur var bak við sláturhúsið. Þangað
fóru menn til að kasta af sér vatni. Eitt sinn þegar Lýður kom
þangað slíkra erinda hitti hann fyrir strák og stelpu sem voru að
kyssast. Lýður mælti þá: „Snáfið þið burtu, ég þarf að pissa.“ Marg-
ar fleiri sögur mætti segja af orðheppni Lýðs. Þó skal hér staðar
numið.
21