Saga - 2013, Page 55
sigríður matthíasdóttir og
þorgerður einarsdóttir
„Færar konur“
Frá mæðrahyggju til nýfrjálshyggju — hugmyndir
um opinbera þátttöku kvenna 1900–20101
Kvenréttindakonur hafa frá upphafi barist fyrir kvenréttindum á tvenns
konar forsendum. Annars vegar hafa þær beitt hugmyndum um „jafnræði“
eða að þær séu jafnar körlum t.d. að hæfileikum og getu. Á hinn bóginn
hafa þær notað rök sem snúast um „sérstöðu“ þeirra og sérstakt samfélags-
legt hlutverk og séreiginleika. Á tímabilinu sem hér er til skoðunar toguðust
þessar forsendur á og leiddu til hugmyndalegrar þverstæðu sem reynst hef-
ur illleysanleg. Bornar eru saman hugmyndir um opinbera þátttöku kvenna
frá fyrstu áratugum 20. aldar til byrjunar þeirrar 21. Sjónum er beint að þátt-
töku kvenna í opinberu lífi, í opinberum nefndum, ráðum og stjórnum, og
á vinnumarkaði. Rannsóknin sýnir m.a. að eftir að borgaralegum réttindum
var náð var farið að túlka jafnræðisrökin svo að þau hefðu í för með sér mis-
munun gagnvart körlum, enda hefði formlegu jafnrétti kynjanna verið náð.
Þá er það meginniðurstaða að í umræðunni um opinbera þátttöku kvenna
hafi skilgreining á „hæfni“ ekki tekið mið af eiginleikum sem teljast kven-
legir.
Krafa kvenna um samfélagslega hlutdeild, „kvenréttindastefnan“,
er án efa ein af mikilvægustu hugmyndafræðilegu stefnum í sögu
aldarinnar sem leið. Markmið þessarar greinar er að bera saman
hugmyndir um opinbera þátttöku kvenna á nokkrum tímabilum
sögunnar, allt frá fyrstu tveimur áratugum 20. aldar til byrjunar
þeirrar tuttugustu og fyrstu. Tilefni þess samanburðar eru tveir
Saga LI:1 (2013), bls. 53–93.
1 Grein þessi byggist á hugmyndum sem við höfum þróað í eftirfarandi bókum
og greinum: Sigríður Matthíasdóttir, Hinn sanni Íslendingur. Þjóðerni, kyngervi og
vald á Íslandi 1900–1930 (Reykjavík: Háskólaútgáfan 2004), og „Lige stillingen“,
Män i Norden. Manlighet och modernitet 1790–1940. Ritstj. Jørgen Lorentzen og
Claes Ekenstam (Stokkhólmur: Gidlunds Förlag 2006), bls. 229–258; Þorgerður
Einarsdóttir, „Kreppur og kerfishrun í ljósi kyngerva og þegnréttar“, Íslenska
þjóðfélagið I (2010), bls. 27–48. Þá byggist greinin að hluta á fyrirlestri sem
haldinn var hjá Sagnfræðingafélagi Íslands 5. apríl 2011, í fyrirlestraröðinni
„Hvað er kynjasaga?“
Saga vor 2013 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 8.5.2013 12:22 Page 53