Saga - 2013, Side 36
aldrei til álita heldur að hann yrði framseldur til Eistlands, Rúss -
lands eða Ísraels. Engin íslensk löggjöf um stríðsglæpi hafði verið
sett. Samkvæmt fyrningarlögum var þó unnt að sækja Eðvald til
saka fyrir morð. Hins vegar var ekki unnt að svipta hann íslenskum
ríkisborgararétti fyrir að hafa ekki sagt rétt frá fortíð sinni í umsókn
um dvalarleyfi, eins og dæmi eru um frá Bandaríkjunum. Ekkert
bendir til þess að fortíð hans hafi skipt máli þegar honum var veitt-
ur ríkisborgararéttur. Og í kalda stríðinu á Íslandi naut hann þess
að hafa barist gegn kommúnisma í heimalandi sínu.
Íslensk stjórnvöld ætluðu sér því ekki að eiga frumkvæði að
sakarannsókn eða skipa rannsóknarnefnd í málinu. Þau ákváðu þó
í mars 1992 að bregðast við ásökunum Simon Wisesenthal-stofn-
unarinnar með því að leita álits tveggja fræðimanna á sviði þjóða -
réttar og refsilöggjafar, þeirra Eiríks Tómassonar hæstaréttarlög-
manns og Stefán Más Stefánssonar prófessors við Háskóla Íslands.89
Simon Wiesenthal-stofnunin hélt þó áfram að safna gögnum um
málið. Zuroff upplýsti m.a. að stofnunin hefði aflað skjala um Mik -
son frá síðari heimsstyrjöld úr eistneskum skjalasöfnum. Meðal
þeirra voru handtökuskipanir og skýrslur um yfirheyrslur sem
hann stjórnaði þegar hann starfaði í eistnesku öryggislögreglunni.
Zuroff benti einnig á skýrslu — en ekki hafði verið vitnað til henn-
ar áður í tengslum við Mikson-málið — sem finnskur lögreglu -
maður, Olavi Viherluoto, hafði skrifað haustið 1941 eftir að hafa
hitt Mikson.90 Viherluoto hafði þá komið til Tallinn til að taka þátt
í yfirheyrslum yfir Säre og fá upplýsingar um samskipti eistneskra
og finnskra kommúnista.91 Vikublaðið Pressan birti fyrst útdrætti úr
valur ingimundarson34
89 Skjalasafn ríkissaksóknara, mál Eðvalds Hinrikssonar, 10.20. 1, bréf Davíðs
Oddssonar til Þorsteins Pálssonar, 23. febrúar 1992. Þar er fjallað um ákvörð -
unina um að leita lögfræðiráðgjafar.
90 Hluti af skýrslunni var birtur í bók Hannu Rautkallio Finland and the Holocaust:
The Resuce of Finland’s Jews. Þýð. Paul Sjöblom (New York: Holocaust Library
1987). Zuroff vísaði í þessa bók, en afrit af skýrslunni er einnig að finna í
Þjóðskjalasafni Finnlands, mál hæstaréttar, KKO 982 VD 1948. Frumrit skýrsl -
unnar hefur hins vegar ekki fundist. Og afritið var stytt útgáfa ásamt útdrætti.
Skýrslan var notuð sem sönnunargagn í réttarhöldum yfir yfirmanni finnsku
öryggislögreglunnar, Arno Anthoni, árið 1948 í þeim tilgangi að sýna fram á
að hann hefði vitað af gyðingamorðunum mun fyrr en hann hafði haldið fram.
91 Sjá Einar Sanden, Úr eldinum til Íslands, bls. 136–137. Bréf. Estonian Foundation
for the Investigation of Crimes against Humanity (Meelis Maripuu) til Vals
Ingimundarsonar 24. september 2004.
Saga vor 2013 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 8.5.2013 12:22 Page 34