Saga - 2013, Page 39
Skýrslan væri „brandari“ og bæri vitni um kattarþvott.100 Lögfræð -
ingarnir höfðu gefið í skyn að ekki væri unnt að gefa út ákæru vegna
þess að hve langt væri liðið frá því að meint brot voru framin og
vegna þess að flest gögn væru glötuð og vitni látin. En ef ekki væri
ástæða til að rannsaka málið vegna skorts á sönnunargögnum hefði
ekki verið unnt að rannsaka stríðsglæpi úr síðari heimsstyrjöld í
öðrum löndum. Á þeim tíma fóru fram stríðsglæparéttarhöld í Frakk -
landi og rannsóknir á slíkum glæpum í Bandaríkjunum, Þýska landi,
Kanada, Ástralíu og á Nýja-Sjálandi svo dæmi séu tekin.101
Ljóst var að enginn pólitískur vilji var fyrir því hjá íslenskum
stjórnvöldum að hreyfa málinu. Sumir fjölmiðlar studdu ákvörð -
unina, m.a. DV sem taldi að „annarleg sjónarmið“ hefðu ráðið ferð -
inni hjá Simon Wiesenthal-stofnuninni og valdið Eðvald og fjöl-
skyldu hans miklum sárindum.102 Aðrir deildu á athafnaleysið, ekki
síst Pressan, sem hafði birt útdrætti úr skjölum sem Zuroff hafði
aflað103 og beitt aðferðum rannsóknarblaðamennsku með því að
hafa beint samband við hugsanleg vitni. Það sama má segja um
sumar fréttir Stöðvar 2 af þessu máli.104 Ágengni Zuroffs styggði þó
ýmsa sem töldu aðferðir hans minna á nornaveiðar, og mátti greina
þá skoðun í umfjöllun sumra fjölmiðla.105
Það voru ekki aðeins fulltrúar Simon Wiesenthal-stofnunarinn-
ar sem gerðu athugasemdir við málsmeðferðina. Þótt Rússar hefðu
sýnt Mikson-málinu áhuga á kaldastríðstímanum höfðu þeir ekki
brugðist sérstaklega við þegar það kom upp að nýju eftir fall Sovét -
ríkjanna. En skýrsla lögfræðinganna varð til þess að sendiherra
Rússlands á Íslandi, Júrí Reshetov, skrifaði grein í Morgunblaðið sem
„þjóðréttarfræðingur“. Þar deildi hann á niðurstöðurnar og átaldi
ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að beita sér ekki fyrir rannsókn í
málinu. Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra brást illa við og
mikson-málið sem „fortíðarvandi“ 37
100 Morgunblaðið 14. október 1992, bls. 2.
101 Sama heimild, bls. 2.
102 Sjá t.d. „Engin galdrabrenna“, DV (leiðari) 5. október 1992, bls. 14.
103 Pressan 8. október 1992, bls. 16.
104 Þeir Karl Th. Birgisson á Pressunni og Þór Jónsson á Stöð 2 áttu mestan þátt í að
koma nýjum upplýsingum um málið á framfæri. Þór Jónsson skrifaði einnig
grein í Morgunblaðið til að andmæla frásögn Eðvalds Hinrikssonar af athöfnum
sínum á stríðsárunum, á þeim forsendum að hún stæðist ekki í veigamiklum
atriðum. Sjá „Fjöldamorðin í Eistlandi“, Morgunblaðið 26. febrúar 1993, bls.
12–13.
105 Sjá t.d. DV 5. október 1992, bls. 14.
Saga vor 2013 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 8.5.2013 12:22 Page 37