Strandapósturinn - 01.06.1985, Side 95
siglingarnar héldu áfram, frá einu landinu til annars. Tjörnin var
úthafið og hinir ýmsu staðir tjarnarbakkanna voru önnur lönd og
þar byggðum við hafnir úr steinum og bryggjur, sem skipin gátu
lagst við og þar fór fram lestun þeirra og losun á ýmsum varningi.
Við lifðum okkur svo inn í þennan dásamlega leik, að við gleymd-
um stund og stað. Tíminn leið og dagurinn leið. Við lifðum í
heimi ævintýrisins án allrar tímaskynjunar. Og allir vorum við
sem bestu bræður. Þessir góðu drengir, ffændur okkar og vinir,
léðu okkur leikföngin sín með sér, rétt eins og við ættum þau allir
jafnt. Enginn fullorðinn átti þarna leið um. Enginn truflaði leik
okkar. Innlifun okkar í ævintýri leiksins var algjör.
Heimur okkar var allur annar en heimur veruleikans og hvers-
dagsleikans, sem fullorðið fólk verður að lifa í, svona oftast nær.
Alsælir vorum við í leik okkar, barnsleg gleði fyllti sálir okkar og
alla okkar tilveru á þessum ógleymanlega degi.
En allir dagar eiga sér kvöld. Kallað var á okkur, að koma heim
á bæinn. Við urðum að vakna upp af þessum sæla vökudraumi.
Heima á bænum biðu okkar góðgerðir, matur og drykkur. Mjög
var orðið áliðis kvölds. Fullorðna fólkið hafði viljað lofa okkur að
leika okkur sem lengst með drengjunum, og því ekki kallað á okk-
ur fyrr en þetta.
Að lokinni máltíð, þökkuðum við fyrir okkur og kvöddum fólkið
og litlu frændur okkar og leikfélaga, sem svo vel höfðu skemmt
okkur urn daginn.
Við lögðum af stað, heim á leið út með firðinum. Komið var að
lágnætti, en ekki kom það að sök, því nú var albjört sumarnótt.
Líklega hefur þetta verið í byrjun júlí.
Ekkert gerðist sögulegt, uns við komum út að Hesthömrum. Þá
sáum við að leiðin var lokuð, því komin var háflæði, djúpur sjór
var við hamrana. Við staðnæmdumst um stund, og hugleiddum
hvað gera skyldi. Faðir okkar hafði sagt okkur að ganga upp fyrir
hamrana ef ftætt væri að klettunum.
En við sáum að mjó gata eða sylla lá um klettana neðantil. Hví
ekki að reyna að komast eftir henni? Það mundi spara okkur tíma
og erfiði í stað þess að ganga upp fyrir.
Við gleymdum ráðleggingum föður okkar og lögðum leið okk-
93