Saga - 2013, Qupperneq 63
bæjarstjórnar, skuli konurnar ekkert vera kvaddar að þessum mál-
um“. Rökstuddi stjórnin mál sitt ítarlega og bar fram þá tillögu að
„sett verði sérstök nefnd skipuð bæði færum húsmæðrum eða hús-
stjórnarkennslukonum og karlmönnum, sem bæði landsstjórnin og
hinar dýrtíðarnefndirnar geti snúið sér til, þegar um einhver þau mál
er að ræða, sem nánast snerta heimilin.“18 Reynsla og þekking kvenna
var að áliti félagsins nauðsynleg til að fást við það ástand sem upp var
komið í landinu, en þessir þættir sköpuðu þeim slíka sérstöðu að ekki
væri hægt að ganga fram hjá þeim við lausn vandans.
Bjargráðanefnd efri deildar Alþingis tók málinu vel, en það var
fellt í neðri deild eftir nokkrar umræður.19 Bríet Bjarnhéðinsdóttir
sat aftur á móti sjálf í bæjarstjórn Reykjavíkur á þessum tíma og
lagði þar einnig fram tillögu í samræmi við áskorun Kvenréttinda -
félagsins. Miklar umræður urðu um málið og lyktaði þeim með því
að svohljóðandi tillaga frá Knud Zimsen borgarstjóra var samþykkt:
„Bæjarstjórnin ályktar að kjósa 5 manna nefnd, er skipuð sé konum,
til þess að leiðbeina heimilum um sparnað í dýrtíðinni og hag -
nýtingu matvæla og eldsneytis. Nefndin skal því aðeins skipuð, að
þær konur utan bæjarstjórnar, sem bæjarstjórnin kýs, vilji taka að sér
kauplaust það starf, sem nefndarmönnum er ætlað“.20 Þessar mála-
lyktir voru kvenréttindakonum ekki að skapi og neituðu þær að
taka sæti í nefndinni þar eð þeim þótti ljóst að hún yrði valdalaus.21
Í stuttu máli rökstuddu konurnar kröfuna um þátttöku í dýrtíðar-
nefndum með tilvísun í þekkingu sína og hæfni sína sem hús -
mæður. Alþingi synjaði þeirri kröfu, en mótleikur bæjarstjóra Reykja -
víkur var að skipa konur kauplaust í nefnd sem sýnt þótti að hefði
lítil eða engin völd.
Kenningar um „jafnræði“ og „sérstöðu“ varpa athyglisverðu
ljósi á þessa atburðarás. Vart leikur vafi á að Knud Zimsen og bæjar -
„færar konur“ 61
18 Kvennablaðið 23 árg. 8. tbl. (ágúst 1917), bls. 57–58 [„Dýrtíðarráðstafanir stjórn-
valdanna“].
19 Sjá umfjöllun um þetta í Kvennablaðið 23. árg 8. tbl. (ágúst 1917), bls. 57–58
[„Dýrtíðarráðstafanir stjórnvaldanna“].
20 Fundargerð bæjarstjórnar Reykjavíkur 16. ágúst 1917.
21 Lbs.-Hbs. (Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn). Kristín Ástgeirsdóttir,
„Málsvari kvenna eða „besta sverð íhaldsins“? Ingibjörg H. Bjarnason og ís -
lensk kvennahreyfing 1915–1930“. MA-ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands
2002, bls. 159; Auður Styrkársdóttir, From Feminism to Class Politics. The Rise and
Decline of Women’s Politics in Reykjavík, 1908–1922 (Umeå: Umeå universitet
1998), bls. 178.
Saga vor 2013 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 8.5.2013 12:22 Page 61